2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Afglæpavæðing neysluskammta – mun portúgalska leiðin virka hér?

Í nýju frumvarpi er lagt til að varsla á neysluskömmtum fíkniefna verði ekki lengur refsiverð. Einnig verður lögreglu óheimilt að gera upptæk efni neytenda, enda hefur þeirra hvorki verið aflað á ólögmætan hátt né þau í ólögmætri vörslu.

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins, sem lagt var fram á Alþingi 7. október og vísað til velferðarnefndar 9. október. Meðflutningsmenn frumvarpsins eru átta þingmenn Pírata, Samfylkingar, Vinstri grænna, Viðreisnar og Flokks fólksins.

Halldóra Mogensen

„Það var tekið vel í frumvarpið af flestum þeim sem tóku þátt í umræðunni enda liggur fyrir þverpólitísk samstaða um að hætta að refsa fólki sem á við fíknivanda að stríða. Fulltrúar allra flokka í velferðarnefnd skrifuðu undir nefndarálit með frávísunartillögu á seinasta þingi vegna neyslurýma þar sem nefndin beinir því til heilbrigðisráðherra að vinna markvisst að því að afnema refsingar fyrir vörslu á neysluskömmtum fíkniefna,“ segir Halldóra í samtali við Mannlíf. Og bætir við að hún sé vongóð um að frumvarpið verði að lögum. „Þetta snýst um skaðaminnkun, að viðurkenna raunveruleikann og bregðast við með aðferðum sem virka og með mannréttindi í fyrirrúmi.“

Tveggja greina frumvarp

AUGLÝSING


Frumvarpið er einungis tvær greinar og samkvæmt því er lagt til í fyrstu grein að annarri grein laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 verði breytt á þann veg að:

1. mgr. orðast svo: Meðferð ávana- og fíkniefna, sem talin eru upp í 6. gr., er óheimil á íslensku forráðasvæði samkvæmt því sem nánar segir í 4. mgr. og 4. mgr. orðast svo: Innflutningur, útflutningur, sala, skipti, afhending, framleiðsla og tilbúningur efna er greinir í 6. gr. er bannaður, með þeirri undantekningu, sem getur um í 3. mgr. Hið sama gildir um vörslu efna þegar magn þeirra er umfram það sem talist getur til eigin nota.

Samkvæmt annarri grein frumvarpsins munu lögin öðlast gildi við samþykki þeirra.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að verði það að lögum verði innflutningur og útflutningur fíkniefna, sala þeirra, skipti, afhending, framleiðsla og tilbúningur efnanna áfram bannaður. Hið sama gildir um vörslu efna í svo miklu magni að það geti ekki talist til eigin nota. Þannig er öruggt að áfram verður hægt að sakfella fyrir það sem kann að teljast alvarlegri brot á lögum um ávana- og fíkniefni, en refsingum ekki beitt gegn neytendum fíkniefna.

Lögreglu ekki heimilt að gera neysluskammta upptæka

Aðspurð um viðbrögð lögreglunnar við frumvarpinu svarar Halldóra að hún hafi fengið jákvæð viðbrögð frá einstaklingum innan lögreglunnar, en einungis óformlega. „Formleg viðbrögð koma væntanlega á næstu vikum í formi umsagnar við málið.“

Verði frumvarpið að veruleika mun lögreglu vera óheimilt að gera upptæk efni neytenda enda hafi þeirra hvorki verið aflað á ólögmætan hátt, né þau í ólögmætri vörslu.

Arinbjörn Snorrason, formaður Lögreglufélags Reykjavíkur, er staddur erlendis í fríi og gat að svo stöddu ekki svarað fyrirspurnum Mannlífs vegna frumvarpsins.

Heilbrigðismál að afglæpavæða neysluskammta

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að undanfarin ár hafi íslenskt samfélag sammælst um að mikilvægt sé að aðstoða fólk með fíknivanda frekar en að refsa því og að veita þeim sjálfsagða heilbrigðisþjónustu. Vísað er til Portúgals sem fordæmis um góðan árangur af afglæpavæðingu neysluskammta. Árið 2001 voru samþykkt lög þar í landi um að varsla neysluskammta væri ekki refsiverð. Þrátt fyrir ágreining um lögin á sínum tíma og efasemdir um árangur þeirra, hafa þær raddir þagnað og í dag er fjöldi vímuefnaneytenda hlutfallslega mjög lítill miðað við önnur lönd í Evrópu. Einnig hefur glæpum tengdum vímuefnaneyslu fækkað verulega á þeim átta árum sem lögin hafa verið í gildi.

Í lok greinargerðarinnar segir: „Brotthvarf frá refsistefnu sem gengur út á að jaðarsetja neytandann víkur því nú um allan heim fyrir stefnu sem byggist á því að veita neytendum sem á þurfa að halda viðeigandi þjónustu. Með samþykkt frumvarps þessa mundi Ísland skipa sér í fremstu röð hvað varðar heilbrigðisþjónustu og mannúðlega nálgun gagnvart þeim neytendum vímuefna.“

Hvað er neysluskammtur?

Ekki kemur fram í frumvarpinu eða lögum um ávana- og fíkniefni hvað neysluskammtur sé eða hvernig lögreglu beri að meta það á vettvangi. „Hugtakið neysluskammtur verður að endurspegla það magn sem einstakur neytandi þarf á að halda til eigin neyslu. Þetta getur verið breytilegt eftir efnum og eftir einstaklingum. Það er nú þegar rík hefð hjá lögreglu um hversu mikið magn getur talist til dreifingar og sölu og hversu mikið getur talist minni háttar og þá til eigin neyslu. En valdið til að túlka þetta frumvarp ef það verður að lögum verður að endingu hjá dómstólum, til dæmis ef upp koma vafamál,“ segir Halldóra.

Í ársskýrslu Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir árið 2018 kemur fram að rúmlega 1600 fíkniefnabrot voru skráð hjá embættinu í fyrra og var málafjöldinn svipaður og árið á undan. Langflest þeirra sneru að vörslu og meðferð ávana- og fíkniefna, eða um 1240. Málum vegna flutnings milli lands og sölu og dreifingar fíkniefna fækkaði lítillega milli ára. Verði frumvarpið að veruleika má því gera ráð fyrir að skráðum fíkniefnabrotum muni fækka, jafnvel verulega.

 

 

 

 

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is