Brynjar Níelsson, fráfarandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, mætti í ræktina í gær eftir margra ára pásu. Líkamsræktin gekk ekki alveg eins og í sögu, ekki nema ef um hrakfallasögu væri að ræða. Brynjar skrifaði um ferðina í ræktina á Facebook í gær.
„Fékk sérkennilegar augngotur frá viðstöddum og mér leið eins og ég hefði troðið mér inni fegurðarsamkeppni óboðinn. Þegar ég hitti síðan Pál Magnússon og Tomma á Búllunni sá ég strax að þetta gat ekki verið slík keppni.“
Sagðist Brynjar hafa gengið frekar illa með tækin. „Byrjaði á hlaupabrettinu og datt þar auðvitað strax á hausinn. Það borgar sig ekki að glápa á aðra þegar maður er á hlaupabretti.“ Eftir hlaupabrettið fór Brynjar í tæki til að styrkja vöðvana en þurfti oftar en ekki að létta lóðin talsvert. „Þurfti iðulega að létta lóðin umtalsvert frá fyrri notanda, jafnvel þótt það væru börn eða gamlar konur.“
Ívar Guðmundsson, einkaþjálfari og útvarpsmaður á Bylgjunni, hafði greinilega áhyggjur af frammistöðu Brynjars og skaut létt á hann. „Það kom að því að Ívar Guðmundsson, hinn snjalli einkaþjálfari og útvarpsmaður, vatt sér að mér og sagði að menn eins og ég byrjuðu gjarnan á Grensásdeildinni í nokkra mánuða þjálfun áður en þeir kæmu hingað.“
Tómas Tómasson, Tommi á Hamborgarabúllunni og nýr alþingismaður, birti ræktarmynd á Instagram-síðu sinni, af þremenningunum.
View this post on Instagram