2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

„Af hverju erum við að standa í þessu hljómsveitarbrölti?“

Guðmundur Jónsson, tónlistarmaður og tækniteiknari, var að senda frá sér nýja plötu ásamt félaga sínum og nafna Guðmundi Gunnlaugssyni. Platan heitir Punch, er í rokkuðum blússtíl og flest lögin frumsamin eftir þá félaga.

„Dúettinn heitir GG blús af því að við berum báðir nafnið Guðmundur og grunnstefið í tónlistinni okkar kemur frá blúsnum. Félagi minn Gunnlaugsson spilar á trommur og ég á gítar og svo syngjum við báðir,“ segir Guðmundur sem var í hljómsveitinni Sálinni hans Jóns míns um árabil. Nafni hans gerði garðinn frægan í bítlabandinu Sixtíes og blúsbandinu Kentár, ekta blúsari inn að beini. „Við erum búnir að þekkjast lengi og höfum spilað oft saman í gegnum tíðina, en þetta samstarf hófst 2017, stuttu eftir að ég flutti út á Álftanes þar sem Gummi hefur verið búsettur frá barnæsku. Í einhverju bríaríi og leiðindum ákváðum við að hittast einn daginn í æfingahúsnæðinu hans og fremja einhvern hávaða. Planið var alltaf að fá einhverja aðra með til liðs en fáir eru eins æfingaglaðir og við, þannig að við létum þetta bara virka tveir með þartilgerða gítarfetla og hugvitsemi í útsetningum. Við æfðum slatta af sígrænum ábreiðum af meiði blúsrokksins, tónlistarstefnu sem hugnast okkur báðum og búið er að gera ansi góð skil í gegnum tíðina en fyrir okkur var ferskt að arka þessa margtroðnu slóð svona fámennir. Það lá auðvitað beinast við að nefna dúettinn GG blús og síðan voru knæpur Reykjavíkur og nágrennis heimsóttar og flutningurinn og þel slípað. Hápunktinum var síðan náð er við spiluðum á Blúshátíð Reykjavíkur við góðan orðstír fyrr á þessu ári.“

GG blús á sviði á Blúshátíð Reykjavíkur. Mynd/ Ásta Magnúsdóttir.

„Hvað viljum við fá út úr lífinu?“
Félagarnir í GG blús hafa síðasta hálfa árið unnið að sinni fyrstu plötu. Hún inniheldur sjö frumsamin lög og þrjár ábreiður. Hún skartar þremur góðum gestum, þeim Sigurði Sigurssyni á munnhörpu, Jens Hanssyni á saxófónn og pönk-blús-goðsögninni Mike Pollock, sem syngur og semur einn ópus með þeim. „Á plötunni tekst frasaskotin gítarvinna á við óhaminn trommusláttinn og grípandi sönglínur fljóta yfir með tregafullum enskum textum, ásamt hljóðbrotum og þankagangi úr ýmsum áttum. Við erum trúir blúshefðinni en samt móttækilegir nútímanum,“ segir Guðmundur en textarnir eru allir á ensku þar sem þeir voru með áferðina á verkinu í huga. „Á plötunni eru þrjár ábreiður á ensku og okkur fannst stílbrot að hafa innan um þau lög sungin á íslensku. Textarnir eru viljandi hafðir ansi tregafullir, enda heitir bandið GG blús, þó að stundum komi uppbyggilegur tónn af og til.“

Platan ber heitið Punch, eftir samnefndu lokalagi plötunnar. „Textinn hugnast okkur ágætlega sem lokahnykkur því hann endar á línunum „Your baby‘s smile, your songs and rhymes are the real things you leave behind“, sem eru hugrenningar sem við höfum oft verið að gantast með er við höfum spurt okkur í augnabliks vonleysi, af hverju erum við að standa í þessu hljómsveitarbrölti – hvað er það sem við viljum fá út úr lífinu og komum til með að skilja eftir.“

AUGLÝSING


Sálin var einstök
Nú er þessi tónlist tiltölulega ólík því sem þú hefur gert til dæmis með Sálinni, hefur þú alltaf verið mikill blúsari og rokkari inn við beinið? „Ég held að flestir gítarleikarar og sérstaklega af minni kynslóð hafi óhjákvæmilega orðið fyrir áhrifum af blúsnum. Ég hef kannski núna síðustu árin fyrst leyft mér að sleppa mér lausum, hef komið að fjórum rokkplötum undanfarin misseri, tveimur með hljómsveitinni Nykur og einni með Trúboðunum og svo er það þessi. Sálin var einstök hljómsveit með frábærum listamönnum og það varð alltaf til einhver galdur er við unnum saman. Hún var fyrst og fremst poppband með ræturnar í sálartónlist, en tókst líka á við marga aðra stíla og stundum rokk. Svo er alltaf hollt að taka áskorun reglulega og finna nýja vinkla. Með GG blús var það uppsetningin á bandinu sem heillaði mig strax, okkur langaði til að láta tónlistina virka með því að brúka eingöngu grunnelementin; gítar, trommur og söng. Þá fer maður að hugsa út fyrir kassann og skemmtilegir hlutir gerast; virkja andann í hömlum naumhyggjunnar og þeim spilastíl sem við höfum verið að þróa með okkur við ábreiðuflutningin undanfarin misseri.“

„Sálin var einstök hljómsveit með frábærum listamönnum og það varð alltaf til einhver galdur er við unnum saman.“

„Engin leið að hætta“
Aðspurður um önnur verkefni segist Guðmundur oftast vera á útopnu, með milljón járn í eldinum og þannig vilji hann hafa það. „En fyrst og fremst er ég fjölskyldumaður, á yndislega konu og fjóra stráka. Svo hef ég unnið heiðarlega vinnu undanfarin ár sem tækniteiknari hjá arkitektastofunni Arkís, aldeilis frábæru fyrirtæki og síðan þegar færi gefst þá stelst ég frá og þjóna tónlistargyðjunni. Ég vann í sumar við að teikna og taka upp og hljóðblanda GG blús plötuna, en seinnipartinn í júní fórum við fjölskyldan í frí til Frakklands og London sem var æðislegt – stund milli stríða,“ segir Guðmundur.
Platan er nú þegar komin út á Spotify og síðan er hægt að niðurhala hana frá Bandcamp gegn vægu verði. „Svo er von á geisladisknum á næstu dögum sem fer snarlega í þessar fáu verslanir sem enn selja tónlist í handfjatlandi umbúðum. Útgáfutónleikar verða síðan á Hard Rock Café, Lækjargötu, föstudagskvöldið 30. ágúst næstkomandi.
Hvað annað er fram undan? „Fyrir utan að fleyta þessari plötu áfram niður strauminn og spila í kjölfarið helling af tónleikum, þá er svo sem ekkert fast í hendi, nema auðvitað óvissan og kvíðinn. En ég verð fljótur að leggja við eyru við eitthvað skemmtilegt ef ég þekki mig rétt – það er engin leið að hætta eins og frægur poppari orðaði það svo réttilega hér um árið.“

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is