Mánudagur 6. maí, 2024
2.8 C
Reykjavik

Flutti eldræðu á baráttufundi með Palestínu: „Það er nefnilega ekki allt leyfilegt í stríði“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -
Helga Vala Helgadóttir hélt magnþrungna ræðu á baráttufundi með Palestínu sem haldinn var á laugardaginn. Hún birti ræðuna í heild sinni í gær á Facebook.

Fundurinn á laugardaginn var sá fjölmennasti á Íslandi frá því að þjóðarmorð Ísraela hófst fyrir þremur mánuðum en talið er að ríflega 2.000 manns hafi mætt. Safnaðist fólkið saman fyrir framan utanríkiráðuneytið á Rauðarárstíg og þaðan gekk það fylktu liði niður Laugaveginn og niður á Austurvöll, þar sem haldnar voru tilfinningaþrungnar ræður, enda tilefnið til þess ærið. Ein þeirra sem hélt ræðu var Helga Vala Helgadóttir, lögmaður og fyrrverandi þingkona Samfylkingarinnar en hún birti ræðuna í heild sinni á Facebook í gær.

Í ræðunni einblíndi Helga Vala á þá sem ekki taka „afstöðu gagnvart siðferðislegu ófremdarástandi“ og skýtur bylmingsföstum skotum á ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, sem ekki hefur enn séð ástæðu til þess að fordæma þjóðarmorðið sem framið er í beinni útsendingu fyrir botni Miðjarðarhafs. „“Heitustu staðirnir í helvíti eru fráteknir fyrir þá sem taka ekki afstöðu gagnvart siðferðislegu ófremdarástandi.“  – svo sagði Dante í sínum Guðdómlega gleðileik – Mig langar að leggja út frá þessum orðum, og bera þau upp á valdafólk sem stendur þegjandi hjá þegar lífi er murkað úr tugþúsundum barna og fullorðinna í Palestínu – valdafólk sem ekki svo mikið sem lyftir fingri til að koma þeim til hjálpar. Sum þeirra telja nóg að hvísla sorrý, en nota ekki sinn breiða vettvang til að koma almenningi í Palestínu til hjálpar.“ Þannig byrjar ræða Helgu Völu en í framhaldinu talar hún um að líf ríkisstjórnar Íslands hverfist um það sem hún kallar „þeirra eigið litla stríð“ og segir að meðlimir stjórnarinnar virðist hafa „gleymt tilgangi sínum í stjórnmálum sem fyrr á tímum snerist um að gera Ísland og heiminn allan að betri stað en virðist nú snúast um að gera herbergið í ráðherrabústaðnum að betri stað fyrir ráðherrana 12.“ Bætti hún svo við: „Allt skal gert til að lengja lífið í ríkisstjórn Íslands. Þess vegna má ekki tala um ástandið í Palestínu því það er of pólitískt viðkvæmt þeirra á milli.“

Þá talar Helga Vala um þau mörgu grettistök sem Ísland hefur náð að lyfta í sinni sjálfstæðissögu og nefnir sem dæmi um aðild að Sameinuðu þjóðunum og það þegar við vorum í fararbroddi við að viðurkenna sjálfstæði Palestínu og Eystrasaltsríkjanna. „Hvernig má það vera að það bærist ekki hár á höfði forystufólks ríkisstjórnar Íslands þegar fréttir berast um að 28000 börn í Palestínu hafi ýmist látist eða slasast alvarlega í árásum Ísraelshers frá 7. október síðastliðnum? Þarna erum við bara að tala um börnin en tala látinna í heild eru rúmlega 23.000 og líkast til er tala alvarlega slasaðra nærri 70 þúsund. Samtals eru þetta nærri hundrað þúsund manns á þremur mánuðum. Þessar hamfarir koma ekki á óvart því við upphaf stríðs lýstu ísraelsk stjórnvöld því yfir að þau myndu beita palestínska íbúa slíkum aðferðum að þeim má líkja við þjóðarmorð og brot gegn mannkyni eins og það er skilgreint samkvæmt alþjóðalögum. Með því að meina almennum borgurum um nauðsynjar, vatn, mat, skjól, rafmagn er hægt en örugglega verið að murka lífið úr heilli þjóð. Með því að beina árásum sínum á borgaraleg mannvirki er ljóst að markmiðið er útrýming þjóðar en ekki stöðvun stríðs.“

Því næst snýr Helga Vala orðum sínum að Bjarna Benediktssyni utanríkisráðherra. „„Sagðirðu árás“, spurði íslenski utanríkisráðherrann á upphafsdögum sínum í hinu nýja embætti, þegar blaðamaðurinn vildi heyra um afstöðu Íslands til árása Ísraelshers á almenna borgara í Palestínu. Það er nefnilega ekki allt leyfilegt í stríði. Eins ótrúlega og það hljómar þá gilda þar ákveðnar leikreglur – eða skulum við segja, stríðsreglur.

Hinn íslenski utanríkisráðherra er okkar fulltrúi á alþjóðavettvangi stjórnmálanna og það var hann sem kváði þegar notað var orðið árás um þær hamfarir sem ísraelsher keyrir nú áfram yfir palestínskan almenning.“

Helga Vala segir svo frá þeim mikla stuðningi sem íslensk stjórnvöld sýndu Úkraínumönnum eftir að Rússar réðust á landið, með því að veita flóttafólki þaðan vernd. „Þá höfðum við skjólið en ekki nú. Eini munurinn er vegabréfið og pólitíkin. Palestínsk börn, og allur almenningur má bíða á meðan ríkisstjórn Íslands finnur leið til að geta verið saman í herbergi í ráðherrabústaðnum. Hér á Austurvelli bíða hins vegar fjölskyldumeðlimir eftir því að þau sem þegar hafa fengið dvalarleyfi á Íslandi fái útgefna vegabréfsáritun svo þau komist hingað.“

Að lokum skorar Helga Vala á ríkisstjórn Íslands til að „leggja niður kutana í innbyrðisátökunum, eitt augnablik“ og einblíni á að koma skjóli yfir þær palestínsku fjölskyldur, „hvort sem þau eru enn að bíða svars hér á landi, eru komin með dvalarleyfi hér en komast ekki vegna skorts á Vegabréfsáritun eða eru hér og hafa fengið synjun vegna lagatæknilegra atriða.“
Hér má lesa ræðuna í heild sinni:

„Heitustu staðirnir í helvíti eru fráteknir fyrir þá sem taka ekki afstöðu gagnvart siðferðislegu ófremdarástandi – svo sagði Dante í sínum Guðdómlega gleðileik –
Mig langar að leggja út frá þessum orðum, og bera þau upp á valdafólk sem stendur þegjandi hjá þegar lífi er murkað úr tugþúsundum barna og fullorðinna í Palestínu – valdafólk sem ekki svo mikið sem lyftir fingri til að koma þeim til hjálpar. Sum þeirra telja nóg að hvísla sorrý, en nota ekki sinn breiða vettvang til að koma almenningi í Palestínu til hjálpar.
Eins sorglegt og það er þá hverfist líf ríkisstjórnar Íslands um þeirra eigið litla stríð. Þar virðist fólk hafa gleymt tilgangi sínum í stjórnmálum sem fyrr á tímum snerist um að gera Ísland og heiminn allan að betri stað en virðist nú snúast um að gera herbergið í ráðherrabústaðnum að betri stað fyrir ráðherrana 12.
Allt skal gert til að lengja lífið í ríkisstjórn Íslands. Þess vegna má ekki tala um ástandið í Palestínu því það er of pólitískt viðkvæmt þeirra á milli.
Í annars stuttri sjálfstæðissögu Íslands höfum við náð að lyfta mörgu grettistakinu. Fámennt eyríkið sótti snemma um aðild að Sameinuðu þjóðunum, það var í fararbroddi við að viðurkenna sjálfstæði Palestínu og Eystrasaltsríkjanna. Og við hrósum okkur digurbarkalega fyrir frumkvæðið og hugrekkið en þegar neyðin er mest er pakkað saman og borið við ómöguleika.
Hvernig má það vera að það bærist ekki hár á höfði forystufólks ríkisstjórnar Íslands þegar fréttir berast um að 28000 börn í Palestínu hafi ýmist látist eða slasast alvarlega í árásum Ísraelshers frá 7. október sl.
Þarna erum við bara að tala um börnin en tala látinna í heild eru rúmlega 23.000 og líkast til er tala alvarlega slasaðra nærri 70 þúsund. Samtals eru þetta nærri hundrað þúsund manns á þremur mánuðum.
Þessar hamfarir koma ekki á óvart því við upphaf stríðs lýstu ísraelsk stjórnvöld því yfir að þau myndu beita palestínska íbúa slíkum aðferðum að þeim má líkja við þjóðarmorð og brot gegn mannkyni eins og það er skilgreint samkvæmt alþjóðalögum. Með því að meina almennum borgurum um nauðsynjar, vatn, mat, skjól, rafmagn er hægt en örugglega verið að murka lífið úr heilli þjóð. Með því að beina árásum sínum á borgaraleg mannvirki er ljóst að markmiðið er útrýming þjóðar en ekki stöðvun stríðs.
„Sagðirðu árás“, spurði íslenski utanríkisráðherrann á upphafsdögum sínum í hinu nýja embætti, þegar blaðamaðurinn vildi heyra um afstöðu Íslands til árása Ísraelshers á almenna borgara í Palestínu.
Það er nefnilega ekki allt leyfilegt í stríði. Eins ótrúlega og það hljómar þá gilda þar ákveðnar leikreglur – eða skulum við segja, stríðsreglur.
Hinn íslenski utanríkisráðherra er okkar fulltrúi á alþjóðavettvangi stjórnmálanna og það var hann sem kváði þegar notað var orðið árás um þær hamfarir sem ísraelsher keyrir nú áfram yfir palestínskan almenning.
Fyrir tæpum tveimur árum höfðu íslensk stjórnvöld hins vegar staðið framarlega í stuðningi við Úkraínu vegna árásarstríðs Rússa sem braust út í febrúar 2022 og stóð að veglegum stuðningi við þann fjölda fólks sem hingað kom í leit að vernd, óháð hvaðan það var að koma í raun. Þá höfðum við skjólið en ekki nú. Eini munurinn er vegabréfið og pólitíkin.
Palestínsk börn, og allur almenningur má bíða á meðan ríkisstjórn Íslands finnur leið til að geta verið saman í herbergi í ráðherrabústaðnum. Hér á Austurvelli bíða hins vegar fjölskyldumeðlimir eftir því að þau sem þegar hafa fengið dvalarleyfi á Íslandi fái útgefna vegabréfsáritun svo þau komist hingað.
„En afsakið innilega kæru palestínsku börn – ríkisstjórn Íslands er upptekin, og á meðan svo er þá dynur sprengjuregnið yfir ykkur og fjölskyldur ykkar.“
Stríð eru hryllileg og hryðjuverk eru það líka en getum við ekki verið sammála um að palestínskur almenningur, börn og foreldrar þeirra, sem enga ábyrgð bera á hryðjuverkum eða stríði, eigi rétt á skjóli hér á landi og eigi að vera sótt án frekari tafa til að koma í veg fyrir þær hamfarir sem nú dynja á þjóðinni – hamfarir af mannanna völdum en ekki náttúru?
Ég skora á ríkisstjórn Íslands að leggja nú niður kutana í innbyrðisátökunum – eitt augnablik – og snúa sér að því að finna örugga lausn til að koma skjóli yfir palestínskar fjölskyldur, hvort sem þau eru enn að bíða svars hér á landi, eru komin með dvalarleyfi hér en komast ekki vegna skorts á Vegabréfsáritun eða eru hér og hafa fengið synjun vegna lagatæknilegra atriða.
Fólk frá Palestínu þarfnast okkar, við höfum sýnt að við getum staðið með fólki í svona stórkostlegri neyð og við eigum einnig að gera það núna og það án tafar.
Skömm þeirra sem spila pólitíska tafarleiki þegar um mannslíf barna og foreldra þeirra er að ræða mun ekki gleymast. Við getum kannski ekki stöðvað árásir Ísraelshers og grimmdarverk Hamas samtakanna en við getum skotið skjólshúsi yfir þolendur þeirra myrkraverka. Það eigum við að gera.
Ég vil enda þessa ræðu á að þakka ykkur öllum fyrir að standa hér ekki síst þakka öllum sem staðið hafa vaktina hér undanfarnar vikur því það hjálpar að minnsta kosti mér að missa ekki alveg trúna á mannkyninu.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -