Föstudagur 3. maí, 2024
6.8 C
Reykjavik

Birtir 15 staðreyndir um flóttafólk: „Vandamálið er valdasjúkt fólk sem sem fer í stríð“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Umræðan um málefni fólks á flótta hefur verið sérstaklega ógeðfelld síðustu daga. Fullorðið fólk talar og skrifar af mikilli mannvonsku og grimmd um flóttafólk, áróðri og lygum er dreift um samfélög og (samfélags)miðla og stjórnmálafólk reynir að vinna sér inn einhver stig með orðræðu sem ýtir undir fordóma, hatur og jafnvel ofbeldi í garð flóttafólks!“ Þannig byrjar færsla Semi Erlu Serdaroglu, stofnandi og formaður Solaris  –hjálparsamtök fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi.

Færsluna birti Semi Erla vegna óvæginnar umræðu undanfarið um málefni hælisleitenda á Íslandi. Segir hún að það sé „afar sorglegt að horfa upp á ítrekaðar og alvarlegar árásir á viðkvæman hóp fólks í samfélaginu okkar.“ „Það er afar sorglegt að horfa upp á ítrekaðar og alvarlegar árásir á viðkvæman hóp fólks í samfélaginu okkar, hóps sem er almennt ekki í stöðu til að verja sig. Hóps sem finnur þó fyrir afleiðingum orðræðunnar og áróðursins.

Í þeim tilgangi að rétta aðeins umræðuna af eru hér nokkrar staðreyndir um fólk með flóttabakgrunn og stöðu þeirra!“


Tekur hún svo saman 15 staðreyndir og punkta um flóttafólk og hælisleitendur, sem útskýrir ýmislegt hvað þann hóp snertir. Þær staðreyndir má lesa hér að neðan:

1. Á síðasta ári voru 108 milljónir einstaklinga á flótta í heiminum. Á Íslandi sóttu 4516 einstaklingar um alþjóðlega vernd. Það er 0.00004% af heildarfjölda fólks á vergangi.
2. Langflestir sem hafa fengið vernd á Íslandi á þessu og síðasta ári eru frá Úkraínu. Af þeim 3455 sem fengur vernd á síðasta ári voru 2315 frá Úkraínu.
3. Stefna stjórnvalda í málefnum fólks á flótta byggir á kerfisbundinni mismunun vegna uppruna. Það birtist meðal annars með þeim hætti að fólk frá Úkraínu þarf ekki að fara í gegnum hæliskerfið og fær vernd án tafar, getur farið strax að vinna og orðið virkir þátttakendur í samfélaginu.
4. Samkvæmt ákvörðun stjórnvalda mega umsækjendur um alþjóðlega vernd þó almennt ekki vinna á meðan þeir bíða þess að fá niðurstöðu í umsókn sína um vernd. Það eru því stjórnvöld sem koma í veg fyrir atvinnuþátttöku (sumra) einstaklinga með flóttabakgrunn.
5. Flóttafólk býr við félagslega einangrun. Lítið er um skipulagða og fjölbreytta afþreyingu við hæfi, sérstaklega fyrir fullorðið fólk, og því hefur fólk almennt lítið fyrir stafni, jafnvel mánuðum saman (mismunandi milli staða og hópa). Vegna þessa hangir fólk til dæmis á almenningsstöðum. Það er afleiðing af stefnu stjórnvalda og sveitarfélaga í málaflokknum. Þau koma í veg fyrir virkni fólks.
6. Umsækjendur um alþjóðlega vernd fá strætókort sem gildir innan sveitafélags. Það þýðir til dæmis að flóttafólk sem býr í Reykjanesbæ á erfitt með að „skreppa í bæinn“ þar sem ferð fram og til baka kostar 3920 kr. Það ýtir enn frekar undir félagslega einangrun, óvirkni og hangs.
7. Umsækjendur um alþjóðlega vernd eiga rétt á vikulegum fæðispeningum. Einstaklingur fær 8000 kr. á viku. Fjölskylda fær aldrei meira en 28.000 krónur á viku, sama hversu stór hún er. Það er ekki óeðlilegt að einstaklingar safni til dæmis dósum fyrir nokkrar aukakrónur – við vitum öll hversu skammt 8000 kr. duga þessa dagana.
8. Umsækjendur um alþjóðlega vernd eiga rétt á heilbrigðisþjónustu á meðan mál þeirra er í ferli. Hún er takmörkuð við það sem yfirvöld meta sem „algjörlega nauðsynlega þjónustu“ og oft er fólki neitað um mikilvæga heilbrigðisþjónustu. Það fer til dæmis enginn í „rándýrar lagfæringar hjá tannlækni!“
9. Sú þjónusta sem flóttafólk fær er í algjöru lágmarki. Sú þjónusta hefur ekki áhrif á kjör annarra hópa í samfélaginu. Fjármunir sem fara í aðstoð við fólk á flótta eru ekki teknir af aðstoð við aðra hópa.
10. Fólk með flóttabakgrunn fremur ekki fleiri glæpi en annað fólk á Íslandi.
11. Það er ekki með nokkru móti hægt að kenna flóttafólki um húsnæðisvandann í íslensku samfélagi. Sá vandi er einungis stjórnvöldum og stefnu þeirra að kenna.
12. Ef innviðir í íslensku samfélagi eru að bugast undan alþjóðlegum og siðferðilegum skyldum okkar við fólk á flótta er það vegna þess að stjórnvöld hafa ekki sinnt skyldu sinni og ábyrgð og eru enn illa undirbúin undir mótttöku fólks á flótta, hátt í áratug eftir að aukinn fjöldi fólks með flóttabakgrunn fór að leita skjóls á Íslandi.
13. Það er enginn „flóttamannavandi!“ Fólk á flótta er ekki vandamál. Vandamálið er valdasjúkt fólk sem sem fer í stríð, ríki sem styðja við innrásir í önnur ríki og viðhalda átökum með aðgerðarleysi, stjórnmálafólk sem bregst ekki við breytingum á umhverfinu. Fólksflótti er búinn til og viðhaldið af valdhöfum sem ber skylda til þess að skjóta skjóli yfir fólk sem flýr aðstæður sem það hefur búið til.
14. Flóttafólk er fólk eins og við! Það sem helst aðgreinir fólk á flótta frá okkur flestum er sú staðreynd að þau hafa verið neydd til þess að yfirgefa heimaland sitt og heimili, til dæmis vegna stríðs, átaka, ofsókna, ofbeldis eða náttúruhamfara.
15. Við getum öll fundið okkur í þeim sporum einn daginn að neyðast til þess að fara á flótta. Hvað myndu þið þá segja?“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -