Miðvikudagur 15. maí, 2024
6.8 C
Reykjavik

„Nóg komið af því að skipstjórar láti stjórnast endalaust af útgerðunum“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Árni Bjarnason, formaður Félags skipstjórnarmanna, segir löngu kominn tíma á það að íslenskir skipstjórar hætti að láta útgerðirnar endalaust stjórna sér. Það er ástæðan fyrir því að félagið tók þátt í að kæra Svein Geir Arnasson, skipstjóra Júlíusar Geirmundssonar ÍS, fyrir frægan Covid-túr fyrstitogararns sem Mannlíf greindi fyrst frá.

Sjóprófum vegna túrsins alræmda er lokið. Endurriti sjóprófanna verður nú komið til Lögreglustjórans á Vestfjörðum, Samgöngustofu og Rannsóknarnefndar sjóslysa. Samkvæmt heimildum Mannlífs gekk málsvörn skipstjórans og útgerðarinnar mikið út á það að þar sem ekki hefði verið um neitt staðfest Covid-smit um borð í togaranum að ræða hafi ekki verið nein ástæða til að snúa skipinu við. Það gerðu þeir þrátt fyrir að umdæmislæknir sóttvarna á Vestfjörðum hafði ítrekað beðið um að skipið kæmi í land til Covid-skimana.

Forsvarsmenn Verkalýðsfélags Vestfjarða furða sig á þeirri gjá sem virðist vera á milli brúar og vélarrúms Júlíusar annars vegar og skipverjanna á dekki hins vegar. Það kemur fram í tilkynningu sem félagið gaf frá sér.

„Efnislega um veiðiferðina má segja að ljóst sé að Covid hafi verið blákaldur raunveruleiki okkar manna á dekki frá fyrstu dögum veiðiferðarinnar sem reyndi verulega á þá bæði andlega og líkamlega. Af spurningum lögmanna sjóprófsþola og vitnisburði vélstjóra virðist vera um annan veruleika að ræða bæði í vél og í brú. Þar álitu menn að um einhverja pest væri að ræða. Samskiptaleiðir um borð eru augljóslega ekki skilvirkar, en virðast upplýsingar um Covid ekki hafa ratað hvorki í vél né í brú,“ segir í tilkynningunni.

Þetta rímar við þá staðreynd hversu lítið var ritað í sjódagbók togarans um Covid þrátt fyrir að skipverjarnir deildu skipinu með veirunni skæðu í þrjár vikur með þeim afleiðingum að þeir smituðust næstum allir. Samt þráaðist útgerðin við að afhenda sjódagbókina í undanfara sjóprófanna. Þegar svo kom að prófunum fyrir rétti neituðu Sveinn skipstjóri og Einar Valur Kristjánsson, framkvæmdastjóri útgerðarinnar, að bera vitni þar sem þeir eru sakborningar í lögreglurannsókn. Sveinn mætti til prófanna engu að síður og sat í salnum á meðan undirmenn hans vitnuðu um túrinn. Það gerði Valdimar Steinþórsson útgerðarstjóri einnig.

Í tilkynningu Verkalýðsfélags Vestfjarða kemur fram að það sé ljóst að Sveinn skipstjóri ætli sér að taka skellinn þrátt fyrir að vitnisburðir í sjóprófi bendi til þess að hann hafi ekki tekið sínar ákvarðanir án aðkomu annarra.

- Auglýsing -

Sautján skip­stjórar hjá útgerðarfyrirtækinu Sam­herja sendu frá sér yfir­lýs­ingu í gær þar sem þeir segja umræðu um COVID-19 smit um borð í tog­ar­anum Júl­íus Geir­munds­syni hafa skaðað ímynd sjó­manna­stétt­ar­inn­ar. Þar gagrýndu þeir harðlega að stéttarfélag skipstjóra hafi kært sinn eigin félagsmann, Svein skipstjóra, til lögreglu.

Nokkur stétt­ar­fé­lög stóðu saman að lög­reglu­kæru á hendur Hrað­frysti­hús­inu Gunn­vör, útgerð Júl­í­usar Geir­munds­son­ar, og kröfð­ust einnig sjó­prófs í mál­inu. Félögin eru Verka­lýðs­fé­lags Vest­fjarða, Sjó­manna­fé­lag Íslands, Sjó­manna­sam­band Íslands, VM – félag vél­stjóra og málm­tækni­manna og Félags skip­stjórn­ar­manna sem Árni stýrir. Hann segir augljóst að útgerðin hafi komið að ákvarðanatökum Covid-túrsins og skýrir aðkomu félagsins að lögreglukærunni með eftirfarandi hætti:

„Við viljum láta reyna á öldruð sjómannalög og það er ljóst að útgerðin er ekki stikkfrí í þessu máli. Ég talaði við skipstjórann á fyrstu stigum málsins og spurði hann að því hvort hann hafi ekki fengið einhverjar leiðbeiningar og leiðsögn frá útgerðinni. Hann sagðist hafa verið í stöðugu sambandi við útgerðina allan túrinn en svo vildi hann ekki segja meira. Það er nóg komið af því að skipstjórar láti stjórnast endalaust af útgerðunum. Það er ástæða númer 1, 2, 3 og 4 fyrir því hvers vegna við förum í þessa kæru því þetta hefur hvílt mjög þung á manni,“ segir Árni.

- Auglýsing -

Þetta eru Samherjastjórarnir sem gagnrýna stéttarfélagið sitt: 

Pálmi Gauti Hjörleifsson, skipstjóri

Kristján Salmannsson, skipstjóri

Oliver Karlsson, stýrimaður

Guðmundur Freyr Guðmundsson, skipstjóri

Markús Jóhannesson, skipstjóri

Árni R Jóhannesson, stýrimaður

Ásgeir Pálsson, skipstjóri

Oddur Jóhann Brynjólfsson, skipstjóri

Gauti Valur Hauksson, stýrimaður

Sigtryggur Gíslason, skipstjóri

Angantýr Arnar Árnason, skipstjóri

Guðmundur Þ Jónsson, skipstjóri

Birkir Hreinsson, skipstjóri

Hákon Þröstur Guðmundsson, skipstjóri

Hjörtur Valsson, skipstjóri

Guðmundur Ingvar Guðmundsson, skipstjóri

Björn Már Björnsson, stýrimaður

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -