Föstudagur 13. september, 2024
11.8 C
Reykjavik

Dúdda rekur ótrúlega örlagasögu sína: „Ekkert af því sem ég hafði ráðgert í lífinu passaði saman við umsjón með fjölfötluðu barni“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Guðríður Steindórsdóttir er rétt rúmlega sextug, en er öryrki eftir langvarandi erfiðisvinnu við að sinna fjölfötluðum syni sínum til fjölda ára, auk fjölda áfalla. Guðríður segir sögu sína á Facebook-síðunni: Við erum hér líka, en það eru hjónin Alda Lóa Leifsdóttir og Gunnar Smári Egilsson sem skrifa þar samtímasögur öryrkja á Íslandi.

„Ég fæddist ekki svona og lenti heldur ekki í slysi, ekki nema þið viljið kalla örlögin slys. Ég er ekki öryrki eftir slys eða vírus eða smit, ég er öryrki eftir erfiðisvinnu. Og samt var ég ekki í vinnu þegar ég varð öryrki,“ segir Guðríður eða Dúdda eins og hún er alltaf kölluð.

Hún er fædd og uppalin í Reykjavík, en flutti ung með fjölskyldunni til Sauðárkróks. Eftir gjaldþrot föður hennar flutti hún til Akureyrar í nám og kynntist þar fyrsta barnsföður sínum 16 ára gömul og eignaðist með honum dóttur. Skildu þau og Dúdda giftist öðrum manni, sem hún bjó með í 11 ár og ættleiddi dóttur með.

Báðir mennirnir voru drykkfelldir og sá seinni ofbeldismaður, og seinna kom í ljós að sá hafði misnotað báðar dætur Dúddu. Kærði hún þó aldrei þar sem hún vildi ekki að það hefði áhrif á umgengni feðginanna.

Annar tvíburinn lést og hinn fjölfatlaður

Þriðji maður Dúddu var þó ólíkur hinum fyrri og eignuðust þau son, giftu sig og lífið var gott. Árið 1994 gekk þó ýmislegt á hjá fjölskyldunni. Dúdda var ólétt af tvíburum á sama tíma og eiginmaður hennar mjaðmargrindarbrotnaði og dóttir hennar lenti í bílslysi, en meiddist þó ekki. Dúdda eignaðist síðan tvíburasyni sex vikum fyrir tímann.

- Auglýsing -

„Fyrri tvíburinn lifði en sá seinni var með hjartagalla og fékk streptakokkasýkingu. Læknarnir stóðu yfir drengnum í hálfan sólarhring við að handpumpa hann, en það dugði ekki til. Hann dó áður en hann fékk að lifa. En hinn drengurinn lifði en var mjög veikur. Þau bjuggu í sex vikur á vökudeildinni. Drengurinn er með heilahimnubólgu, en hann virtist ætla að ná sér þegar honum var gefið lyf fyrir mistök sem leiddu til skemmda í heilanum,“ segir um drengina í sögu Dúddu, en sonurinn varð meginverkefni og tilgangur Dúddu næstu tuttugu árin.

Fjölskyldan uni hag sínum vel í Noregi

Fjölskyldan flutti til Noregs og bjó þar í átta ár og rekur Dúdda mismun milli Íslands og Noregs hvað aðstoð við umönnun sonarins varðar, segir hún að hér heima hafi verið efast í hvert sinn sem þau báðu um aðstoð og þau jafnvel verið talin ætla að svíkja kerfið. Í Noregi var aðstoð boðin að fyrra bragði. Ættjarðarástin og löngun Dúddu og eiginmanns hennar til að ala börnin upp hér olli þó því að þau fluttu heim aftur. Þar leið þeim vel á Akureyri, en skilningsleysið í kerfinu var enn það sama.

- Auglýsing -

„Og ég fór að finna til, síþreyta og linnulausir bakverkir, handleggurinn varð máttlaus þegar ég var að stinga upp kartöflur, ég var farin að bogna undan álagi. Einhverju síðar, þegar ég hafði sótt um fyrir drenginn á sambýli, var gerð úttekt á þörfum hans. Ég fór í viðtal hjá konu sem spurði hvernig hann borðaði, hvernig hann væri baðaður, hver aðstoðaði hann með klósettferðir, hvernig honum var sinnt þegar honum leið illa, hvernig hann færi að sofa og hvernig hann færi út undir bert loft og svo framvegis. Þegar ég var búin að leysa úr þessu flestu, stoppaði konan allt í einu og horfði á mig: Nei, þetta er ekki hægt, þetta er starf fyrir átta manneskjur. Þetta er eina hrósið sem ég hef fengið fyrir að sjá um fjölfatlaðan son minn í rúm tuttugu ár. En auðvitað er þetta ekki hrós. Þetta var bara viðurkenning á því að ég sleit mér út, mér var slitið út við að sinna drengnum, eiginlega án aðstoðar,“ segir Dúdda.

Ekkja með þrjá syni

Álagið á heimilinu var mikið, hrunið kom og skuldirnar jukust og álagið varð eiginmanni Dúddu ofviða og lést hann úr hjartaáfalli. Dúdda stóð eftir ein með börnin,  skuldsetta húseign og var orðin öryrki og slitin. Hún náði að selja húsið, fyrir utan eitt lán sem gleymdist að taka með í reikninginn, sem hún er enn að borga af.

Eftir öll þessi áföll kynntist Dúdda nýjum manni, þau keyptu íbúð, en hann lést skyndilega og aftur missti Dúdda allt. Hún fékk taugaáfall, greindist með brjóstakrabbamein og flutti til höfuðborgarinnar aftur.

Í dag er hún að ljúka háskólanámi, býr í lítilli ósamþykktri kjallaraíbúð út í sveit, veitir sér ekkert, á í raun ekkert og aldrei krónu í lok mánaðar, slær lán fyrir mat og skilur ekki hvað hún hafi gert til að verðskulda þessa stöðu.

„Ég er bara rétt rúmlega sextug, en ég er strax komin í ruslakistuna. Það er búið að afskrifa mig. Ég hef alið upp börnin og nú er ekki hægt að hafa af mér meira gagn. Mér dettur oft í hug kartöflumamma. En ég er hérna enn þá, ég er enn til inni í mér. Ég lifi. En stundum finnst mér eins og ég sé aðeins til fyrir sjálfri mér. Oft finnst mér eins og ég sé jafn ósýnileg öðrum og huldufólkið, að aðeins þau skyggnu geti séð mig.“

Sögu Dúddu má lesa í heild sinni á Facebook-síðu: Við erum hér líka.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -