Sunnudagur 15. september, 2024
5.2 C
Reykjavik

Vilji til staðar hjá BUGL

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Uppnám ríkir á meðal fjölskyldna trans barna og ungmenna vegna niðurskurðar á Barna- og unglingageðdeild Landspítalans, BUGL. Frá áramótum hefur ekki verið hægt að halda úti trans-teymi, sem gegnir því lykilhlutverki að gera trans ungmennum kleift að komast á lyf vegna hormónastarfsemi, þegar kynþroski knýr dyra. Þetta gengur þvert á ný lög um kynrænt sjálfræði.

Fulltrúar stjórnar Trans vina, Daníel Arnarsson, framkvæmdastjóri Samtakanna ´78, og Ugla Stefanía, formaður Trans Ísland, funduðu með stjórnendum BUGL í síðustu viku vegna þeirrar stöðu sem upp er komin. Þær María Gunnarsdóttir, Birna Björg Guðmundsdóttir, og María Bjarnadóttir segja allar að fundurinn hafi verið mjög góður og að þær hafi fundið fyrir skýrum vilja sérfræðinga BUGL til að fræðast og kynna sér nýjustu rannsóknir á þessu sviði. Þótt heimsóknir til teymisins á BUGL hafi stundum í reynst þeim og stúlkunum þeirra þungbærar, hafi þær skynjað jákvætt viðmót og vilja á meðal stjórnenda BUGL til að gera betur. Þær nefna að þrátt fyrir þessa erfiðu stöðu hafi þær upplifað jákvæða viðhorfsbreytingu.

Birna Guðmundsdóttir. Mynd / Hallur Karlsson

„Það sem ég upplifði, þegar ég fór með dóttur mína þarna í gegn fyrir nokkrum árum, var að geðlæknirinn sem var sá sem átti að segja af eða á gagnvart hormónastoppurum, hafði ekki þekkkingu á virkni lyfjanna sem átti að gefa barninu“

„Þau sögðust vilja læra af börnunum,“ segir Birna um fundinn og bætir við: „Það er svo mikilvægt að BUGL sé góður staður. Að maður komi ekki verri út en maður fór inn.“

Hjá BUGL eru börn sett í greiningu og fyrir þau lögð ýmis próf, svo sem greindarpróf og persónuleikapróf. „Maður hélt kannski að maður fengi svör frá teyminu, en það reyndist ekki vera,“ bætir María Bjarnadóttir við. Samtalsmeðferðir hafi verið mjög takmarkaðar og börnin fyrst og fremst sett í alls kyns próf. „Það skal alveg viðurkennast að þetta hefur ekki alltaf verið góð lífsreynsla. Maður fór oft dapur þarna inn og kom enn daprari út,“ útskýrir María Gunnarsdóttir. Þær lýsa því einnig að þeir geðlæknar sem teymið hefur haft á sínum snærum hafi ekki verið sérfróðir íhormónum eða hormónastopperum, eins og æskilegt væri. „Það sem ég upplifði, þegar ég fór með dóttur mína þarna í gegn fyrir nokkrum árum, var að geðlæknirinn sem var sá sem átti að segja af eða á gagnvart hormónastoppurum, hafði ekki þekkkingu á virkni lyfjanna sem átti að gefa barninu. Það voru aldrei nein samskipti á milli geðlæknanna og innkirtlafræðinganna,“ segir hún.

María Bjarnadóttir. Mynd / Hallur Karlsson

Þær binda vonir við að þetta séu hlutir sem hægt er að breyta og segja að fundurinn veki þeim von um að það geti orðið.

Vanlíðan minnkar við hormónagjöf

- Auglýsing -

Mæðurnar benda á að tilvist teymisins, sem ekki sé starfrækt í þeirri mynd sem það var, sé bundin í lög og að við það verði stjórnvöld að standa. Bagalegt sé að setja börn á viðkvæmum tíma í þá óvissu að þurfa að bíða lengi eftir þjónustu sem þau eiga lögum samkvæmt rétt á. „Það vantar almennan stuðning inn í þetta málefni frá Landspítalanum. Það er mjög erfitt að byggja upp börn sem eru brotin. Við viljum ekki ala upp sjúklinga. Við erum að reyna að forða þeim frá því. Börnum sem hafa ekki fengið að upplifa sig eins og þau vilja hættir til að lenda í fíknivanda,“ segir Birna.

Lestu meira: „Viljum ekki ala upp sjúklinga“

Hún segir að með því að grípa snemma inn í megi spara samfélaginu fjármuni til lengri tíma. „Þetta er svo mikilvæg forvarnavinna. Það er miklu hættulegra að börnin upplifi kvíða og þunglyndi – þannig að maður þarf að vaka yfir þeim vegna hættu á sjálfsskaða – heldur en að gefa þeim hormónastoppera,“ útskýrir Birna. María Bjarnadóttir tekur undir þetta: „Það hefur sýnt sig að kvíði og vanlíðan minnkar svakalega hjá þessum ungmennum þegar þau fá krosshormón.“ „Já, það er þá sem þú losnar við sjúklinginn,“ áréttar Birna.

- Auglýsing -
María Gunnarsdóttir. Mynd / Hallur Karlsson

Fjölskylduráðgjöfin dýrmæt

Spurðar hvar aðstandendur trans barna sæki andlegan stuðning svara þau því til að Samtökin ’78 hafi veitt ómetanlega hjálp. „Það er aðstandendahópur sem hittist einu sinni í mánuði hjá Siggu Birnu [Sigríður Birna Valsdóttir, innsk.blm.], sem er fjölskylduráðgjafi hjá samtökunum,“ útskýrir Birna og bætir við: „Hún er alveg yndisleg. Ég hef mætt á þessa fundi í tvö ár og þar má manni líða eins og maður vill. Maður má vera sorgmæddur, dapur eða reiður. Þetta eru tilfinningar sem þú getur ekki sýnt heima fyrir, fyrir framan barnið þitt. Við þurfum alltaf að vera ótrúlega sterk fyrir þau, jafnvel þó að maður sé brotinn inni í sér vegna einhverra mála. Okkar hlutverk er að hjálpa þeim. Við erum að passa að þau verði ekki fyrir hindrunum, sem eru alls staðar. Lögin sem samþykkt voru í fyrra minnkuðu álagið mikið, sérstaklega þetta sem snýr að nafnabreytingum. En þetta með BUGL er bara mikið áfall.“

„Við erum að reyna að létta börnunum okkar lífið; reyna að stuðla að því að þau eigi góða æsku“

María Gunnarsdóttir bendir á að meðlimir Trans vina tilheyri ósköp venjulegum fjölskyldum. „Ef við fengjum meiri hjálp frá kerfinu gætum við lifað eðlilegu lífi. Við erum bara að berjast fyrir hagsmunum barnanna okkar – að það sé ekki verið að gera þau berskjölduð.“ Birna tekur undir þetta og bætir við: „Við erum að reyna að létta börnunum okkar lífið; reyna að stuðla að því að þau eigi góða æsku.“

Þess má geta að ekki náðist í yfirlækni BUGL vegna málsins.

Lestu umfjöllunina í heild í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -