Föstudagur 3. maí, 2024
4.8 C
Reykjavik

Ásdís vill bæjarstjórastólinn: „Áfall þegar við fréttum í tólf vikna sónar að það væru tvö börn“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég er mikil keppnismanneskja, hvort sem er í íþróttum eða í starfi. Ég geng í öll verk á þeim forsendum að leysa þurfi vandamál og yfirstíga hindranir. Ég hef mikinn metnað og legg mig fram í öllu sem ég tek mér fyrir hendur og tel mikilvægt að vera fyrirmynd barna minna. Við hjónin leggjum ríka áherslu á að þau sinni vel námi sínu en séu sjálfstæð og beri ábyrgð á sér sjálf. Hvernig við erum í okkar daglega lífi tel ég að endurspeglist einnig í því hvernig við erum sem stjórnendur. Keppnisskap og metnað hef ég lagt áherslu á að yfirfæra á samstarfsfólk mitt í þeim tilgangi að ná sem bestum árangri. Ég er réttsýn, afskaplega skipulögð og markmiðsdrifin sem skilar sér í öguðum vinnubrögðum og góðum afköstum. Ég hef fulla trú á því að þó börnunum finnist mamma sín fullstjórnsöm á köflum muni þau kunni að meta það síðar,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir sem nýverið sagði lausu starfi sínu sem aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins þar sem hún ætl­ar að gefa kost á sér í fyrsta sæti Sjálf­stæðis­flokks­ins í Kópa­vogi fyr­ir kom­andi sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ing­ar.

Ásdís hefur verið skráð í Sjálfstæðisflokkinn frá 2002. „Hingað til hef ég ekki starfað fyrir flokkinn, enda ekki talið það samræmast þeim störfum sem ég hef sinnt; bæði þegar ég starfaði sem stjórnandi í banka og sem stjórnandi hjá Samtökum atvinnulífsins.“

Ásdís er með bæði verkfræði- og hagfræðimenntun og telur að slík menntun sé góður grunnur í stjórnmálastarfi. „Ég hef í störfum mínum lagt ríka áherslu á mikilvægi þess að standa vörð um ábyrgan rekstur hins opinbera, þar með talið á sveitarstjórnastiginu. Ég hef því skilning og reynslu af því að greina og móta stefnu hins opinbera á öllum sviðum, hvort sem er á hlið útgjalda, skatta eða fjárfestinga.

Ég hef nánast alla mína starfsævi unnið við að móta og hafa áhrif á stefnu hins opinbera, hvort sem það tengist skattastefnu eða forgangsröðun útgjalda.

Ég hef mikinn áhuga á að beita mér í þágu samfélagsins og hef frá því ég kláraði hagfræðinámið mitt verið mjög pólitísk þó ég hafi ekki fyrr en nú stigið inn á hið pólitíska svið. Ég hef nánast alla mína starfsævi unnið við að móta og hafa áhrif á stefnu hins opinbera, hvort sem það tengist skattastefnu eða forgangsröðun útgjalda. Þá hef ég gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir stjórnvöld og sat meðal annars í verkefnahópi um endurskoðun íslenskrar peningastefnu ásamt Ásgeiri Jónssyni, núverandi seðlabankastjóra, og Illuga Gunnarssyni, fyrrverandi ráðherra. Ég er stoltur Kópavogsbúi og hér hef ég alið upp börnin mín. Ég er að bjóða fram mína reynslu og þekkingu til að gera Kópavog enn betri.“

Ásdís segir að hún myndi standa vörð um ábyrgan rekstur svo Kópavogur gæti áfram verið í fremstu röð þegar kemur að þjónustu við fólk og fyrirtæki í bæjarfélaginu. „Þó margt hafi gengið vel tel ég að við getum gert enn betur. Stafræn þróun er á fleygiferð og ég sé talsverð tækifæri til úrbóta á því sviði sem um leið sparar fólki sporin. Ég mun tryggja að gjöld og álögur séu með lægsta móti. Þá sé ég talsverð tækifæri fólgin í því að laða til bæjarfélagsins fjölbreytt fyrirtæki sem ekki aðeins styrkja tekjustofna bæjarins heldur skapa fjölbreyttari atvinnumöguleika fyrir íbúa.“

Ásdís talar um aukinn umferðarþunga og segir að breyta þurfi því ástandi og að hún myndi beita sér fyrir bættum og fjölbreyttum samgöngum sem henta mismunandi fólki. „Samgöngur skipta okkur öll máli, börn og fullorðna, hvort sem við erum gangandi, á hjóli eða í bíl.“

Ég tel að við getum dregið lærdóm af því sem hefur verið gert í höfuðborginni í þessum efnum en að mínu mati hefur meirihlutinn í borginni tekið margar misráðnar ákvarðanir.

- Auglýsing -

Hún nefnir að fram undan séu áhugaverð uppbyggingarverkefni í bænum – bæði eru ný hverfi að rísa við Vatnsenda en einnig er verið að þétta byggð eins og á Kársnesinu. „Ég tel að við getum dregið lærdóm af því sem hefur verið gert í höfuðborginni í þessum efnum en að mínu mati hefur meirihlutinn í borginni tekið margar misráðnar ákvarðanir. Borgin hefur til að mynda farið í of mikla þéttingu á afmörkuðum svæðum sem hefur ekki bara reynst gríðarlega kostnaðarsamt og sums staðar þvert á vilja íbúa heldur hafa innviðir á svæðunum, eins og skólarnir, beinlínis ekki ráðið við þéttinguna og eru einfaldlega sprungnir. Ég mun leggja ríka áherslu á að sú uppbygging sem er fram undan muni þjóna íbúum á öllum æviskeiðum, frá ungu fjölskyldufólki til eldri kynslóða.

Ásdís nefnir að hún sjái tækifæri til að gera betur eins og gagnvart flokkun á sorpi og að standa þurfi vörð um framúrskarandi menntun barna á öllum skólastigum.

Ásdís Kristjánsdóttir
Ásdís og eiginmaðurinn, Agnar Tómas Möller.

Verkfræði og hagfræði

- Auglýsing -

Ásdís ólst upp í Seljahverfi.

„Ég gekk í Seljaskóla alla mína grunnskólagöngu og á þeim tíma myndaði ég náin og sterk vinabönd við æskuvinkonur mínar sem hafa enn haldið. Eftir grunnskólanám mitt gekk ég í Verslunarskóla Íslands og er gaman að segja frá því að ég sit einmitt í fulltrúaráði skólans í dag og fæ því tækifæri til að fylgjast með því frábæra starfi sem þar á sér stað. Þá fór ég í verkfræði eftir menntaskóla. Fljótlega eftir að ég kláraði verkfræðinámið fann ég löngun til að skilja betur efnahagsumræðuna og þess vegna fór ég í meistaranám í hagfræði.“

Ásdís dreymdi um það á æsku- og unglingsárunum að verða læknir. „Foreldrar mínir ráðlögðu mér að fara í MR því mínir styrkleikar voru í stærðfræði og öðrum raungreinum. Mér er minnistætt þegar ég sat í strætó á leiðinni niður bæ til að skrá mig í MR þegar ég skyndilega ákvað á síðustu stundu að hoppa út fyrir utan Versló. Ég sem sagt ákvað í strætóferðinni að Versló væri rétti skólinn fyrir mig og ég sé ekki eftir því í dag þó svo ég efist ekki um að ég hefði fengið góða og gagnlega menntun í MR. Í Versló eignaðist ég afskaplega góðar og traustar vinkonur. Við höldum enn hópinn þó að við höfum valið ólíkar leiðir að loknum framhaldsskóla.“

Ásdís Kristjánsdóttir
Ásdís og fjölskylda hennar.

Mikil viðbrigði að eignast tvíbura

Ásdís er gift Agnari Tómasi Möller og hófu þau sambúð í Reykjavík en flutti í Kópavog eftir að fyrstu eldri börn þeirra fæddust. „Í upphafi bjuggum við á Kársnesi en fluttum upp á Vatnsenda þegar grunnskólaganga okkar elstu barna hófst.“

Ásdís segir að foreldrar sínir hafi átt og eigi enn ríkan þátt í að móta hana. „Ég leita mikið til þeirra hvort sem tengist uppeldi barna minna eða almennt um líf og störf. Við erum náin fjölskylda og við systkinin eigum börn á svipuðum aldri. Þá mótaðist ég mikið eftir að ég átti börnin mín. Við hjónin vorum um þrítugt þegar við eignuðumst okkar fyrstu börn sem reyndust vera tvíburar. Í fullri hreinskilni þá fengum við áfall þegar við fréttum það í tólf vikna sónar að það væru tvö börn á leiðinni en ekki eitt. Auðvitað leið það fljótt hjá og ég varð rólegri með tímanum og tók þessu eins og hverju öðru verkefni. Fyrstu tvö árin voru mjög strembin en með skipulagningu og yfirvegun gekk þetta allt saman afskaplega vel.

Amma mín og nafna féll frá fyrir nokkrum árum síðan og mér fannst sárt og erfitt að kveðja hana.

Þegar ég var svo ófrísk af mínu yngsta barni var ég þess fullviss að nú væru ekki tvö heldur þrjú börn á leiðinni. Ég man hvað ég var stressuð í mínum fyrsta sónar en andaði léttar þegar okkur var tilkynnt að það væri bara eitt í þetta skiptið.“

Lífið er ekki alltaf dans á rósum og segir Ásdís að hún og hennar nánustu hafi sem betur fer sloppið við erfið veikindi eða áföll en þó hafa þau misst. „Amma mín og nafna féll frá fyrir nokkrum árum síðan og mér fannst sárt og erfitt að kveðja hana. Hún var stór partur af mínu lífi og barna minna. Amma lifði áhugaverðu lífi og við sátum oft saman lengi að spjalla um hennar æskuár. Þá var það hluti af okkar helgarrútínu að heimsækja ömmu. Nú þegar hún er fallin frá rifja ég reglulega upp þau samtöl og þær stundir sem við áttum með henni. Ég finn að börnum mínum þykir vænt um þær stundir sem þau áttu með henni.“

Ásdís er beðin um að lýsa sjálfri sér: Annars vegar í einkalífinu og svo hins vegar sem stjórnanda.

Hverjir eru draumarnir burtséð frá framboðinu?

„Við hjónin elskum Ítalíu og höfum lengi gengið með þann draum að flytja til Ítalíu á okkar efri árum. Ítalir uppfylla að mínu mati allt saman; þeir eru höfðingjar heim að sækja, matreiða besta matinn og framleiða bestu vínin auk þess sem ítalska er eitt fallegasta tungumálið. Þetta er draumur okkar hjóna  í ellinni en í núinu hef ég mikinn áhuga á að beita mér fyrir samfélagið. Vonandi fæ ég tækifæri til þess.“

 

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -