Miðvikudagur 8. maí, 2024
5.8 C
Reykjavik

Drekkt fyrir að eignast barn með mági sínum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Frumraun Þóru Karítasar Árnadóttur, bókin Mörk – saga mömmu, vakti athygli þegar hún kom út fyrir nokkrum árum, en í henni sagði Þóra Karítas örlagaríka sögu móður sinnar. Nú er von á annarri bók frá Þóru sem byggir sömuleiðis á raunverulegum atburðum, aftökum við Drekkingarhyl þar sem konum var drekkt fyrir dulsmál og blóðskömm.

„Þetta er allt frekar óraunverulegt núna en á sama tíma gerist það svolítið hratt. Ég skilaði inn handritinu í ágúst sem er svolítið seint fyrir jólabókaflóðið en nú er verið að kanna hvort hægt verði að hraða bókinni í búðir fyrir jól svo já, það er ekki laust við að það séu fiðrildi í maganum og spennandi að vita hvort það náist,“ segir Þóra Karítas sem hefur undirritað samning við Forlagið vegna útgáfu nýrrar skáldsögu.

Bókin byggir á raunverulegum atburðum, en hún segir sögu Þórdísar nokkurrar Halldórsdóttur sem hlaut þau skelfilegu örlög að vera drekkt í Drekkingarhyl. „Hugmyndin kviknaði í draumi sem ég ákvað að taka mark á,“ segir Þóra Karítas, þegar hún er spurð út í tilurð sögunnar, „og úr varð að ég valdi að skrifa um eina konu af þeim átján sem voru teknar af lífi á tímum stóradóms á Íslandi. Fyrir valinu varð Þórdís Halldórsdóttir sem endaði ævina í Drekkingarhyl fyrir þá sök að hafa eignast barn með mági sínum eftir að hafa verið vinnukona á heimili systur sinnar.“

„Þessi bók hefur ferðast með mér víða og verið hluti af lífi mínu mjög lengi.“

Hún viðurkennir að það hafi verið skelfilegt að lesa sér til um þessa atburði. „Já, það er alveg gott að koma upp úr kafinu eftir þetta grúsk,“ segir hún.

Örlagaríkir atburðir

Þetta er önnur bókin sem Þóra Karítas sendir frá sér. Fyrri bók hennar Mörk – saga mömmu kom út árið 2015 og vakti athygli á sínum tíma og hlaut bæði jákvæða dóma og fínar viðtökur. Spurð hvort nýja bókin eigi eitthvað skylt með þeirri fyrri segir Þóra Karítas að vissar hliðstæður séu fyrir hendi. „Já, að því því leyti til að þessi bók er innblásin af raunverulegri sögu og snýst að mestu um örlagaríka atburði í lífi íslenskrar konu,“ útskýrir hún. „Ég tek mér þó mun meira skáldaleyfi í þessari bók enda er ég að skrifa um atburði sem áttu sér stað í lok sextándu aldar og byrjun þeirrar sautjándu.“

- Auglýsing -

Tayler Swift kemur við sögu

Og Þóra Karítas sækir innblástur víða, þar á meðal í vinsæla dægurlagatexta. „Fyrstu setninguna eða kaflann í bókinni skrifaði ég eftir að hafa séð í matarboði, inni á baðherbergi, snyrtiveski með áletruninni So don´t you worry your pretty little mind, people throw rocks at things that shine,“ lýsir hún, en segist ekki hafa vitað hvaðan kvótið kæmi, en það hafi hins vegar orðið til þess að hún varð að fara heim að skrifa. „Svo fann ég síðar út, með aðstoð frú Google, að kvótið væri í Taylor Swift og lagið hennar Ours,“ segir hún og hlær.

Löng meðganga

- Auglýsing -

Aðspurð segir Þóra Karítas að bókin hafi verið í vinnslu í nokkurn tíma. „Já, en í tarnavinnu með löngum pásum inn á milli þar sem ég sinnti öðrum verkefnum,“ tekur hún fram. „Í maí 2017 fékk ég úthlutað litlu vinalegu listamannahúsi hjá Hveragerðisbæ og var þar í heilan mánuð. Bókasafnið í Hveragerði reyndist vera mikill gullmoli, það átti allar bækurnar sem ég þurfti að kíkja í til að komast af stað, annála auk bóka sem innihéldu greinar sem höfðu verið skrifaðar um Þórdísarmálið. Svo vann ég einnig að bókinni í einn mánuð í Kjarvalsstofu í október sama ár, þannig að þessi bók hefur ferðast með mér víða og verið hluti af lífi mínu mjög lengi.“

Fékk spark í rassinn

Þóra Karítas segir að eflaust hefði hún ekki klárað bókina nema vegna þess að hún hlaut þrisvar sinnum úthlutun úr launasjóði listamanna í þrjá mánuði í senn, einkastyrk sem barst óvænt og svipaði til einna listamannalauna, og svo frá Rithöfundasambandinu lokastyrk til að klára lokasprettinn. „Fyrir allt þetta er ég afar þakklát,“ segir hún og brosir, „því það gaf mér spark í rassinn og styrkti einbeitingar-, þrjósku- og úthaldsvöðvann.“

Hvenær reiknar hún svo með að bókin komi fyrir sjónir almennings? „Vonandi í vetur,“ segir hún vongóð, „eða í besta falli þegar hún er alveg tilbúin, það er að segja eftir prófarkalestur, umbrot, kápuvinnu og prentun.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -