Sunnudagur 13. október, 2024
-1.5 C
Reykjavik

Safna ryki og sýna í Bankastræti

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Listamennirnir Kristinn Arnar Sigurðsson og Högna Jónsdóttir standa fyrir vægast sagt óvenjulegri sýningu í Núllinu galleríi, Bankastræti 0, en þar munu þau sýna portrettmyndir sem eru unnar úr ryki frá heimilum fólks.

„Við köllum þetta abstrakt portrett myndir af því að ryk er að hluta til leifar af fólki, húðflögur og hár, þræðir úr fötum og þess háttar. Þess vegna má segja að þetta séu myndir af því,“ lýsir Kristinn og bætir við að hugmyndin á bakvið sýninguna sé að skoða manneskjuna í gegnum ryk. Skoða hvað ryk fólks eigi sameiginlegt og hvað geri ryk þess einstakt.

Hann segir að myndirnar séu unnar úr ryki frá heimilum fólks úr ólíkum áttum, allt frá iðnaðarmönnum upp í stöðumælaverði. Upphaflega hafi þau Högna ætlað að safna rykinu saman með því að fara inn á heimili fólks og ryksuga en fólki hafi nú fundist það aðeins of mikið af því góða. „Lendingin var því sú að það ryksugaði bara sjálft og við fengjum svo að sækja pokana. Ótrúlega margir eru reyndar með svona hreinsiróbóta heima hjá sér í staðinn fyrir ryksugur og það hefur orðið til þess að við mætum bara heim til fólks með poka eða dósir og það fyllir á sjálft,“ segir Kristinn og viðurkennir fúslega að ferlið í kringum þetta sé búið að vera svolítið spaugilegt. „Já já, segir það sig sjálft að það hefur verið svolítið kómískt að standa í þessu.“

„Sumum finnst þetta auðvitað svolítið óvanalegt og skrítið og skilur ekki alveg hvernig þetta komi til með að líta út. En hingað til hefur enginn sagt nei.“

En finnst fólki bara ekkert mál að taka þátt í þessu? „Nei alls ekki. Sumum finnst þetta auðvitað svolítið óvanalegt og skrítið og skilur ekki alveg hvernig þetta komi til með að líta út. En hingað til hefur enginn sagt nei við þessu. Allir hafa tekið vel í þetta og samþykkt að vera með. Enda ekki eins og fólk sé að láta einhver verðmæti af hendi. Ryk er frekar eitthvað sem flestir vilja fegins hendi losna við.“

Vinna verkin fram á síðustu stundu

Listamennirnir Kristinn Arnar Sigurðsson og Högna Jónsdóttir verða með óvenjulega sýningu í Núllinu galleríi, Bankastræti 0.

Að safna ryki er fyrsta sýning sem Kristinn og Högna halda saman, en þau eru bæði myndlistarmenn og hafa í gegnum tíðina fengist við ýmis konar list. Þannig hefur Högna til að mynda hannað og framleitt skartgripi ásamt því að hafa tekið þátt í samsýningum hér heima og erlendis á meðan Kristinn hefur tekið þátt í sýningum og tónlistarútgáfu og unnið við bæði leikstjórn og leikmyndahönnun. Þrátt fyrir að hafa að mörgu leyti fetað ólíkar leiðir í listsköpun sinni eiga þau sameiginlegt að hafa unnið með hluti sem eru þegar til og sett þá í nýtt samhengi. Því má segja að sýningin Að safna ryki, sé rökrétt framhald af því sem þau hafa verið að gera hingað til.

Sýningin verður opnuð í Núllinu galleríi í köld og reiknar Kristinn með að þau Högna verði að vinna verkin fram að því. Hann játar að það sé svolítið stressandi að vera að vinna að sýningunni svona alveg fram á síðustu stundu en hefur þó ekki ýkja miklar áhyggjur af því að það náist þar sem vinnsla verkanna sé tiltölulega einföld. „Um leið og rykið er afhent „steypum“ við það inn í glært sílíkon, sem er ekki flókið tæknilega séð. Auk þess erum við Högna bæði vön því að vinna með mót og mótagerð sem auðveldar verkið. Það hefur eiginlega meiri vinna farið í allt stússið í kringum sýninguna en sjálf verkin, að vekja athygli á henni og svona,“ segir hann og brosir.

- Auglýsing -

En hvað stendur sýningin yfir lengi? „Hún verðuð opnuð núna á sunnudagskvöld, verður opin 17. júní og alveg til 20. júní. Það er því bara um að gera að mæta í Bankastrætið. Allir velkomnir, það verður heitt á könnunni.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -