Föstudagur 25. nóvember, 2022
6.1 C
Reykjavik

Sorgarsaga stúlknanna að Laugalandi – „Mér líður illa hér og ég er mjög hrædd við Ingjald“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Nærri 90 prósent þeirra unglingsstúlkna sem vistaðar voru að meðferðarheimilinu Laugalandi, áður Varpholti, upplifðu ofbeldi af hálfu Ingjalds Arnþórssonar forstöðumanns. Yfirgnæfandi meirihluti stúlknanna, nánar tiltekið 88 prósent þeirra eða 30 stúlkur af 34, upplifði andlegt ofbeldi af hans hálfu og um helmingur þeirra ýmist varð fyrir eða varð vitni að líkamlegu ofbeldi á meðferðarheimilinu.

Í ágústmánuði 2007 var fyrst fjallað um ásakanir á hendur Ingjaldi þar sem hann var í DV sakaður um að bæta óeðlilegum aðferðum í samskiptum sínum við sín eigin börn, fyrrum eiginkonu sína, systur hans og skjólstæðingana að Laugalandi. Blaðið fjallaði í fjórgang um meint andlegt og líkamlegt ofbeldi forstöðumannsins, sem sjálfur hafnaði öllum ásökunum á sínum tíma og naut ótvíræðs stuðnings Braga Guðbrandssonar, þáverandi forstjóra Barnaverndarstofu.

Hluti umfjöllunar DV, í ágúst 2007.

Tilefni skrifa DV á sínum tíma var fjöldi ábendinga til Umboðsmanns barna, sem bárust embættinu árið 2001, um ofbeldi og illa meðferð skjólstæðinga að Laugalandi. Tilkynningarnar höfðu þangað borist bæði frá mörgum stúlkum sem ýmist dvöldu þar og eða frá stúlkum og foreldrum þeirra sem það höfðu gert. Stúlkurnar lýstu því að þær væru kallaðar illum nöfnum, meðal annars druslur og hórur, á hverjum degi og þær sagðar geðveikar. Um leið og ný stúlka hafi komið inn á heimilið hafi allt verið gert til að brjóta hana niður andlega. Þær lýstu því að lagðar hefðu verið á þær hendur og þeim hent niður stiga.

Umboðsmaður barna sendi Braga forstjóra strax minnisblað þar sem fram komu áhyggjur af fjölmargra mannréttindabrota af hálfu Ingjalds forstöðumann og „nauðsyn þess að eitthvað verði gert í sambandi við ástandið á Laugalandi“. Þetta er meðal þess sem finna má í minnisblaði umboðsmanns barna, dagsett 15.10.2001.

Minnisblað Umboðsmanns barna til Barnaverndarstofu, árið 2001: „[Þær] hafi verið beittar andlegu ofbeldi. […] þó einnig líkamlegu ofbeldi og svo er um fleiri að þeirra sögn.“
Svo virð­ist sem ásak­an­irn­ar sem voru sett­ar fram hafi lítt eða ekki ver­ið rann­sak­að­ar af hálfu Barna­vernd­ar­stofu og Bragi forstjóri lýsti fullu trausti á Ingjald í sérstakri yfirlýsingu sem birt var í DV á sínum tíma. 

Sjá einnig: Hópur kvenna af meðferðarheimilinu Laugalandi krefst rannsóknar: „Hjálp“

- Auglýsing -

Beitti sér hart

Bragi, þá­ver­andi for­stjóri Barna­vernd­ar­stofu, lagð­ist þungt á rit­stjóra og blaða­mann DV vegna um­fjöll­un­ar um meint of­beldi af hálfu Ingj­alds. Þá beitti Bragi sér fyr­ir því að fé­lags­mála­ráðu­neyt­ið kann­aði ekki ásak­an­ir á hend­ur Ingj­aldi og mælti með að ráð­herra tjáði sig ekki um mál­ið.

Óhætt er að segja að Bragi hafi beitt sér af hörku í þágu Ingjalds þegar fjallað var um ásakanir á hendur honum í DV árið 2007. Hann sagði að tilgangur skrifanna hafi verið að „svipta Ingjald ærunni og skaða það merka uppeldisstarf sem unnið hefur verið undanfarinn áratug af þeim hjónum og samstarfsfólki þeirra. Barnaverndarstofa fordæmir umfjöllun DV í þessu máli og vísar á bug þeim rakalausu fullyrðingum og ósannindum sem þar er að finna. Þannig hefur ekkert tilefni orðið til athugunar á meintum brotum Ingjalds af hálfu Barnaverndar Eyjafjarðar, hvorki gagnvart eigin börnum né unglingum á meðferðarheimilinu. Óhugsandi er að þeim uppeldisaðferðum og ofbeldi sem lýst er í greininni sé eða hafi verið beitt á Laugalandi,“ sagði Bragi í vörnum fyrir Ingjald.

- Auglýsing -

Líkt og DV greindi frá árið 2007, og síðar hefur fengist staðfest, var ítrekað kvartað und­an fram­göngu Ingj­alds, sem for­stöðu­manns Varp­holts og Lauga­lands til Barna­vernd­ar­stofu. Um­boðs­mað­ur barna fékk fjölda ábend­inga um of­beldi og illa með­ferð á með­ferð­ar­heim­il­un­um ár­ið 2001, bæði frá stúlk­um sem þar dvöldu eða höfðu dval­ið og frá for­eldr­um stúlknanna. Ingj­ald­ur starf­aði sem for­stöðu­mað­ur Lauga­lands allt til árs­ins 2007 og hefur alla tíð hafnað öllum ásökunum.

Niðurbrotsheimilið að Laugalandi. Ingj­ald­ur starf­aði þar sem forstöðumaður allt til árs­ins 2007 og hefur alla tíð hafnað ásökunum.

Góður andi í húsinu? 

Meðferðarheimilið Varpholt, sem síðar var flutt að Laugalandi, hóf starfsemi í Eyjafirði sumarið 1997 undir stjórn forstöðumannsins Ingjalds Arnþórssonar. Heimilið var rekið sem fjölskylduheimili og bjuggu Ingjaldur og kona hans, Áslaug Brynjarsdóttir, á heimilinu með tveimur börnum sínum ásamt skjólstæðingum.

Kvörtun til Barnaverndarstofu þar sem 14 ára viststúlka segir hrædd við Ingjald.

Í samtali við DV á sínum tíma undraðist Ingjaldur mjög ásakanirnar. Hann hafnaði því algjörlega að hafa beitt skjólstæðinga sína líkamlegu ofbeldi. „Ég kannast ekki við að hafa nokkurn tímann lýst ofbeldisaðferðum fyrir nokkrum manni. Það er útilokað. Ég kann ekki slíkar aðferðir og get því hvorki hafa beitt þeim né túlkað þær fyrir aðra. Þessu hafna ég alfarið og þannig hefur aldrei verið unnið hérna,“ sagði Ingjaldur.

Mörgum mánuðum eftir að minnisblað Umboðsmanns barna barst Barnaverndarstofu barst embættinu svarbréf þar sem fram kemur „að starfið virðist ganga mjög vel, andinn í húsinu sé góður og stúlkurnar í góðri vinnslu. Vilji meðferðaraðila til að taka athugasemdum og gera betur ef unnt er sé ótvíræður. Stúlkurnar uni sér vel á Laugalandi, þær taki framförum og megi vera óhræddar að taka upp mál sem hvíli á þeim gagnvart meðferðaraðilum því ekki verði betur séð en að þeim verði vel tekið.“

Sjá einnig: Lýsa sorglegu ofbeldi og niðurbroti á meðferðarheimilinu Laugalandi: „Ég var komin í helvíti“

„Hjálp“

Líkt og Mannlíf greindi frá í janúar í fyrra tók tugur kvenna, sem dvaldi á meðferðarheimilinu Laugalandi, höndum saman og fór fram á að farið yrði ofan í saumana á starfsemi heimilisins. Þær lýstu erfiðri og sársaukafullri dvöl og töldu að frásögnum þeirra hafi verið sópað undir teppi af hálfu barnaverndaryfirvalda.

Harpa Dögg Sævarsdóttir, ein kvennanna, óskaði eftir því að kafað yrði ofan í kjölinn á starfsemi heimilisins.  „Við erum einfaldlega að biðja um hjálp. Við viljum skila skömminni og fá það viðurkennt hvernig var komið fram við okkur. Fá afsökunarbeiðni og að fólkið þurfi að svara fyrir hvað það gerði. Þá vonumst við til að komið verði á betra eftirliti með svona heimilum og að hlustað verði á skjólstæðinga sem koma fram með marbletti, áverkavottorð og sjúkraskýrslur. Vonandi getum við fengið ríkisstjórnina með okkur í lið,“ sagði Harpa Dögg.

Gígja Skúladóttir dvaldi líka á Laugalandi og hún lýsti því hvernig hrollur fór um hana þegar hún sá frétt af lokun meðferðarheimilisins og mynd birtist af staðnum. „Frá 14 til 16 ára aldri eyddi ég verstu árum lífs míns á stað þar sem andlegt og líkamlegt ofbeldi fékk að viðgangast. Undanfarið hef ég verið að rifja þennan tíma sem ég var algjörlega búin að loka á, koma ,,útur úr skápnum” með þessa reynslu sem hefur fylgt mikil skömm,“ sagði Gígja og heldur áfram:

„Eftir stendur sú sannfæring mín að Barnaverndarstofa brást okkur stelpunum algjörlega. Þrátt fyrir tilkynningar um ofbeldi, áverkavottorð og krafa frá umboðsmanni barna að rannsaka heimilið varði Bragi Guðbrandsson forstöðumanninn opinberlega, það var ekkert að og ásakanir um ofbeldi ættu ekki við rök að styðast (að hans mati). Málinu var sópað undir teppið og er þar ennþá.“

Harpa Særós

Harpa Særós Magnúsdóttir dvaldi líka á Laugalandi. „Ég átti ekki von á öðru en þetta væri góður staður. Aldrei grunaði mig það sem var í vændum. Að mig myndi langa að jörðu gleypti mig. Ég var kominn í helvíti. Ég var bara barn,“ sagði Harpa Særós.

Sársaukafull dvöl

„Ég kom þaðan mölbrotin,“ segir Teresa Dröfn Freysdóttir Njarðvík um vist sín á meðferðarheimilinu Laugalandi á unga aldri. Líkt og Mannlíf greindi fyrst frá hefur stór hópur kvenna tekið höndum saman og stigið fram með ofbeldissögur gegn þeim meðan þær dvöldu ungar á meðferðarheimilinu að Laugalandi í Eyjafirði. Heimilinu var lokað um áramót og konurnar fara nú fram á raddir þeirra séu teknar alvarlega af yfirvöldum. Konurnar lýsa erfiðri og sársaukafullri dvöl og telja að frásögnum þeirra hafi verið sópað undir teppi af hálfu barnaverndaryfirvalda fram til þessa.

Stundin tók svo undir umfjöllum Mannlífs með ítarlegum hætti þar sem sex konur úr hópnum stigu fram með sögur sínar sem snúa að meintu ofbeldi þáverandi forstöðumanns meðferðarheimilisins, Ingjaldi Arnþórssyni.

Viku síðar fundaði Ásmundur Daði Einarsson, barna- og félagsmálaráðherra, með kvennahópnum sem sakar fyrrum forstöðumann meðferðarheimilisins að Laugalandi, Ingjald , um andlegt og líkamlegt ofbeldi. Konurnar vonuðu að nú yrði loksins hlustað á þær.

„Ég var bara barn“

„Ég var varla komin inn úr dyrunum á Laugalandi þegar ofbeldið byrjaði. Tónninn var mjög skýr og sleginn á fyrsta degi. Ekkert varð aftur eins. Ég kom þaðan mölbrotin. Ég hef aldrei náð aftur almennilegu sambandi við fjölskyldu mína, aldrei náð aftur sjálfstrausti eftir allt niðurrifið þar og get ómögulega treyst fólki, hvort sem það er venjulegt fólk eða aðilar sem eiga að hjálpa,“ sagði Teresa og bætti við:

„Ég vil að barnaverndarnefndirnar viðurkenni að starfsfólk þeirra hafi ekki
fylgst nógu vel með meðferðarheimilinu og í raun þaggað niður það sem þar gekk á. Ég vil almenna viðurkenningu og afsökunarbeiðni. Ég er enn að glíma við afleiðingar þess að hafa lent á þessu heimili og ég var í mörg ár að vinna mig upp úr verstu vanlíðaninni. Ég þjáist af áfallastreituröskun og vistin á Laugalandi á stóran þátt í henni. Ég fæ enn martraðir sem snúast um að ég sé læst þarna inni gegn vilja mínum.“

Brynja Skúladóttir er ein þeirra sem var vistuð á Laugalandi en hún var fjórtán ára gömul þegar hún var vistuð á meðferðarheimilnu. Hún fann strax að þar var engin meðferð í gangi heldur eingöngu boðið upp á niðurbrot þeirra skjólstæðinga sem á heimilinu voru. „Ég var ekki neikvæð þegar mér var sagt að ég yrði send þangað. Líf mitt hafði verið mjög erfitt. Þannig að þegar mér var sagt að ég færi á meðferðarheimili úti á landi var mér létt því ég hélt að ég væri að fá þá aðstoð sem ég þurfti á þessum tíma. Ég áttaði mig á því fyrsta daginn að þarna var ekki verið að bjóða upp á meðferð heldur niðurbrot. Fyrstu dagarnir voru skelfilegir og niðurbrotið hófst strax,“ sagði Brynja.

Nokkrum mánuðum eftir að Brynja kom á meðferðarheimllið kom Gígja, tvíburasystir hennar, þangað líka. „Frá fyrsta degi áttaði ég mig á að þetta var staður þar sem ofríki forstöðumannsins var algjört, þar sem ég var algjörlega valdalaus. Ingjaldur lagði sig allan fram við að berja úr mér allan mótþróa og uppreisn. Ég veit núna að þetta var útpælt ofbeldi. Sú minning er þó sterkust þegar ég var 14 eða 15 ára gömul og þráði ekkert meira en að deyja. Ég bað Guð á hverju kvöldi að leyfa mér að sofna og vakna ekki aftur. Ég óttaðist mest að þurfa að vera þarna til 18 ára aldurs“ sagði Gígja í samtali við Stundina.

Kolbrún Þorsteinssdóttir lýsir einnig erfiðri og sársaukafulltri dvöl á meðferðarheimilinu. „Ég man mjög vel eftir fyrsta deginum mínum þarna. Mér fannst stemningin á staðnum mjög skrítin. Þetta var upphafið að versta tímabili lífs míns sem litaðist af ótta, niðurlægingu og algerri undirgefni. Ég var hrædd hvern einasta dag meðan ég var þarna, upplifði mikið vonleysi. Vanlíðanin var mér næstum um megn,“ segir Kolbrún og heldur áfram:

„Ég er búin að vera að reyna að safna kjarki í mörg ár til að stíga fram og segja frá því sem ég upplifði á meðferðarheimilunum Varpholti og Laugalandi þegar ég var unglingur. Ég vissi alltaf að ég þyrfti að segja frá því sem gerðist.“

Dagný Rut Magnúsdóttir vonar að barnaverndaryfirvöld hlusti á frásagnir þeirra kvenna sem voru vistaðar að Laugalandi. „Það er frelsi í því að skila skömminni af því að ég er búin að sitja ein með þessa vanlíðan alla tíð. Ég var bara barn og átti þetta ekki skilið. Orð lýsa því ekki nógu vel hvernig mér leið þarna. Þetta var hræðilegur tími,“ sagði Dagný Rut.

Haukur bróðir

Í ágústmánuði árið 2007 varð mikil umræða um málefni Ingjalds og Laugalands. Upphafið að þeim má rekja til þess að Haukur Arnþórsson, bróðir Ingjalds, steig fram í DV og hafði áhyggjur af framgöngu bróður síns í garð bæði Áslaugar Brynjarsdóttur, eiginkonu hans en einnig vegna lýsinga sem Haukur sagði að Ingjaldur hefði haft uppi um meðferð á stúlkunum á Laugalandi.

Í DV á þessum tíma var meðal annars fjallað um persónuleg fjölskyldumál Ingjalds og Áslaugar og um rekstur meðferðarheimilisins að Laugalandi. Lýsingar Hauks, bróður Ingjalds, komu þar fram og haft eftir honum að að Ingjaldur hefði lýst því að beita þyrfti stúlkurnar sem dvöldu í Varpholti og síðar Laugalandi líkamlegu ofbeldi. Sagði Haukur að Ingjaldur hefði lýst fyrir honum að hann tæki stúlkurnar meðal annars hálstaki og drægi þær berfættar eftir malarvegi, þar til þær létu undan vilja hans.

Í DV var fjallað um meint ofbeldi Ingjalds á hendur systur hans og sömuleiðis um ýmsar ávirðingar á hendur Ingjaldi er snúa að hans eigin börnum, sem og Áslaugu eiginkonu hans. Augljóst er á umfjölluninni á þessum tíma að hún er byggð á frásögn og áhyggjum Hauks af framgöngu bróður síns. Í blaðinu er rætt við Hauk sem tjáir sig um hið meinta ofbeldi bróður síns, sem í dag hefur fengist staðfest eftir að kafað var ofan í starfsemina og rætt við fjölda stúlkna sem þar dvöldu.

Ingjaldur og Áslaug eiginkona hans kærðu bæði Hauk og blaðamann DV vegna skrifanna. Í héraðsdómi var blaðamaðurinn dæmdur en Haukur sýknaður með þeim rökum að hann hafi ekki fengið viðtalið sent til sín til yfirlestrar og þannig ekki samþykkt það sérstaklega.

Ingjaldur Arnþórsson.

Í samtali við Stundina sagðist Haukur að hann hafi, eftir að hann steig fram í DV, ekki skipt sér frekar af málum bróður síns, málið hafi á sínum tíma verið mjög erfitt fyrir fjölskylduna. „Ég hef hins vegar heyrt frá þessum stelpum síðar og þær hafa þakkað mér fyrir og sagt að ég hafi verið sá eini sem hafi haft grun um hvað var þarna á ferðinni og verið tilbúinn til að stíga fram.“

Kolsvört skýrsla

Loksins varar hlustað á stúlkurnar. Ásmundur Daði ráðherra fól Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála (GEV) „að kanna hvort og þá í hvaða mæli börn, sem vistuð voru á meðferðarheimilinu Varpholti/Laugalandi á árunum 1997 til 2007, hafi sætt illri meðferð, andlegu eða líkamlegu ofbeldi meðan á dvöl þeirra stóð“. Nefnd, skipuð fjórum sérfræðingum með þekkingu á rannsóknum, barnavernd og áföllum vann að úttektinni og skilaði á dögunum kolsvartri skýrslu um meðferðarstarfið að Laugalandi.

Í skýrslunni kemur fram að mikill meirihluti fyrrum vistbarna segist hafa upplifað andlegt ofbeldi, einu sinni eða oftar á meðferðartímanum, eða 30 af 34 einstaklingum. Voru þessar frásagnir oftast af óttastjórnun, harðræði eða niðurbroti, aðallega af hendi forstöðumanns en einnig forstöðukonu. Margir viðmælendur sögðu frá fleiri atvikum en einu. Samtals 27 úr viðmælendahópnum greindu frá atvikum sem fela í sér einhvers konar óttastjórnun eða harðræði af hendi forstöðuaðila.

Alls 20 vistbörn af 34 töluðu um móttökurnar þegar þau komu fyrst á Laugaland og 12 lýstu neikvæðri upplifun. Alls 14 vistbörn af 34 sögðust hafa verið beitt líkamlegu ofbeldi. Í frásögnum 12 þeirra er forstöðumaðurinn tilgreindur gerandi, en tvær stúlkur tilgreina forstöðukonuna. Til viðbótar sögðust 11 hafa orðið vitni að því að líkamlegu ofbeldi hafi verið beitt af hálfu forstöðumanns.

