Þriðjudagur 26. september, 2023
11.8 C
Reykjavik

Dagný segir Kópavog vera að klúðra leikskólamálum: „Stór ástæða kynbundins launamunar“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Dagný Pind, lögfræðingur BSRB, segir Kópavog vera að refsa lágtekjufólki með nýjum breytingum á leikskólamálum í bæjarfélaginu.

Eins og Mannlíf hefur fjallað um hefur Kópavogsbær samþykkt mjög umdeildar breytingar á reglum um leikskóla í bænum og eru margir íbúar bæjarins ósáttir. Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir umdeilda stefnu bæjarstjórnar í málinu. Dagný Pind, lögfræðingur BSRB, tekur undir með ósáttum íbúum.

„Kópavogsbær hefur nú samþykkt afar umdeildar breytingar á umgjörð leikskólamála. Breytingarnar snúast í stuttu máli um að leikskólavist barna upp að 6 tímum á dag verður gjaldfrjáls en öll vistun umfram þann tíma mun hækka í verði og getur munað tugum þúsunda á mánuði fyrir foreldra. Einnig verður flestum leikskólum lokað í kringum páska, jól og vetrarfrí grunnskóla. Þetta á að skapa hvata fyrir foreldra til að stytta dvalartíma barna sinna,“ segir Dagný í pistili sem birtist á heimasíðu BSRB fyrr í dag.

Þá vill Dagný meina að Kópavogsbær sé með ranga forgangsröðun í málinu.

„Mönnunarvandi, álag og veikindatíðni starfsfólks á leikskólum er ekki einsdæmi í Kópavogi. Þessi vandamál eru landlæg í leikskólum og í annarri almannaþjónustu, sérstaklega hjá hefðbundnum kvennastéttum. Það er löngu tímabært að bæta starfsaðstæður og kjör leikskólastarfsfólks. Störfin eru líkamlega og andlega krefjandi og vinnuaðstæður erfiðar og launin í engu samræmi við það. Kvennastörf hafa verið og eru enn vanmetin og ljóst er að leiðrétta þarf það sögulega óréttlæti. Það er spurning um forgangsröðun hjá sveitarfélögum að leggja leikskólunum til nægilegt fjármagn til þess að greiða almennileg laun, tryggja að vinnuálag sé hæfilegt og vinnuaðstæður góðar. Leikskólar eru gríðarlega mikilvæg grunnþjónusta sem flest okkar nýta sér á einhverjum tíma. Leikskólar efla þroska og velferð barna og án leikskóla myndu hjól atvinnulífsins staðna.“

„Foreldrar í Kópavogi hafa eðlilega lýst áhyggjum yfir breytingunum en veruleiki foreldra er afar misjafn og ljóst að einstæðir foreldrar með lítið bakland og lágtekjufólk með fasta 8 tíma viðveru neyðist til að greiða tugþúsundum hærri leikskólagjöld með tilheyrandi kaupmáttarskerðingu í mikilli dýrtíð. Sumir foreldrar hafa vissulega sveigjanleika til að vinna heima og treysta sér til þess að gera það með leikskólabarn eða -börn á heimilinu. Það á þó aðallega við störf þar sem hærri laun eru greidd, til dæmis ýmis sérfræðistörf. Fólk með fasta viðveru á lægri launum hefur ekki sama sveigjanleika – nema það minnki við sig vinnu til að mæta aukinni umönnunarþörf heima fyrir. Þetta er raunveruleiki allt of margra kvenna nú þegar sem leiðir af sér lægri laun og lægri ævitekjur – og er stór ástæða kynbundins launamunar í íslensku samfélagi,“ segir Dagný og tekur fram að Kópavogsbær sé að skapa pressu á konur í hlutastörfum og velti því mönnunarvanda bæjarins yfir á þær. Þá refsi bærinn foreldrum ekki einungis fjárhagslega heldur að bærinn ýti undir foreldrasamviskubit með því að ýja að því að börn sem eru lengi á leikskóla hafi ekki gott af því.

- Auglýsing -

Hægt er að lesa allan pistil Dagnýjar hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -