Fimmtudagur 25. apríl, 2024
10.1 C
Reykjavik

EINKAVIÐTAL: Eiríkur á Omega grætur sonarmissi: „Það er svo hræðilega sárt að missa Daníel“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Eiríkur Sigurbjörnsson, stofnandi og sjónvarpsstjóri kristilegu sjónvarpsstöðvarinnar Omega, hefur gengið í gegnum helvíti. Hann hefur misst tvö börn; elsta barn hans dó vöggudauða og í vor lést yngsta barn hans, sonurinn Daníel, sem var þrítugur. Grunur er uppi um að hann hafi látist vegna saknæms athæfis. Eiríkur segir að hann myndi fyrirgefa banamanni sonar síns ef sá myndi iðrast, ganga á Guðs vegi, játa og biðja um fyrirgefningu. Sjónvarpsstjórann dreymdi sem barn um að verða uppfinningamaður eins og Edison, honum fór að finnast martröð að vera í skóla, hann fór að taka hugbreytandi efni þegar hann varð eldri og frelsaðist svo á samkomu hjá Fíladelfíu, rúmlega tvítugur, sem hann hélt fyrst að tengdist ofsatrú þar sem fólki væri dýft í vatn þangað til það sæi dúfu. Ævintýrið hófst í kjölfarið en hann stofnaði síðar kristilega útvarpsstöð og síðar kristilega sjónvarpsstöð. Nú er heimurinn undir. Og segja má að þeim heimi tengist dómur upp á 10 mánaða skilorðsbundið fangelsi og greiðslu 109 milljóna í sekt vegna brota á skattalögum.

„Það sem hjálpar manni líklega langbest er að gráta. Gráta og gráta. Ég græt með einhverra daga millibili kannski í einn til tvo tíma stanslaust. ar nýfermdur, glaður á skellinöðrunni og að prjóna, lífið Það er svo hræðilega sárt að missa Daníel. Allar minningarnar. Rifja upp þegar hann vlasti við og hvað hann hafði brennandi áhuga á að vera í viðskiptum. Hann var mjög klár í öllum viðskiptum og hann hefði plumað sig vel og stóð sig alltaf vel í öllu og var alveg feikilega duglegur. Hann var eftirsóttur í vinnu því hann var það röskur og duglegur,“ segir Eiríkur Sigurbjörnsson, stofnandi og sjónvarpsstjóri kristilegu sjónvarpsstöðvarinnar Omega, í viðtali við Mannlífið með Reyni Traustasyni, en yngsta barn Eiríks, Daníel, lést í vor. Hann fannst að morgni föstudagsins langa liggjandi í blóði sínu á bílastæði og leikur grunur á að dauða hans hafi borið að með saknæmum hætti.

Eiríkur rifjar upp þennan morgun.

„Ég hafði verið snemma á fótum. Vaknaði snemma. Og eins og venjulega fór ég á hnén og bað til Guðs. Þetta er stór dagur, föstudagurinn langi. Ég bað í tvo tíma. Svo las ég um krossfestingu Jesú Krists. Ég var að hugleiða hvað mannskepnan getur verið ótrúlega grimm og hvernig hermenn umkringdu Jesú sem var allur í sárum. Blóðugur. Þeir slógu hann og settu á hann þyrnikórónu og gerðu gys að honum. Þeir voru þvílíkt fjandsamlegir. Ég var að hugleiða þetta klukkan hálfátta. Síðan rúmlega átta fór ég af stað, fór ég út að hjóla. Heilsusamlegt. Síðan kom ég heim rétt um ellefu og þá kom konan mín til dyra og út á stétt náföl og sagði að lögreglan væri búin að hringja og hefði sagt að Daníel hefði fundist særður úti á götu, það væri búið að fara með hann á spítala og hann væri kominn á gjörgæslu. Ég varð alveg máttlaus. Ég hringdi og það var sagt að hann hefði fundist, væri skaddaður og væri í öndunarvél.“

Daníel fór í aðgerð og í ljós kom að ástandið var alvarlegra en haldið hafði verið í fyrstu og lést hann í kjölfarið. Hann var þrítugur.

Mæðginin Kristín Kui Rim og Daníel Eiríksson. Hún sá ekki sólina fyrir syni sínum.

Frumburður Eiríks og eiginkonu hans, Kristínar Kui Rim, sem er frá Suður-Kóreu, lést vöggudauða. Það var sonurinn Kristinn og kvaddi hann þennan heim þriggja mánaða gamall árið 1987. „Við höfum þurft að ganga í gegnum mjög erfiða tíma, ég og konan mín. Það var hræðilegt áfall. Mikil tár og mikil sorg sem við þurftum að ganga í gegnum. Það er svo yndislegt fólk til. Við fengum svo góðan stuðning og bænir. Og ekki síst þegar tárin runnu, þá huggaði Jesús mann. Mestu og bestu huggunina fékk ég þegar Guð faðmaði og huggaði mig.“

- Auglýsing -

Eiríkur er spurður hvort það sé eitthvað verra til en að missa barnið sitt.

„Ég held ekki. Ég var að hugleiða þetta. Mig minnir að það hafi verið Egill Skallagrímsson sterki; hann hafði misst son sinn. Það var ekki hægt að ræða við hann. Það var svo mikill harmur. Ég var að hugleiða í morgun að þegar Jakob, ættfaðir Ísraelsmanna sem átti mörg börn, frétti, sem var raunverulega ekki rétt, að sonur hans, Jósef, hefði dáið, þá varð hann ekki viðræðuhæfur. Það var ekki hægt að ræða við hann. Harmurinn var það mikill.“

Ég græt með einhverra daga millibili kannski í einn til tvo tíma stanslaust.

Við höfum þurft að ganga í gegnum mjög erfiða tíma, ég og konan mín.

Ekki slys

- Auglýsing -

Eiríkur segir að Daníel hafi lifað „riskí“ lífi. Hann hafði verið í neyslu en snúið við blaðinu og verið edrú í sjö mánuði þegar hann féll skömmu áður en hann dó.

„Freistingarnar voru svo miklar að Daníel féll. Hann átti að fara í meðferð eða hitta lækni á föstudeginum langa, en hann var í neyslu um nóttina. Vinkona hans, kærasta hans, vaknaði og tók eftir að hann var ekki á staðnum. Hún kíkti svo út og sá hvar hann lá í blóði sínu. Þetta er alveg hræðilegt. Maður var settur í gæsluvarðhald en var leystur út eftir fjóra til fimm daga. Sverrir, sonur minn, sagði að þetta hlyti að vera hræðilegt áfall fyrir þann sem olli þessu, ef þetta var slys; okkur datt í hug hvort við ættum að ræða við hann og hugga hann, ef þetta hefði verið slys. En nokkrum dögum síðar var hann farinn að dilla sér á fullu, selja eiturlyf og gera alls konar kúnstir án þess að sýna nokkra iðrun. Þetta veit lögreglan.

Daníel lést í blóma lífsins.

Kærasta Daníels var búin að lifa mjög erfiða tíma. Loksins fann hún þann sem hún elskaði, var búinn að gefa henni von, var góður við hana og stappaði stálinu í hana. Stúlka sem talaði við hana sagði að móðir sín hefði orðið vitni að þessu og sagði henni í smáatriðum það sem móðir hennar hafði sagt henni. Hún sagði að það hefði verið ógeðslegt að sjá manninn í sömu peysunni þegar vettvangsrannsókn vat gerð og þegar hann framdi þetta ódæði. Hún sagði að þetta hefði ekki verið slys. Daníel datt niður og maðurinn keyrði yfir hann og bakkaði síðan yfir hann. Kærasta hans vildi hitta mömmu stúlkunnar, sem var til í það, en svo þegar þær hittust þá sagðist konan aldrei hafa séð þetta. Fólk er hrætt. En hvernig vissi hún að maðurinn hafði verið í sömu peysunni?“

Voru illindi á milli Daníels og umrædds manns?

„Já, það sem varpar efa á að þetta hafi verið óviljaverk er að akkúrat ári áður, upp á dag, þá rændi þessi náungi gullmeni sem mamma Daníels hafði gefið honum. Upp á dag. Daníel var aldrei sáttur við það og vildi fá það til baka en honum hafði verið hótað dagana á undan og var töluvert smeykur. Hann sagði á áfangaheimilinu, sem hann var á, að honum hefði verið hótað. Það hafði farið að renna af honum þarna um morguninn og hann þurfti meira. Þá kom þessi sendiboði sem auglýsti á Instagram eða hvað það heitir og Daníel sá það og þá var það akkúrat maðurinn sem hafði rænt af honum ári áður.

Það eru margir sem leiðast út á óheillabraut en innst inni vilja þeir lifa öðruvísi lífi og ég hugsa og get sagt það hérna að ef þessi viðkomandi einstaklingur iðraðist, breytti til, gengi á Guðs vegi, játaði og beiddist fyrirgefningar þá væri ég fyrsti maður til að rétta fram höndina og reyna að hjálpa honum, vegna þess að ég hef reynslu af því að hjálpa þeim sem eru komnir í þennan farveg. Ég myndi fyrirgefa honum. En eins og staðan er í dag þá gengur hann ekki á Guðs vegi og fyrr eða síðar verður hann öðrum og sjálfum sér til skaða ef hann er ekki stoppaður af.“

Ég myndi fyrirgefa honum.

Eiríkur segir að Daníel hafi verið með gott upplag og átt mikla og bjarta framtíð. „Það var búið að ganga mikið á og það var svo góður árangur að nást. Hann var glæsimenni. Vel byggður, fallegur og með gott hjarta. Vinir hans eru í áfalli og ég hef þurft að hitta sérstaklega einn vin hans sem er enn þá í áfalli. Sumir hafa ekki treyst sér til að fara að leiðinu hans. Fleiri hundruð manns sáu útförina. Hann var vinmargur og þetta var mikil hryggð fyrir alla. Einn vinur hans sagði að Daníel væri sá einstaklingur sem væri með besta hjarta sem hann hefði nokkurn tímann kynnst. Annar sagðist ekki hafa talað íslensku þegar hann var í skóla og hefði verið lagður í einelti, en það var einn sem tók hann að sér og það var Daníel. Stúlka sem hafði verið í partíi með Daníel þótti ekki vera nógu fín og var henni vísað á dyr. Daníel fór út til að hugga hana.“

Já, það sem varpar efa á að þetta hafi verið óviljaverk er að akkúrat ári áður, upp á dag, þá rændi þessi náungi gullmeni sem mamma Daníels hafði gefið honum.

Orð Guðs upp í gervihnött

Eiríkur Sigurbjörnsson er Reykvíkingur. Bjó sem lítið barn í bragga um tíma en man þó fyrst eftir sér þegar fjölskyldan var flutt á Flókagötuna.

„Allt í einu fékk ég vitrun þegar ég var átta eða níu ára gamall. Upplifun. Þá sagðist ég vita hvað ég ætlaði að verða þegar ég yrði stór. Ég ætlaði að verða eins og Edison. Þá sagði systir mín að ég yrði að vera duglegur að læra. Nei, nei – Edison hætti í skóla þegar hann var smákrakki og honum vegnaði mjög vel og ég ætlaði að verða uppfinningamaður. Ég hafði mikinn áhuga á öllu slíku.“

Árin liðu.

„Ég var eins og hver annar unglingur. Vildi frjálsræði og var áhugasamur um að gera skemmtilega hluti, spennandi hluti, og var í góðum félagsskap. En það endaði þannig að við fórum að fikta með vín og það leiddi að öðru. Síðan fann ég engan tilgang í því að vera í skóla. Mér fannst það vera algjör martröð. Mér fannst vera svo heimskulegt að læra algebru vegna þess að ég vissi að ég myndi aldrei nota algebru í lífinu. Af hverju að eyða tíma í það?

Það varð breyting á mínu lífi árið 1974,“ segir Eiríkur en þá fór hann á samkomu í Fíladelfíu með kunningja sínum sem átti kunningja sem hafði frelsast. „Ég hugsaði síðan með mér út í hvað ég væri að fara núna; Fíladelfía tengdist ofsatrú og þeir héldu fólki ofan í vatni og slepptu ekki fyrr en það sæi dúfu. Ég hélt að þetta væri eitthvað furðulegt en samt sem áður var ég búinn að lofa kunningja mínum að koma.“ Eiríkur heyrði að maður sem hefði verið í neyslu væri frelsaður og hann hugsaði með sér að þetta væri eitthvað sem passaði honum ef hann gæti „frelsast frá þessu veseni“.

 Fíladelfía tengdist ofsatrú og þeir héldu fólki ofan í vatni og slepptu ekki fyrr en það sæi dúfu.

Það varð ekki aftur snúið. Eiríkur fann nýjan veg til að ganga eftir í lífinu.

„Það breyttist allt eftir að ég komst til lifandi trúar. Þá fékk ég góða og mikla sýn,“ segir Eiríkur og nefnir boðskapinn sem var fluttur í Fíladelfíu og nefnir Einar Gíslason predikara sem talaði undir miklum innblæstri og segir að skemmtilegir Biblíulestrar hans séu ógleymanlegir.

Eiríkur hugsaði með sér að margir fengjust ekki til að fara á samkomur en að allir sætu fyrir framan sjónvarpstækin. „Þá sá ég að besta leiðin til að flytja orð Guðs til landsmanna væri í gegnum sjónvarp.“ Þetta var í kringum 1975. Eiríkur stundaði síðan nám við Biblíuskóla í Noregi í níu mánuði og kom aftur til Íslands árið 1976. Hann var þá 26 ára. Hann fór að skoða hvað þyrfti til að stofna sjónvarpsstöð en honum fannst þetta vera svo dýrt og sá ekki fyrir sér að þetta yrði hægt. „En síðan, þegar við komumst til trúar, þá lærum við það að fyrir Guð eru allir hlutir mögulegir.“

Árin liðu og árið 1986 var svo leyfi gefið frjálst til að stofna útvarps- og sjónvarpsstöðvar. „Ég fékk sterka sannfæringu um hver væri vilji Guðs og í stað þess að byrja á sjónvarpi hugsaði ég með mér að það væri léttara að byrja með útvarp og sótti ég um útvarpsleyfi og fékk leyfi mjög fljótlega. Síðan var hafist handa við að finna sendi og loftnet og annað sem til þurfti.“

Kristilega útvarpsstöðin Alfa fór síðan í loftið sama ár. Hvað með fjármagn? „Ég settist niður og skrifaði bréf til bræðra og systra í trúnni og sagði að nú væri tækifæri fyrir okkur að ná til þjóðarinnar með fagnaðarerindið. Fólk byrjaði að leggja fram stuðning og hægt og sígandi fengum við fjármagn til þess að fjármagna þetta.

Ég settist niður og skrifaði bréf til bræðra og systra í trúnni og sagði að nú væri tækifæri fyrir okkur að ná til þjóðarinnar með fagnaðarerindið.

Eftir tvö og hálft ár var oft á brattann að sækja vegna þess að trúarleiðtogar í öðrum söfnuðum voru kannski ekkert ánægðir með að ég væri að tala til þeirra sauða og þeir voru kannski hræddir um sinn hag. Það hófst svakalegur bardagi og mótstaða. Ég varð verulega undrandi, en síðan höfðum við bræður og systur úr öllum samfélögum sem stóðu með okkur.“

Eiríkur, sem vildi verða uppfinningamaður eins og Edison, hugsaði lengra. Hann hugsaði um heiminn sem er stærri en Ísland. „Guð vill að við förum með fagnaðarerindið út um allan heim. Þá fór ég að athuga með útvarpssenda sem myndu ná frá Íslandi út um allan heim og ég rannsakaði hvað til þurfti.“

Enn leið tíminn og dimman nóvemberdag árið 1991 stóð Eiríkur inni á baðherbergi heima hjá sér. „Þá allt í einu birti til á baðherberginu og ég heyrði mjög sterka og ákveðna rödd mjög djúpt innra með mér segja að ég ætti að byggja upp kristilega sjónvarpsstöð á Íslandi. Ég lyfti upp höndum og sagði: „Drottinn, ég veit að þú ert að tala og ég ætla að hlýða þér því ég veit að þú verður með.“ Þá vissi ég nákvæmlega hvað ég þurfti að gera.“

Það var hægt að leigja sendi og í júlí árið 1992 hóf sjónvarpsstöðin starfsemi sína. Og enn liðu árin. Eiríkur hefur stækkað veldi sitt og árið 2002 var sent beint upp í gervihnött og dagskrá dreift inn á milljónir heimila í Skandinavíu.

Ég lyfti upp höndum og sagði: „Drottinn, ég veit að þú ert að tala og ég ætla að hlýða þér því ég veit að þú verður með.“

Guð vill að við förum með fagnaðarerindið út um allan heim.

Dæmdur fyrir skattabrot

Eiríkur hefur verið dæmdur í 10 mánaða skilorðsbundið fangelsi. Þá þarf hann að greiða 109 milljónir í sekt vegna brota á skattalögum. Hann var dæmdur fyrir að hafa ekki gefið upp tekjur upp á 78,5 milljónir á árunum 2011–2016 í tengslum við starfsemi Omega og þannig komist hjá því að greiða skatta upp á 36 milljónir. Fram kom í dómi héraðsdóms að Ei­rík­ur hefði árið 1992 hafið starf­semi Omega, en hann og kona hans voru eig­end­ur fé­lags­ins Omega Krist­ni­boðskirkja auk Global Missi­on Network ehf. og Gospel Chann­el Evr­ópa ehf. Í síðast­nefnda fé­lag­inu var rek­in er­lend starf­semi Omega og var fé­lagið með reikn­inga í Nor­egi og greiðslu­kort þar.

Rík­is­skatt­stjóri hóf árið 2016 að eig­in frum­kvæði skoðun á notk­un á er­lend­um greiðslu­kort­um hér á landi. Í fram­hald­inu var notk­un Ei­ríks á kort­um í nafni Global Missi­on tek­in til skoðunar og var hann síðar ákærður vegna máls­ins. Í dóm­n­um er farið yfir að Ei­rík­ur hafi fengið greiðslur frá Omega en að þær hafi svo verið færðar sem skuld á Global Missi­on og að þar hafi safn­ast upp skuld Ei­ríks við fé­lagið. Var skuld­in met­in sem hinar van­fram­töldu tekj­ur og féllst dóm­ur­inn á það. Seg­ir í dóm­n­um að ótví­rætt sé að um­rædd út­hlut­un af fjár­mun­um Global Missi­on til Ei­ríks hafi verið lán sem bar að skatt­leggja sem laun og færa til tekna, enda var lánið óheim­ilt sam­kvæmt ákvæðum laga um einka­hluta­fé­lög, en eig­end­um er óheim­ilt að taka lán frá eig­in fé­lög­um. Sem fyrr seg­ir var Ei­rík­ur dæmd­ur í 10 mánaða skil­orðsbundið fang­elsi, en tekið er fram að tals­verðar taf­ir hafi verið á meðferð máls­ins. Þá er hann dæmd­ur til greiðslu þre­faldr­ar þeirr­ar upp­hæðar sem hann var fund­inn sek­ur um að hafa kom­ist hjá að greiða, eða sam­tals 109 millj­ón­ir.“

Það eru tekjur sem ég hafði erlendis sem valda mér þessum vandræðum.

„Það er í undirrétti og það er búið að áfrýja því vegna þess að við undum ekki niðurstöðunni,“ segir Eiríkur sem segir að hann hafi verið sýknaður af 10 mánaða skilorðsbundnu fangelsi en ef hann geti ekki greitt þá sé það fangelsi.

Omega er orðið að stórveldi undir stjórn Eiríks.

„Það verður að taka betur á þessu og það verður gert. En allir þeir sem starfa með mér og eru tengdir mér vita að Omega er ekkert inni í þessu. Þetta eru mín persónulegu mál. Það eru tekjur sem ég hafði erlendis sem valda mér þessum vandræðum. Ég hef aldrei reynt að svíkja undan skatti. Aldrei stolið pening. Allt rekjanlegt. Málið snýst um að þetta voru erlendar tekjur sem ég áleit alltaf að væru færðar inn sem laun og fyrir mér er þetta raunverulega svolítið mér að kenna, að fylgjast ekki með ef það er þannig. Það er mikilvægt að fylgjast með bókhaldi og bókhaldsvinnu,“ segir Eiríkur sem vildi ekki læra algebru í skóla. „Ég er með góðan bókhaldara og það er ekkert við hann að sakast, en það getur ýmislegt farið úrskeiðis sem er ekki hægt að höndla. Þegar betur er að gáð eru kannski ekki allir hlutir 100% í lagi og það vita menn sem reka fyrirtæki. Maður hefði átt að vera vakandi.“

Eiríkur Sigurbjörnsson vill fara enn lengra með orð Guðs. Hann segir að það séu mjög bjartir tímar fram undan. „Við höfum tækifæri til að fara inn á sjónvarpshnött sem dreifir inn á 139 milljónir heimila í Evrópu, Norður-Afríku og Mið-Austurlöndum. Við stefnum að því.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -