Fimmtudagur 2. maí, 2024
7.8 C
Reykjavik

Segir ástand hrossa á Laugabóli enn slæmt: „Aðstæður í dag eru að öllu leyti óviðunandi“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Steinunn Árnadóttir segir ástand hrossa á Laugabóli í Arnarfirði óbreytt frá því í maí á þessu ári, sem sagt slæmt.

Orgelleikarinn og hestakonan Steinunn Árnadóttir hefur verið afar ötul í baráttu sinni gegn illri meðferð á dýrum, síðustu ár. Í dag sendi hún póst á fjölmarga einstaklinga, bæði fjölmiðla og ráðamenn landsins. Í póstinum, sem hún sendi meðal annars á matvælaráðherra, forsætisráðherra, yfirdýralækni og forstjóra Matvælastofnunar, rekur hún sögu hrossanna á Laugabóli frá því í desember 2022. Þá var hún beðin um að kíkja á aðstæður á bænum en hún komst ekki fyrr en í maí á þessu ári. „Strax var ljóst að aðgerða var þörf og kallaði ég á lögreglu til að losa hross sem var fast í girðingu og einnig kallaði ég á vakthafandi dýralækni til að sinna hesti sem gat hvorki gengið né staðið,“ skrifar Steinunn og bætir við að margir hestar hafi verið í slæmu ástandi. Meira hafi hún ekki geta gert, þar sem eigandi hrossanna bað lögregluna að vísa henni af svæðinu.

Hross á Laugabóli.
Ljósmynd: Steinunn Árnadóttir

Samkvæmt bréfi Steinunnar er sagan að endurtaka sig með hrossin. Tekur hún þó fram að nýjir eigendur Laugabóls séu ekki ábyrgir fyrir slæmu ástandi hrossanna, því fyrrum eigandi bæjarins, sé eigandi hrossanna og beri því fulla ábyrgð. „Aðstæður í dag eru að öllu leyti óviðunandi,“ skrifaði Steinunn og hélt áfram: „Hrossin eru 24 þar af eitt nýkastað folald. Fylfullar merar eru 6-7, þar af sýnist mér eitt mertryppi sem er sennilega 3ja vetra vera fylfullt. Það tryppi er grannt, vansælt, var út úr hópnum og með rennsli úr nösum.“ Að lokum spyr Steinunn nokkurra spurninga, þar á meðal: „Er eðlilegt að merar séu að kasta fram á harða vetur, eftirlitslausar, án skjóls og fóðurs?“

Hér fyrir neðan má lesa tölvupóstinn í heild sinni:

Matvælaráðherra, yfirdýralæknir, forstjóri Matvælastofnunarinnar, forsætisráðherra, aðstoðarmaður matvælaráðherra, Inga Sæland eða einhver sem lætur sig dýravelferð varða.     

Ástand á hrossum sem eru á Laugarbóli í Arnarfirði hefur ekki breyst.
Í desember 2022 og var ég beðin að athuga aðstæður á Laugarbóli í Arnarfirði. Vitað var að 4 hryssur höfðu kastað á haustmánuðum 2022, frá október fram í nóvember. 
Ég hafði ekki tök á að mæta að Laugarbóli fyrr en 6.maí 2023. 
Strax var ljóst að aðgerða var þörf og kallaði ég á lögreglu til að losa hross sem var fast í girðingu og einnig kallaði ég á vakthafandi dýralækni til að sinna hesti sem gat hvorki gengið né staðið. 
Margir hestar voru í slæmu ástandi. Meira gat ég ekki gert þar sem ég var beðin um að yfirgefa svæðið af lögreglunni að beiðni eiganda hrossanna.
Og sagan endurtekur sig.
Hestar eru enn á Laugarbóli.
Aðstæður í dag eru að öllu leyti óviðunandi.
Hrossin eru 24 þar af eitt nýkastað folald. Fylfullar merar eru 6-7, þar af sýnist mér eitt mertryppi sem er sennilega 3ja vetra vera fylfullt. Það tryppi er grannt, vansælt, var út úr hópnum og með rennsli úr nösum.
Tvær hryssur kasta mjög fljótlega og hinar sennilega í næsta mánuði (nóvember !).
Graðhestar eru a.m.k 3 og sennilega eru hesttryppin ógelt.
Eitt tryppið hefur slasast alvarlega á hægri framfæti. Ljótt ör er eftir það slys.
Hestarnir ráfa um allar næstu jarðir enda liggja girðingar að mestu á hliðinni og lausir strengir eru um allt, gaddavírsstrengir og þanvír. 
Engin ummerki voru um vetrarfóður fyrir þessi hross. Það ætti ekki að þurfa að taka fram hversu afskekkt Laugarból er og hversu erfitt aðgengi er að þessum stað þegar færð fer að versna.
Núverandi eigendur Laugarbóls hafa ekkert með þetta að gera. Fyrrum eigandi Laugarbóls á þessi hross.
Þrátt fyrir alvarlegt tilfelli síðastliðið vor er varðar velferð dýra á Laugarbóli í Arnarfirði er staðan enn slæm. Því spyr ég:
Er eðlilegt að merar séu að kasta fram á harða vetur, eftirlitslausar, án skjóls og fóðurs?
Eiga þessa merar eða mertryppi að berjast fyrir lífi sínu og folalda sinna næsta vetur eins og tíðkast hefur undanfarin ár? 
Hversu slæmt þarf ástandið að vera svo einhver viðbrögð verði af hálfu Matvælastofnunarinnar í þágu velferð dýra?
Óska ég eftir að fá svar hvað verði gert í sambandi við þessi hross í landi Laugarbóls í Arnarfirði. 
 
Steinunn Árnadóttir
áhugakona um velferð dýra

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -