Fimmtudagur 9. maí, 2024
8.8 C
Reykjavik

Guðrún fetar ótroðnar slóðir: „Við munum breyta snyrtivöruheiminum“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Dr. Guðrún Marteinsdóttir er brautryðjandi í íslenska vísindageiranum, á því leikur lítill vafi. Hún hefur tekið þátt í fjölda verkefna sem snerta á ýmsum hlutum í þá áratugi sem hún hefur starfað sem vísindamaður, en það sem verður líklega hennar helsta arfleið er fyrirtækið TARAMAR sem hún stofnaði ásamt eiginmanni sínum. Fyrirtækið sérhæfir sig í framleiðslu á lífrænum, öruggum og hreinum húðvörum og hefur hlotið fjölda verðlauna erlendis fyrir sín störf. Mannlíf ræddi við Guðrúnu til að fræðast um líf hennar og tilveru.

„Ég er fædd og uppalin á Selfossi. Faðir minn, Marteinn Björnsson, var byggingarfulltrúi Suðurlands og þjónustaði allt svæðið frá Þorlákshöfn austur að Lómagnúp. Hann á ættir að rekja í Kjósina og Húnavatnssýsluna. Í gegnum móður mína, Arndísi Þorbjarnardóttur, á ég einnig ættir að rekja í Kjósina sem og vestur á Strandir,“ sagði dr. Guðrún Marteinsdóttir um æsku sína, en hún ætlaði upphaflega að flytja til Danmerkur en elti ástina og framtíðareiginmann sinn til Bandaríkjanna. „Frá Selfossi fór ég í Menntaskólann á Laugarvatni og síðar í Háskólann þar sem ég lauk BS í líffræði. Það má segja að ég hafi elt ástina yfir til Ameríku, en ég kynntist Kristbergi á síðasta ári í Háskólanum og hann hafði þá þegar sótt um nám við Rutgers University í New Jersey. Ég var hins vegar á leið til Kaupmannahafnar til að hefja nám hjá Pétri M. Jónassyni, prófessor við Kaupmannahafnarháskóla, en sneri við á miðri leið og flutti með Kristbergi til Ameríku. Þegar þangað var komið eignaðist ég dóttur okkar, hana Hlín, en lauk svo MS-prófi í dýrafræði og síðan PhD í vistfræði við Rutgers. Samhliða náminu og eftir námið vann ég á mörgum stöðum, m.a. hjá Center of Environmental Science, en einnig sem aðstoðarmaður ritstjóra hjá frægu vísindariti, EVOLUTION. Við fluttum heim frá Ameríku árið 1989 og Kristberg fékk stöðu í matvælafræði við Háskóla Ísland en ég hóf störf fyrst hjá Veiðimálastofnun og síðar Hafrannsóknastofnuninni. Þegar Jakob Jakobsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunarinnar og prófessor við Háskóla Íslands hætti störfum, þá sótti ég um stöðu hans við Háskólann og hef sinnt því starfi síða árið 2000.“

En Guðrún er ansi fjölhæf manneskja og óhætt er að segja að í vísindamanninum blundi listamaður. „Ég hef alla tíð haft mikla þörf fyrir að búa til hluti í höndunum og í mér felst lítill listamaður sem hefur þó ekki fengið að dafna þar sem áherslan var á hugvit og þekkingu í námi og starfi,“ sagði Guðrún. „Til að halda sálinni glaðri þá hef ég föndrað mikið og tileinkað mér flest áhugamál sem að því snúa, svo sem olíu og vatnslitamálun, silkimálun, glerskurð, útskurð, leirkeragerð, smíðar, saum og prjón og margt fleira. Síðar, þegar TARAMAR-verkefnið hófst, þá fékk þessi hluti af persónu minni mikla útrás, en að vinna með jurtir, þang og lífvirk efni úr náttúru Íslands er ekki ólíkt því að vefa eða mála stórkostleg málverk.“

Guðrún Marteinsdóttir – Taramar

Guðrún átti aldrei von á að líf hennar tæki þessa stefnu, sérstaklega í ljósi menntunar hennar.

„Það má segja að nám mitt og starf hafi ekki verið augljós undirbúningur fyrir TARAMAR. Ég held að engum hafi getað dottið í hug að ég færi inn í húð- og snyrtivöruheiminn. Þvert á móti þá átti ég mínar bestu stundir á sjó á kafi í slori eða úti í náttúrunni, vaðandi í gegnum ár og flæða engi,“ sagði hún, en stuttu eftir að hafa komið heim til Íslands fann Guðrún fyrir veikindum, en hún telur að heilbrigðiskerfið hafi brugðist henni algjörlega. Það hvatti hana til að taka málin í eigin hendur.

„Á árunum eftir að við komum heim frá Ameríku þá fór að bera á heilsubresti hjá mér. Fyrstu 20 árin, þá var þetta þó eitthvað sem ég gat að mestu haldið niðri, en síðar fór þetta að versna og á árunum eftir 2005 þá var ég orðin töluvert veik. Það tók mig langan tíma að átta mig á hvað þetta var og heilbrigðiskerfið gat enga hjálp veitt. Að lokum kom í ljós að í ferðum mínum tengdum náminu, við sýnatökur upp eftir allri austurströnd Bandaríkjanna, þá hafði ég sýkst af mörgum sníkjudýrum, s.s. „lyme“ og fleiri kvikindum. Í baráttu minni við þessar sýkingar þá gerði ég mér ljóst að til þess að halda lífi þá yrði ég að taka upp ástund á einhverju sem ég hefði svo gaman af, til hjálpa mér að dreifa huganum. Á sama tíma þá átti ég við erfið húðvandamál að stríða, m.a. sem afleiðingu af „lyme“-sýkingunum, og ég fór að skoða hvað það gæti verið í húðvörum sem færi svona illa með húðina mína. Ég verð að segja að ég varð fyrir algjöru áfalli og enn þann dag í dag verð ég reið þegar ég sé hvað framleiðendur ætlast til að við berum á húðina. Mörg af þessum efnum eru í raun skelfileg og án efa verða þau öll bönnuð í framtíðinni. En allavega, þá leiddi þetta til þess að ég fór að blanda mínar eigin formúlur og safna jurtum til að prófa áhrif af mismunandi andoxunarefnum. Eitt leiddi af öðru og eins og oft með mín fyrri áhugamál, þá stækkaði þetta áhugamál mjög hratt og gladdi sál mína mikið, þannig að það varð auðveldara að eiga við veikindin.

- Auglýsing -

Þar sem mitt aðalstarf tengdist sjó, þá hef ég í gegnum tíðina farið í marga leiðangra með sjómönnum og starfsmönnum á rannsóknaskipunum. Á milli vakta þá var oft rabbað um áhugaverða hluti og ég lærði af þessum fræknu sæförum hvernig þeir notuðu efni úr sjávarlífverum til að græða og auka þrek,“ sagði Guðrún aðspurð af hverju TARAMAR notaðist svo mikið við sjávarlífverur. „Það lá því beint við að í TARAMAR-verkefninu myndi ég leggja sérstaka áherslu á sjávarfang og þá lífvirkni sem þar er að finna. Það sem var sérstaklega áhugavert var þegar ég uppgötvaði að Kristberg, sem er prófessor í matvælafræði, hafði rannsakað lífvirk efni úr sjávarfangi til framleiðslu á orkumikilli fæðu og var að nota tækni og þekkingu sem gæti nýst sérstaklega vel í húðvörum. Þetta varð byrjunin á flutningi á meira en 30 ára rannsóknarniðurstöðum á matvælum inn í húðvörurnar. Þar sem hvorugt okkar kom úr heimi lyfjafræðinnar, þar sem flestar húðvörur eiga uppruna sinn, þá urðum við frá upphafi að þróa okkar eigin leiðir. Þar sem líf- og matvælafræði var eitthvað sem við kunnum vel, þá varð það til þess að húðvörurnar okkar eru að mörgu leyti líkari matvælum en venjulegum húðvörum, sem eru ekki beint góðar til neyslu.“

Guðrún segist spennt fyrir framtíðinni, telur að hún sé björt og viðbrögðin hafi verið stórkostleg. Hún sé þakklát fyrir allan þann stuðning sem þeim hefur verið sýndur.

„Við ætlum okkur mjög stóra hluti í TARAMAR og teljum að við munum breyta snyrtivöruheiminum með því að bjóða upp á svona hreinar lausnir, eitthvað sem er ekki til í dag. Varan okkar er einstök og í öllu ólík því sem hefur staðið til boða. Í dag eru þúsundir kvenna og karla sem nota vörunar okkar á degi hverjum. Í hverri viku fáum við skilaboð frá viðskiptavinum okkar sem bæði ánægðir og þakklátir fyrir að hafa fundið húðvörur sem virka og fara svona vel með húðina. Stærsta verkefni okkar núna er að kynna vörurnar erlendis. Þetta er langhlaup, en það er mikill áhugi og við eigum von á að sérstaða varanna muni stytta þann tíma sem það getur tekið að brjótast inn á stóra markaði. Allt bendir til að við verðum komin á mjög góðan stað eftir 5-10 ár. Sala á húðvörufyrirtækjum sem hafa vörur sem hafa slegið í gegn hefur skilað mjög góðum ágóða, ekki síður en það sem við sáum hjá Kerecis. Það er vissulega þangað sem við erum að stefna.“

- Auglýsing -

Viðtal þetta birtist í fyrst í nýjasta tölublaði Mannlífs

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -