Miðvikudagur 1. maí, 2024
7.1 C
Reykjavik

Heimsþekkt dragdrottning til landsins

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Rainbow Reykjavík, vetrarhátíð hinsegin fólks, fer nú fram í áttunda sinn. Að sögn skipuleggjenda kennir ýmissa grasa í ár en kynnir hátíðarinn er enginn annar en hin heimsþekkta dragdrottning Detox.

Hannes Páll Pálsson.

„Auðvitað ljær þetta hátíðinni alþjóðlegt yfirbragð að fá svona heimsþekkta stjörnu til liðs við okkur. Við höfum aldrei gert þetta áður, þ.e. að fá svona stórt nafn eins og Detox til að vera gestgjafi út alla hátíðina og það verður hrikalega spennandi að sjá hvernig það kemur út,“ segir Hannes Páll Pálsson hjá ferðaþjónustunni og viðburðafyrirtækinu Pink Iceland, sem hefur veg og vanda af því að skipuleggja hátíðina.

Fyrir þá sem ekki þekkja til er Detox dragdrottning sem skaut fyrst upp á stjörnuhimininn í bandaríska raunveruleikaþættinum RuPaul‘s Drag Race og hefur síðan þá verið eftirsóttur skemmtikraftur um allan heim. Spurður hvernig það hafi komið til að jafn stór stjarna skyldi taka að sér hlutverk kynnis á hátíðinni svarar Hannes því til að Detox hafi einfaldlega óskað eftir því sjálf.

„Já, hún bara bað um það. Hún hefur komið hingað nokkrum sinnum áður og dýrkar Ísland, bæði land og þjóð og er búin að vera góður vinur okkar hjá Pink Iceland frá því að við héldum utan um eina heimsóknina hennar. Þannig að þegar hún frétti að Rainbow Reykjavík stæði fyrir dyrum sóttist hún eftir því að fá að vera kynnir og við slógum til.“

Litskrúðug og skemmtileg dagskrá

Hannes segir að Rainbow Reykjavík sé fyrir löngu búin að festa sig í sessi sem stærsti hinsegin viðburðurinn yfir veturinn. Lögð sé áhersla á að skapa fjölbreytta og skemmtilega dagskrá fyrir fólk á öllum aldri, en á meðal þess sem verður í boði í ár má nefna útsýnisferðir, hinsegin sögugöngu og bingó með Sigríði Klingenberg. Sumir viðburðanna séu svolítið stílaðir inn á þá erlendu gesti sem sæki hátíðina heim, eins og ferð um Gullna hringinn og í Bláa lónið en í boði verði líka fjölmargir viðburðir sem heimamenn ættu ekki síður að geta haft gaman af. Hápunkturinn sé svo án efa ball sem verður slegið upp í Iðnó annað kvöld.

Vetrarhátíðin Rainbow Reykjavík fer nú fram í áttunda sin. Norðurljósaferðir, sundlaugapartý úti á landi og glæsilegt ball annað kvöld eru á meðal viðburða sem eru í boði.

„Ballið er haldið undir formerkjum „masquerade“,“ segir hann. „Það þýðir að gestir eru hvattir til mæta með grímur og í sínu skemmtilegasta pússi, prúðbúið, ögrandi, í raun bara eins og fólki líður best. Við leggjum áherslu á öruggt umhverfi þannig að það getur verið eins og það vill. Þarna munu listamenn troða upp, plötusnúðar þeyta skífum og fólki verður kennt að vogue-a í anda New York senunnar á 9. áratugnum.“

- Auglýsing -

Íslandsdvölin hefur breytt lífi fólks

Að sögn Hannesar er þetta í áttunda sinn sem hátíðin fer fram. Spurður hvor það sé eitthvað sem standi að öllu jöfnu upp úr að mati hinna erlendu gesta segir hann að öðru ólöstuðu sé það tvímælalaust hin íslenska náttúra.

Sumir tala um að heimsóknin hingað hafi hreinlega breytt lífi sínu.

„Hún stendur alltaf vel undir væntingum í allri sinni fegurð og virðist koma fólki sífellt á óvart. Það er mjög hissa á því hvað nándin við náttúruna er mikil, því það er ekki vant því heima fyrir og virðist upplifa þessa nánd bæði við náttúru og þjóð og eins frelsi til að vera það sjálft. Fólk hefur einmitt sérstakt orð á því hvað við Íslendingar tökum vel á móti erlendum gestum. Sumir tala um að heimsóknin hingað hafi hreinlega breytt lífi sínu. Og það eru dæmi þess að fólk komi hingað aftur og aftur, það er svo yfir sig hrifið.“

- Auglýsing -

En hverju skyldi skipuleggjandinn sjálfur vera spenntastur fyrir? „Ballinu,“ svarar hann og brosir.

„Það er sá viðburður á hátíðinni sem ég hlakka alltaf mest til. Sem helgast einfaldlega af því að við vinnum svo mikið meðan á henni stendur en um leið og ballið byrjar getum við stimplað okkur út. Og farið að djamma með hinum.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -