2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Hálauna-Ísland þarf að sýna ábyrgð

„Samfélagið allt er að fá mjög þarfa áminningu,“ segir Ögmundur Jónasson um stöðuna á vinnumarkaði.

Ögmundur Jónasson, fyrrverandi formaður BSRB, þingmaður og ráðherra, segir að baráttan sem háð er á vinnumarkaðnum í dag sé ekki tilkomin að ástæðulausu. Hann telur sig jafnframt sjá teikn á lofti um að staðan sé farin að líkjast því sem viðgekkst á árunum fyrir hrun þar sem kjarabilið fór dýpkandi.

„Það sem er að gerast núna er að samfélagið allt er að fá mjög þarfa áminningu. Það er verið að hrista vel upp í þjóðfélaginu og ég tel það vera mjög tímabært og þakkarvert að það sé gert,“ segir Ögmundur og bætir við: „Sá lærdómur sem hálauna-Ísland þarf að draga af því sem nú er að gerast er að líta inn á við. Hálauna-Ísland þarf að hugleiða sína ábyrgð á því hvernig komið er.“

Ögmundur kveðst ekki sjá nein augljós útspil fyrir stjórnvöld til að liðka fyrir viðræðum en bendir á að húsnæðismálin hvíli þungt á herðum lágtekjufólks. „Ég er á þeirri skoðun að það eigi að setja stóraukið fjármagn í félagslegar íbúðir á vegum sveitarfélaganna til að auka framboðið. Síðan þarf að hugleiða kjör húsnæðislánanna og hvernig megi koma til móts við fólk í því efni,“ segir hann og bendir á að húsnæðis- og námslán séu að buga marga. „Það á kannski við um ýmsa millitekjuhópa en þeir fara að banka upp á fljótlega.“

Þá segir Ögmundur að það megi ganga lengra í að vinda ofan af kostnaði í heilbrigðiskerfinu og bendir á að þar sé nú þegar verið að stíga mikilvæg skref. „Ég held að ríkið geri ekkert í einu snarhasti en það þarf einfaldlega að draga úr launamun í þjóðfélaginu, þar liggur ábyrgðin ekki hjá verkalýðshreyfingunni, heldur hjá þeim sem sitja hinum megin borðsins. Það er viðskiptaráðið allt eins og það leggur sig sem hefur horft að einhverju leyti inn í opinbera geirann en aldrei í spegil. Kannski er kominn tími til að hálauna-Ísland fari að horfa í spegil.“

AUGLÝSING


 

Kvót: „Það sem er að gerast núna er að samfélagið allt er að fá mjög þarfa áminningu.“

Myndatexti: Ögmundur Jónasson, fyrrverandi formaður BSRB, þingmaður og ráðherra.

Mynd/ Heiða Helgadóttir

Ekki missa af þessum

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is