Fimmtudagur 9. maí, 2024
6.8 C
Reykjavik

Cat atvinnuljósmyndari: „Mér líður svo vel á Íslandi – það er eins og ég sé komin heim“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég hafði heyrt svo góða hluti um Ísland; mjög falleg náttúra, skapandi fólk, gott tónlistarlíf og mikil menning og nýsköpun. Ég hafði aldrei komið til Íslands, en innsæi mitt var að segja mér að prófa það svo ég flutti hingað árið 2018. Ég þekkti engan, ég var ekki með vinnu og ég átti ekki neinn samastað, svo það var rosalega erfitt! Fyrstu tveir mánuðirnir voru erfiðastir og tóku á í sálinni, ég var mjög einmana. En sem betur fer harkaði ég af mér og ég eignaðist góða vini og byrjaði að fá vinnu við ljósmyndun. Síðan þá hef ég elskað að búa hér.“

Þetta segir Cat Gundry-Beck ljósmyndari Mannlífi. Cat kemur frá Írlandi en hún settist að á Íslandi fyrir rúmlega þremur árum og hefur verið að gera góða hluti innan ljósmyndaheimsins.

Sé fyrir mér að búa hér til lengri tíma
Cat er atvinnuljósmyndari og vídeó-framleiðandi: „Mér líður svo vel á Íslandi, það er eins og ég sé komin heim og því sé ég fyrir mér að búa hér til lengri tíma.“

Sem ljósmyndari er mikilvægt fyrir hana að myndir hennar ýti undir sjálfstraust viðkomandi. Myndirnar eru oftast af fólki sem er að kynna sig eða fyrirtæki eða auglýsingamyndir af fólki sem er að nota ákveðna vöru.

Módel: Sigrún Hanna. Fatahönnuður: Laima Udre Förðunarfræðingur: (make up artist). Tatyana Guðbjörnsdottir

„Annars hef ég brennandi áhuga á tísku, svo ég elska að vinna með fatahönnuðum við tískumyndatökur, sérstaklega úti í íslenskri náttúru.“

Að heyra konur segja hvetjandi sögur
Cat gerðist félagi FKA (Félagi kvenna í atvinnulífinu) nokkrum mánuðum eftir að hún flutti til Íslands. Hún fann strax þegar hún gekk í FKA hversu velkomin hún var.

- Auglýsing -

„Að heyra konur segja hvetjandi sögur um ferðir sínar hjálpaði mér að trúa því að ég gæti það líka. Það hjálpaði mér að átta mig á því hversu ástríðufull ég er fyrir jafnrétti kynjanna og sjálfstyrkingu, en ljósmyndageirinn hefur verið mikill karlaheimur og ég vil alls ekki leika fórnarlambið.

Ég vil vinna í þessum geira til að hjálpa við að jafna kjörin og sýna yngri kynslóðum að það er möguleiki fyrir konur að vinna í hvaða hlutverki sem þær vilja og hafa áhuga á.

FKA hefur einnig hjálpað Cat mjög mikið að læra íslensku. Hún hefur gaman af því að fara á viðburði félagsins og hlusta á erindin á íslensku. „Konurnar þar eru svo hvetjandi og skilningsríkar, við spjöllum saman á íslensku og þær tala hægt fyrir mig,“ útskýrir Cat fyrir okkur áhugasöm.

Búa til sögur í myndunum
Cat lærði BA í ljósmyndun við háskóla í Englandi og útskrifaðist árið 2014. Til að byrja með starfaði hún í London og lærði margt, en hana langaði í meira ævintýri svo hún flutti til Noregs og bjó þar í tvö og hálft ár. Þar vann hún sem ljósmyndari á auglýsingastofu í Bergen og þar eftir við ljósmyndaferðir í Tromsø.

- Auglýsing -
Módel – Håkon Broder Lund

„Ég hef verið að vinna að mörgum spennandi verkefnum undanfarið! Ástríða mín er að hjálpa fólki að ná markmiðum sínum, svo ég elska að taka myndir sem hjálpa þeim að kynna sig eða auka viðskipti sín. Ég hef unnið með staðbundnum fyrirtækjum, eins og Næra, sem er að búa til svo nýstárlegt og ljúffengt snakk, Gull og Silfur, þar sem er að finna hæfileika og ástríðu, og COLLAB, sem hefur búið til virkilega einstaka vöru. Það er einstaklega gaman að vinna með þeim. Ég hef mikinn áhuga á sálfræði og ég vil nýta mér hana til búa til sögur í myndunum, t.d. mynd af vinum sem njóta saman snarls í sumarbústað eða á fjalli, þessi nálgun getur hjálpað fólki að tengjast vörunni og getur verið áhugaverðari en að sjá vöru með hvítum bakgrunni meðan þeir skrolla á samfélagsmiðlum.“

Myndar fyrir Reuters, New York Times, BBC og The Guardian

Eldgosið í Geldingadölum var algjör draumur fyrir Cat. „Ég var að mynda fyrir Reuters-fréttastofuna og myndirnar og myndböndin mín voru notuð um allan heim: á forsíðu New York Times, BBC, CNN, The Guardian, o.s.frv. Það hefur verið algjört ævintýri að ganga að gosinu svona margoft.“

Cat var að opna fyrirtæki, CGB ehf. og hún lýsir fyrir okkur spennandi tímum fram undan.

„Fyrirtæki mitt er ljósmynda- og myndbandafyrirtæki og ég ætla að halda áfram með svipuð verkefni og ég hef verið að vinna með og búa til jólaauglýsingamyndir og vídeó. Að þessu sinni hef ég ákveðið að vinna meira með teymi: fyrirsætum, förðunarfræðingum, stílistum o.s.frv. vegna þess að ég trúi því að þegar teymi sérfræðinga vinnur saman að sama markmiði verði myndir mun eftirminnilegri.“

Í dag vinnur hún með fatahönnuðum eins og Gracelandic. Gracelandic býr til ótrúlegan silkifatnað og hefur brennandi áhuga á sjálfbærni og jafnrétti: „Það eru einmitt svona verkefni sem ég vil styðja.“

Cat talar ótrúlega góða íslensku, en hana langar að tala hana reiprennandi sem fyrst og henni finnst mikilvægt að leggja sig fram til að aðlagast samfélaginu: „Og það er gaman að læra og að tala.“

Það sem hefur komið henni mest á óvart er hversu margar dyr opnast í ljósmyndun, hún segist hafa kynnst ótrúlegum stöðum og fólki sem hún hefði ekki haft ástæðu til að hitta og sjá annars.

Módel: Norris Niman. Fatnaður: Farmers Market. Stílisti: Emma Romeijn

 

 

„Mér finnst líka einstaklega gaman að hlusta á sögur fólks og ná þessum sögum fram í ljósmyndinni á sama tíma og ég fæ að heyra og læra um annan heim. Ljósmyndaferðalag mitt hefur verið mjög áhugavert og skemmtilegt og ég er alltaf að læra eitthvað nýtt.“

Cat hefur verið dugleg að halda utan um ljósmyndasamfélagið hér á landi með því að skipuleggja veislur svo að allir geti hist og spjallað um fagið.

„Ég lít ekki á ljósmyndun sem keppni, við höfum öll okkar eigin stíl og styrkleika og við getum öll lært af hvert öðru. Ég er t.d. með aðra ljósmyndara reglulega heima við, þar sem við deilum hlutum eins og Photoshop-tækni og viðskiptahæfni. Samfélag ljósmyndar hér á landi er mjög samheldið.“

Cat hefur upplifað mikla jákvæðni hér á landi og fundist hún vera velkomin: „Ég elska að búa í þessu fallega landi! Ég hef lært svo mikið um sjálfstyrkingu og mig langar til að dreifa áfram þessari jákvæðni; einhver verður að taka stóru verkefnin að sér, af hverju ekki þú?“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -