Miðvikudagur 31. maí, 2023
9.8 C
Reykjavik

Kristrún spurði Katrínu: „Kemur til greina að ná saman fyrir þinglok um leigubremsu?“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar spurði Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra um vaxtabætur og leigubremsu.

Katrín segir vaxtabætur hafa hækkað í vetur og starfshópur skoði leigubremsu; Kristrún hvatti ríkisstjórnina til dáða á Alþingi í dag og kallaði eftir aðgerðum til að verja heimilin og stuðla að stöðugleika á vinnumarkaði.

Þá spurði hún forsætisráðherra hvort nýta mætti tímann fram að þinglokum til að taka upp leigubremsu og auka stuðning við fólk í gegnum vaxtabætur.

Katrín svaraði því til að skerðingarmörk vaxtabót hefðu hækkað um 50 prósent síðustu áramót og að innviðaráðherra væri með starfshóp á sínum snærum sem eigi að skila tillögum um hvernig megi skapa betri ramma um leigumarkaðinn.

Kristrún sagði meðal annars:

Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar.

„Kemur til greina að ná saman fyrir þinglok um leigubremsu? Á að nýta tímann eða verður vorið bara látið líða svona, án frekari aðgerða? Ég vil stappa aðeins stálinu í hæstvirta ríkisstjórn.“

- Auglýsing -

Katrín sagði meðal annars:

Katrín Jakobsdóttir, Mynd: Róbert Reynisson.

„Háttvirtur þingmaður talar hér um einhvers konar mistök sem ég ætla bara að hafna að hafi verið gerð. Lífið byrjaði ekki í gær. Því að hér er rætt sérstaklega um verkalýðshreyfinguna: Hún situr í hópi innviðaráðherra sem er einmitt að fást við það hvernig megi skapa betri ramma um leigumarkað.“

Orðaskipti Kristrúnar og Katrínar um vaxtabætur og leigubremsu eru hér í heild.

- Auglýsing -

Svona var fyrri ræða Kristrúnar Frostadóttur:

„Virðulegi forseti. Þó að mistök hafi verið gerð — þá þýðir ekki að gefast upp. Og ég vil stappa aðeins stálinu í hæstvirta ríkisstjórn núna. Nú eru þrjár vikur eftir af þingárinu — eða níu þingfundir, samkvæmt starfsáætlun Alþingis. Og það er ennþá verið að hækka vexti. Að öllum líkindum fáum við hressilega vaxtahækkun líka í fyrramálið. Öll viðbrögð við fjármálaáætlun sýna að aðgerðir hæstvirtrar ríkisstjórnar gegn verðbólgu eru of veikar. Og það eru kjarasamningar í haust. En hvað getum við þá gert núna, áður en þingið fer í sumarfrí? Það er nefnilega tími ennþá til stefnu. Á að nýta tímann eða verður vorið bara látið líða svona, án frekari aðgerða?

Ég er ekki bjartsýn á að ríkisstjórnin ráðist í aðgerðir til að vinna gegn þenslu — til dæmis með því að taka á þenslunni þar sem hún er í raun, eins og við í Samfylkingunni höfum talað fyrir. En verðbólguþróun næstu mánaða og næsta árs verður mjög háð þeim væntingum sem verða hér í landinu um kjarasamninga og niðurstöðu þeirra. Og það er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar að reka velferðarstefnu sem stuðlar að stöðugleika á vinnumarkaði og kemur í veg fyrir að við göngum inn í enn eitt árið af verðbólgu og vaxtahækkunum.

Ef ríkisstjórnin er reiðubúin að stíga upp núna og nýta tímann fram að þinglokum, þá erum við í Samfylkingunni boðin og búin að leggja okkar af mörkum. Vissulega hafa verið gerð mistök í hagstjórninni — en það þýðir ekki að hengja haus yfir því. Núna þarf að horfa fram á veginn. Og því spyr ég hæstvirtan forsætisráðherra:

Kemur til greina að nýta tímann sem við höfum fram að þinglokum til að ráðast í aðgerðir sem verja heimilin og stuðla að stöðugleika á vinnumarkaði? Kemur til greina að ná saman fyrir þinglok um leigubremsu, í fyrsta lagi, og í öðru lagi aukinn stuðning við fólk í gegnum vaxtabætur?“

Hér er fyrri ræða Katrínar Jakobsdóttur:

„Herra forseti. Ég þakka háttvirtum þingmanni fyrirspurnina. Auðvitað er það mjög mikilvægt að þingið sinni störfum sínum allt þar til þing fer í hlé hér einhvern tímann í sumar. Og að sjálfsögðu eru stór mál undir sem er verið að ræða og kannski eitt af þeim stærstu fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, þar sem svo sannarlega eru boðaðar aðgerðir, bæði á tekju- og gjaldahlið, til að slá hér á þenslu. Og það er mjög mikilvægt.

Háttvirtur þingmaður talar hér um einhvers konar mistök sem ég ætla bara að hafna að hafi verið gerð.

Við komum út úr heimsfaraldri með þá einstöku stöðu að kaupmáttur allra tekjutíunda jókst í gegnum heimsfaraldur. Við beittum ríkissjóði af fullum þunga — jafnvel of mikið, segja menn núna — á sama tíma og við vorum gagnrýnd fyrir að ganga ekki nógu langt. Síðan þá höfum við gripið til markvissra aðgerða til að kæla hagkerfið, hægja á fjárfestingu og boðum hér aukið aðhald á tekju- og gjaldahlið.

Háttvirtur þingmaður ræðir hér kjarasamninga og það sé mikilvægt að þeir verði velferðarsamningar. Ég ætla að fá að rifja upp fyrir háttvirtum þingmanni að lífskjarasamningarnir sem voru gerðir 2019 voru gerðar með ríkulegri aðkomu stjórnvalda en lengi hafði sést. Þar voru ótal breytingar boðaðar og staðið við, hvort sem það var breyting á skattkerfinu og upptaka þrepaskipts skattkerfis, skattalækkun fyrir tekjulægstu hópana, uppbygging á húsnæðismarkaði, lenging fæðingarorlofs og efling barnabótakerfisins.

Ef háttvirtur þingmaður hefur einhverjar áhyggjur af því að hér verði ekki áfram unnið í góðu samráði við aðila vinnumarkaðarins, sem við höfum gert hingað til og hyggjumst gera áfram, þá þarf hún ekki að hafa áhyggjur af því. Þeir samningar sem gerðir voru síðast voru skammtímasamningar vegna eðlilegrar óvissu um verðbólguþróun. En hafandi sagt þetta þá ætla ég bara að taka undir með háttvirtum þingmanni. Brýnasta verkefnið er að verðbólga fari niður og hún mun fara niður. Við erum auðvitað í þeirri stöðu hér að atvinnustig er mjög hátt, atvinnuleysi mjög lágt. Umsvif í kerfinu eru mjög mikil og það er að sumu leyti góð staða miðað við ýmis önnur ríki sem við berum okkur saman við.

En hins vegar er alveg augljóst að verðbólgan og vaxtastig er auðvitað það sem leggst mest á tekjulægstu hópana og þess vegna höfum við boðað sérstakar aðgerðir til að mæta þeim — meðal annars sérstaka vörn fyrir öryrkja á miðju ári í anda þess sem ríkisstjórnin gerði um leið og verðbólga fór að láta á sér kræla.“

Hér er seinni ræða Kristrúnar:

Virðulegi forseti. Já, við virðumst vera svolítið föst í fortíðinni, vegna þess að vandinn sem við erum að tala um núna er vandi sem er að fara að birtast á næstu tveimur til þremur mánuðum. Það er talað um að snjóhengja lána, óverðtryggðra lána sem eru að losna af föstum vöxtum, blasi við núna í haust. Við erum að sjá sögulegar vaxtahækkanir, mögulega mikla vaxtahækkun í fyrramálið.

Við getum rökrætt hér í allan dag um hvað hæstvirt ríkisstjórn hefur gert hingað til. En spurning mín til forsætisráðherra sneri að því hvort skilaboðin til almennings þarna úti séu að við förum með óbreytt ástand inn í sumarið; vitandi það að niðurstaða kjarasamninga í haust er að fara að leggja grunn að verðbólgunni á næsta ári; vitandi það sem verkalýðshreyfingin í dag er að tala um varðandi leigubremsu, varðandi vaxtabætur, varðandi styrkingu á þessum kerfum. Þannig að ég ítreka mína spurningu:

Verður ekkert meira gert en það sem birtist í fyrstu drögum að fjármálaáætlun og flestir eru sammála um að er ekki nóg til að vinna gegn verðbólgu?“

Svo seinni ræða Katrínar:

„Herra forseti. Fjármálaáætlunin er auðvitað til meðferðar hér á Alþingi og verður áfram, eins og kom fram í mínu fyrra svari. Háttvirtur þingmaður spurði hér áðan sérstaklega um vaxtabætur og húsnæðisstuðning og leigubremsu. Og þó að háttvirtur þingmaður telji að það sem gerðist fyrir fjórum mánuðum telji ekki, þá ætla ég nú samt að leyfa mér að rifja það upp fyrir háttvirtum þingmanni að lífið byrjaði ekki í gær.

Við hækkuðum hér skerðingarmörk vaxtabóta um 50 prósent um áramótin, við hækkuðum húsnæðisstuðning. Og ég ætla að rifja það upp — því að hér er rætt sérstaklega um verkalýðshreyfinguna: Hún situr í hópi innviðaráðherra sem er einmitt að fást við það hvernig megi skapa betri ramma um leigumarkað. Og það er auðvitað risastórt mál því að hér í raun og veru verið ónógur rammi um leigumarkaðinn, ónægar upplýsingar. Fyrsta skrefið var stigið hér á þingi fyrir áramót þar sem tekin var upp skráningargjalda á tilteknu leigusamningum. Við erum á þessari vegferð. Þannig að, verður þetta tekið til umræðu? Já, ég veit ekki nákvæmlega hvenær hópur innviðaráðherra skilar af sér — en þar sitja aðilar vinnumarkaðarins.

Og ég vil bara ítreka það, af því að háttvirtum þingmanni er hér tíðrætt um kjarasamninga: Hér er starfandi þjóðhagsráð og þar er farið yfir þessi mál og það munu koma fram tillögur þar hér eftir sem hingað til.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -