Miðvikudagur 20. september, 2023
8.8 C
Reykjavik

Borgarfulltrúarnir fengu himinháa dagpeninga í Bandaríkjunum: „Mér fannst það of mikið“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Borgarfulltrúar Reykjavíkurborgar fengu 82.720 krónur í dagpening í ferð þeirra til Portland og Seattle í Bandaríkjunum.

Myndir hafa birst úr ferð borgarfulltrúar Reykjavíkurborgar til Portland og Seattle, á samfélagsmiðlum en ferðin var farin dagana 20 – 24 ágúst. Samkvæmt skýrslu frá borginni voru áherslur heimsóknarinnar „sjálfbærni, nýsköpun og rannsóknir. Hvernig leiða megi saman
þekkingu og atvinnulíf og hvernig læra megi af stefnu stjórnvalda í Portland og Seattle á því
sviði.“ Þá segir ennfremur í skýrslunni: Þessar borgir hafa undanfarin ár staðið framarlega á sviði háskóla-, nýsköpunar- og tækniumhverfis. Stjórnvöld þar hafa í samvinnu við atvinnulífið byggt upp þekkingarsamfélag með alþjóðasamstarf að leiðarljósi með áhugaverðum árangri á sviði samgöngumála, húsnæðismála, loftslagsmála og atvinnuborgarþróunar. Auk þess hefur Seattle tekist vel upp við að byggja upp hafnarsvæði og spennandi áfangastað fyrir ferðamenn.

Þeir sem fóru í ferðina voru eftirfarandi: Borgarstjóri og aðstoðarmaður hans, borgarráð, borgarritari, samskiptastjóri, teymisstjóri atvinnu- og borgarþróunarteymis, sem og sendinefnd á vegum Íslandsstofu en hún fór með til Seattle.

Mannlíf ræddi við Sönnu Magdalenu Mörtudóttur, borgarfulltrúa Sósíalistaflokksins, sem fór í ferðina, en samkvæmt henni fengu borgarfulltrúarnir alls 82.720 krónur í dagpening í ferðinni.  „Við fórum til Portland og Seattle. Það sem var innifalið var flug, gisting og dagpeningar. Við fengum dagpening upp á 82.720 krónur.“

Sagði Sanna að henni hefði fundist upphæðin of há. „Mér fannst það of mikið og sagði að ég þyrfti ekki á þessu að halda og reyndi að sleppa því að fá það greitt en ég mátti ekki afsala mér greiðslum. Þurfti aðeins að hugsa hvernig það væri best að ráðstafa þessum fjármunum og endaði á því að gefa það til annarra þar sem það kæmi sér vel.“

- Auglýsing -

Þá sagði Sanna að hún hefði uppgötvað að þau sem fóru í ferðina fengu Saga Club punkta frá Icelandair. „Svo kemur í ljós að við fáum saga club punkta á kennitölu okkar frá Icelandair, vegna flugsins. Hafði líka samband við skrifstofu borgarstjórnar vegna þess en það er ekki hægt að aftengja punktana frá kennitölu vegna reglna Icelandair.“

Í ferðinni var gist á tveimur hótelum samkvæmt Sönnu, einu í Portland og öðru í Seattle. „Á hótelinu í Portland beið okkar fín gjöf frá hótelinu fyrir hótelgesti, sem innihélt m.a. gjafabréf fyrir sólgleraugum að andvirði 149 evra. Við þurftum ekki að greiða fyrir að prófa rafhjól, þau sem tóku á móti okkur og kynntu rafhjólin fyrir okkur í Portland, sáu um það.“

Aðspurð um það hver hefði greitt fyrir mat starfsmannanna í ferðinni sagði hún að eitt kvöldið hafi þau farið út að borða en það hafi verið greitt af „aðilum í Portland“, einn hádegisverður hafi borgarfulltrúarnir ekki þurft að greiða fyrir en tók fram að hún vissi ekki hver hefði borgað matinn. „Svo voru einnig tvær móttökur þar sem það voru smáréttir og drykkir sem við greiddum ekki fyrir. Fyrir utan það greiddu borgarfulltrúar fyrir sinn mat.“

- Auglýsing -

Bætti Sanna einnig við að þau hefðu fengið minjagripi að gjöf. „Við fengum einnig minjagripi frá Portland, hluti eins og derhúfu, glas og nælur. Svo greiddum við ekki fyrir rútuferðina frá Portland til Seattle en ég er ekki viss hver sá um þann kostnað.“

Sanna Magdalena sagði að farið hafi verið í ferðina „til að sjá hvað megi læra af öðrum borgum (en þess má geta að Reykjavíkurborg og Seattle gerðu með sér systurborgarsamning árið 1986).“ Sanna hélt áfram: „En mér finnst áherslur ferðarinnar hafa breyst, þar sem að mínu mati er það sem ég tók mest úr ferðinni, samgöngumál, skipulagsmál, hvernig stjórnsýslan er og málefni heimilislaus fólks, þó að vissulega hafi verið fjallað um atvinnumál og þá sérstaklega hvernig þessar hafnarborgir eru að haga sínum málum. Það var átakanlegt að sjá heimilisleysið og neysluna sem var sérstaklega áberandi í Portland og það sýnir hvað það er mikilvægt að bjóða upp á félagslegar lausnir varðandi húsnæði og tryggja þarf að andlegur stuðningur sé til staðar og góð heilbrigðisþjónusta.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -