Föstudagur 26. apríl, 2024
2.6 C
Reykjavik

Sigríður segir Landsréttarmálið vera elítuvandamál: „Játa að þetta var ekki skemmtileg reynsla“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sigríður Andersen steig úr stóli dómsmálaráðherra í mars í fyrra vegna Landsréttarmálsins svokallaða. Þá hafði Mannréttindadómstóll Evrópu dæmt gegn henni varðandi ólögmæta dómaraskipan við réttinn. Hún segir almenning líta á málið sem elítuvandamál.

Sigríður var dómsmálaráðherra frá 11. janúar 2017 til 14. mars 2019 en hún sté til hliðar í kjölfar dóms í Landsréttarmálinu svokallaða frá Mannréttindadómstól Evrópu. Hún hafði áður ákveðið að nýta heimild í lögum til að sneiða hjá fjórum tillögum hæfisnefndar við skipan dómara í nýtt millidómsstig, Landsrétt. Meginreglan í lögum er sú að dómsmálaráðherra skipi dómara þann umsækjanda sem hæfnisnefnd hefur metið hæfastan. Lögin gera þó ráð fyrir því að ráðherra geti vikið frá álit hæfnisnefndar en þarf þá að bera tillöguna undi Alþingi. Það gerði Sigríður. Alþingi samþykkti tillögur hennar um tiltekna 15 einstaklinga. Síðar komst Hæstiréttur að því að þessir 15 einstaklingar væru löglega skipaðir dómarar og ekki tilefni til þess að telja þá vanhæfa á neinn hátt er laut að skipun þeirra. Mannréttindadómstóll Evrópu féllst hins vegar á kröfu sakbornings sem hélt því fram að einn dómarinn sem dæmdi manninum refsingu, fyrir brot sem hann hafði játað, hefði verið vanhæfur í ljósi aðdragandans að skipun hans. Það mál velkist enn um í Strassborg og er ekki lokið.

„Ég hef nefnt það að með þessu pólitíska ati í Strassborg var nokkurs konar frati lýst á íslenska stjórnskipan. Þetta var eins og hefðbundin pólitísk ágjöf. Ég ætla ekkert að draga úr því. Menn nota allt sem hægt er til að að koma höggi á pólitíska andstæðinga og það þarf ekkert að koma neinum á óvart sem er í pólitík. Og ef menn geta ekki staðið í því þá eiga menn ekki að vera í pólitík. Ég játa það alveg að þetta var ekki skemmtileg reynsla þar sem menn notuðu svona tilefni til að höggva í trúverðugleika minn sem stjórnmálamanns. Maður getur þó huggað sig við að tíminn mun draga hið rétta fram í dagsljósið. Menn stigu fram sem ekki höfðu gert það áður og lýstu yfir stuðningi við mig og margir hafa lýst yfir vonbrigðum sínum með hvernig þetta mál þróaðist.“

Hún er spurð hvort henni finnist hún vera svikin vegna málsins. „Það þýðir ekkert að dvelja við slíkt í stjórnmálum. Stjórnmálin eru bara þess eðlis að sumir í stjórnmálum nota hvert tækifæri til þess að höggva í pólitíska keppinauta þannig að það kom ekkert á óvart. Ég steig frá til að gefa stjórnvöldum kost á að taka ákvörðun um hvort þau ætluðu að óska eftir frekari umfjöllun um þetta mál í Strassborg eða ekki.

Í þessu tilfelli ákváðu menn að nota niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu sem gengur í berhögg við Hæstarétt Íslands. Menn hafa ekki ennþá svarað því hvað þeir eru þar með að segja um íslenska dómstóla, Hæstarétt Íslands og íslenska stjórnskipan þegar menn missa fótana við þetta álit Mannréttindadómstóls Evrópu. Þær eru orðnar margar niðurstöðurnar frá Strassborg sem finna sitthvað að í íslenskri löggjöf. Þetta verður allt skoðað og rætt í betra tómi. Nú er beðið niðurstöðu frá svokölluðum yfirrétti.“

Sigríður segist ekki hafa gert kröfu um að koma aftur inn í ríkisstjórn. „Ef ég á að segja alveg eins og er þá held ég að það skipti ekki neinu máli fyrir stöðu mína innan flokksins. Ég finn fyrir miklum stuðningi frá flokkssystkinum mínum um land allt.”

- Auglýsing -

Sigríður bendir á að dómstólar og skipun dómara sé ekki eitthvað sem almenningur hafi mikinn áhuga á. „Ég held þess vegna að mörgum hafi fundist þetta mál vera eins og einhver kallaði það „elítuvandamál“. Fólk vill bara að dómarar séu hæfir til þess að leysa úr ágreiningsefnum og treystir löggjafanum og framkvæmdavaldinu til þess að búa svo um hnútana. Þetta er ekki það sem almenningur horfir til sem stóra málið í stjórnmálum enda ber þetta mál aldrei á góma þar sem ég er, hvorki á pólitískum fundum, í samtölum fólks né í fjölmiðlum. Þetta er ekki mál sem skiptir almenning í landinu máli. Þó held ég því til haga að það þarf að gera breytingar almennt á fyrirkomulagi við skipun dómara. Ferlið þarf að verða gagnsærra og þrákelkni og geðþótti hæfnisnefnda þarf að heyra sögunni til.“

Sigríður er í helgarviðtali Mannlífs. Lestu allt viðtalið hér

Texti: Svava Jónsdóttir. 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -