Nóttin hjá lögreglu var heldur annasöm en sinnti lögregla 42 málum. Óskað var eftir aðstoð lögreglu í Laugardal vegna líkamsárásar og var málið afgreitt með viðeigandi aðgerðum. Skömmu síðar ætlaði lögregla að aðstoða mann í annarlegu ástandi í hverfi 108. Sá afþakkaði bæði aðstoð lögreglu og sjúkraliðs. Skömmu fyrir miðnætt barst lögreglu tilkynning um kannabislykt í Hlíðahverfi. