2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Tók mér aldrei tíma til að vera góð við mig

Þótt leiklistin eigi hug leikkonunnar Láru Jóhönnu Jónsdóttur nánast allan hefur hún þó fleiri áhugamál, hún er meðal annars útskrifaður kundalini-jógakennari. Svo notar hún tónlist til að kjarna sig.

Lára Jóhanna hefur undanfarið fengið mikla athygli fyrir frábæra frammistöðu í hlutverkum sínum í Lof mér að falla og Flateyjargátu. Í Flateyjargátu leikur Lára einstæðu móðurina Jóhönnu og eflaust ekki einfalt að setja sig inn í tíðaranda þess tíma sem þættirnir gerast á. „Ég var náttúrlega ekki fædd á þessum tíma og get ekki sett mig inn í hvernig fólk hugsaði þá,“ segir hún.

„Nema auðvitað út frá handritinu, eins og maður gerir alltaf. Það er nefnilega á endanum þannig að allt sem maður er að fjalla um er í handritinu þannig að ég reyni bara að tengja við söguna sem við erum að segja. Hún inniheldur allt sem þetta samfélag var að takast á við. Ég lagðist ekki mikið í einhverjar sögulegar pælingar, nema hvað ég kynnti mér sögu femínista á þessum tíma  og hlustaði á franska tónlist frá tímabilinu, þar sem karakterinn er að flytja heim frá París þegar þættirnir byrja. Ég er mjög mikið með tónlist í eyrunum á tökustað til að kjarna mig, annars stekkur hugurinn bara út um allt og það er erfitt að einbeita sér.“

Þegar Lára er spurð hvort hún hafi lesið bókina Flateyjargátan, fer hún pínulítið hjá sér og segist ekki vita hvort hún eigi að vera að uppljóstra því, en nei hún hafi aldrei lesið hana.

Ég forgangsraðaði þannig að bókin væri ekki hluti af undirbúningi fyrir hlutverkið.

„Ég byrjaði reyndar að lesa hana og var komin vel á veg þegar ég áttaði mig á því að karakterarnir í bókinni og karakterarnir í þáttunum eru mjög ólíkir. Þannig að ég forgangsraðaði þannig að bókin væri ekki hluti af undirbúningi fyrir hlutverkið. Ég er mjög spennt fyrir að lesa hana samt og geri það kannski núna þegar ég hef tíma. Þetta er svo stórt hlutverk og ég þurfti að nýta tímann vel til að setja mig inn í þetta þannig að ég vildi ekki sóa tíma í eitthvað sem kæmi ekki að gagni, mér fannst það bara rugla mig hvað þessir karakterar eru ólíkir.“

AUGLÝSING


Lára fer með lítið hlutverk í annarri seríu af Ófærð sem verður frumsýnd um jólin en annað er ekki væntanlegt á skjáinn frá henni. Hún er nú á fullu að æfa í sýningunni Þitt eigið leikrit eftir bekkjarbróður hennar úr Listháskólanum, Ævar Þór Benediktsson.

Það er ansi erfitt hlutverk, þar sem áhorfendur fá að velja framvindu verksins. „Ég er ekki hundrað prósent viss um töluna en ég held það séu 36 útgáfur af leikritinu sem við þurfum að læra,“ útskýrir hún. „Það verður frumsýnt í lok janúar og ég er rosalega spennt að taka þátt í þessu. Síðan fer ég að æfa í uppfærslu Stefans Metz á Loddaranum, Tartuffe, sem verður frumsýnd í vor. Annað er ekki komið á dagskrána hjá mér ennþá, enda er þetta feykinóg til að takast á við í bili.“

Jóga kennir manni hvað skiptir máli

Þótt leiklistin eigi hug hennar nánast allan hefur Lára þó fleiri áhugamál, er meðal annars útskrifaður kundalini-jógakennari. „Ég kenni reyndar ekkert núna,“ segir hún.

„Ég kenndi svolítið á tímabili en það fer bara ekki vel saman við vinnuna mína. Það byrjaði með því að ég fór í kundalini-jógatíma og bara heillaðist algjörlega af því. Það var í fyrsta sinn sem ég kynntist því að veita sjálfri mér nokkurs konar helgistundir í daglega lífinu. Ég hafði aldrei tekið mér tíma til að vera bara í núinu og vera góð við sjálfa mig. Mér fannst jógakennaranámið eiginlega bara rökrétt framhald. Ég hafði aldrei verið í neinum andlegum pælingum, ég var svo mikill nörd og jógað setti hlutina í samhengi fyrir mér.“

Ég er reyndar ekki grænmetisæta eins og margir sem stunda jóga

„En ég stunda alls konar jóga og allan þann lífsstíl sem tengist því; fer í jógatíma og hugleiði, mæti á möntrukvöld og svo framvegis. Eitt af því sem heillar mig við jógað er að þar kynnist maður félagslífi sem er dálítið ólíkt því sem maður er vanur, til dæmis syngjum við mikið saman sem er eitthvað sem maður gerir yfirleitt ekki nema vera í kór. Ég er reyndar ekki grænmetisæta eins og margir sem stunda jóga en ég borða rosa sjaldan kjöt, kannski fimm sinnum á ári, og er mjög meðvituð um að borða sem minnst af því, en auðvitað breytir jógað lífsstílnum heilmikið. Ég held að það hafi haft mjög djúpstæð áhrif á mig að læra jóga, ekki bara á lífsstílinn heldur líka á lífssýnina, á það hvernig maður tæklar hlutina og hvernig maður metur hvað það er sem skiptir máli. Mér finnst það eiginlega stærsta gjöfin sem jógað hefur gefið mér. Ekki það að vera í súperformi eða vera ótrúlega liðug, heldur meira bara slaki gagnvart lífinu almennt.“

Þrátt fyrir að jógaiðkun geti kennt fólki hvað skiptir máli í lífinu, segir Lára erfitt að svara því hvað skipti hana máli. „Það er erfitt að svara því þannig að það meiki sens,“ segir Lára hikandi.

„En ég er til dæmis mjög lítið fyrir það að setja mér markmið eða að ætla að ná eitthvert eða sjá fyrir mér hvar ég verð eftir einhvern ákveðinn tíma. Það er auðvitað frábært ef maður hefur virkilega drauma um að komast eitthvert ákveðið, en mér finnst jógað hafa kennt mér að ekkert skiptir í raun og veru máli – og ég meina það í jákvæðum skilningi. Engin ein ákvörðun skiptir máli heldur eru það allar 170 ákvarðanirnar sem þú tekur á hverjum degi sem móta líf þitt. Það eru litlu hlutirnir sem skipta máli þegar upp er staðið. Það virkar alla vega fyrir mig að vera ekki á þönum við að fylla upp í einhverja mynd af því hvernig maður heldur að lífið eigi að vera, heldur bara að leyfa hlutunum að vera eins og þeir eru og muna að það sem maður er að gera í dag er nóg. Að bara vanda sig við hvert einasta verkefni, það nægir. Að vera bara hér og nú í góðum samskiptum við fólk og vera ekki alltaf að reyna að hafa allt frábært. Það þarf ekkert alltaf allt að vera eitthvað ótrúlega æðislegt, heldur er æðislegast þegar hlutirnir eru venjulegir. Stundum gef ég hlutum of mikið vægi og verð stressuð yfir þeim en ef ég tek aðeins úr sambandi og skoða stóra samhengið þá eru hlutir sjaldnast eins mikilvægir og maður heldur.“

Ég hef drauma um að fá að vinna við það sem ég hef áhuga á og er ótrúlega þakklát fyrir það ef ég fæ verkefni í mínu fagi.

Lára segist ekki hafa drauma um að komast á samning í Hollywood og slá í gegn á heimsmælikvarða. „Nei, alls ekki,“ segir hún og hristir höfuðið. „Ég hef drauma um að fá að vinna við það sem ég hef áhuga á og er ótrúlega þakklát fyrir það ef ég fæ verkefni í mínu fagi. En ef það gerist ekki þá verð ég náttúrlega bara að búa mér til eitthvað annað að gera. Það nægir mér alveg. Frægð og frami heilla mig ekki. Aðalatriðið er að vera sátt í deginum, hvað sem hann býður mér upp á. Njóta þess að vera með dóttur minni og kærustunni að gera hversdagslega hluti saman. Það er alveg nóg.“

Viðtalið við Láru má lesa í heild sinni í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Myndir / Hákon Davíð Björnsson
Förðun / Perla Kristín förðunarfræðingur Urban Decay

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is