Alls 10 vistbörn af 34 kvörtuðu yfir að símtöl hafi verið hleruð, sem hafi gert það að verkum að þau hafi ekki geta talað eins frjálslega og þau hefðu viljað. Alls 13 vistbörn af 34 töluðu um að hafa upplifað reglur um fatnað og eigur á neikvæðan hátt og jafnframt að hafa ekki mátt hlusta á þá tónlist sem þau vildu. Þá hafi verið gerðar athugasemdir við útlit þeirra og ein stúlka lýsir því að hafa þurft að láta klippa og aflita á sér hárið gegn vilja sínum.

Alls 9 vistbörn af 34 sögðust hafa reynt að kvarta á einhverjum tímapunkti við
barnaverndarstarfsmann eða Barnaverndarstofu og upplifðu að það hefði engu breytt.

 

Helstu niðurstöður Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála um meðferðarheimilið í Varpholti og á Laugalandi árin 1997-2007:

  • Miðað við fyrirliggjandi upplýsingar mátti greina að hópurinn sem kom til dvalar á meðferðarheimilinu að Varpholti/Laugalandi á árunum 1997-2007 hafði ólíkan bakgrunn og að vandi barnanna var oft og tíðum fjölþættur og þarfirnar flóknar.
  • Sálfræðiþjónustu fyrir börnin á meðferðarheimilinu var ábótavant og að ekki hafi verið brugðist á fullnægjandi hátt við ákalli um að hún yrði aukin til að mæta þörfum skjólstæðinganna.
  • Þegar ljóst varð hve algengt það var að skjólstæðingar heimilisins hefðu orðið fyrir áfalli og ofbeldi og glímdu við afleiðingar þess, áður en dvölin hófst, hefði þurft að mæta því á markvissari hátt og gefa vinnu með afleiðingarnar mun meira rými í meðferðarstarfinu.
  • Yfirgnæfandi meirihluti fyrrum vistbarna, er viðtölin náðu til, upplifðu andlegt ofbeldi við dvölina í Varpholti og á Laugalandi, sem lýsti sér í óttastjórn, harðræði og niðurbroti. Sterkar vísbendingar eru um að alvarlegu andlegu ofbeldi hafi verið beitt með kerfisbundnum hætti. Frásagnir eru frá um helmingi fyrrum vistbarna, sem viðtöl voru tekin við, af líkamlegu ofbeldi og áreitni og önnur börn urðu vitni að slíku.
  • Eftirlitsskylda barnaverndaryfirvalda brást að því leyti að þau hefðu átt að bregðast við ákalli um aukna geðheilbrigðisþjónustu, hefðu átt að skerast í leikinn þegar ljóst var hve mikið álag hvíldi á starfsfólki meðferðarheimilisins og að skoðun á dagbókum og fundargerðarbókum hefði átt að vekja grunsemdir um neikvæð viðhorf í garð vistbarna og gefa tilefni til að kanna hvort þau endurspegluðust í framkomu við þau.
  • Á þessum tíma, er athugunin nær til, var til gagnreynd þekking um afleiðingar áfalla í æsku. Nokkuð ljóst er að á þeim tíma hafði sú faglega þekking ekki verið innleidd í meðferðarúrræði Barnaverndarstofu á meðferðarheimilinu í Varpholti og á Laugalandi.

Í skýrslunni má finna frekari lýsingar stúlknanna að Laugalandi og svör forstöðufólks meðferðarheimilisins. Hana má í heild sinni lesa hér.

 

Meðferðarheimilið að Laugalandi:
Sérhæft fyrir stúlkur með hegðunarvanda Meðferðarheimili var rekið að Laugalandi síðan
í september 2000 en var áður í Varpholti í Hörgárbyggð frá stofnun 1997. Það var rekið sem fjölskylduheimili og bjuggu hjónin þar ásamt tveimur börnum sínum og þeim unglingum sem þar voru vistaðir hverju sinni.
Að Laugalandi var rekið meðferðarúrræði fyrir unglinga á aldrinum 13 til 18 ára með fjölþættan hegðunarvanda. Gert var ráð fyrir að þar vistist að jafnaði sex til átta unglingar í einu og skapaðist sú hefð að vista einungis stúlkur á staðnum.

Forstöðuhjónin að Laugalandi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -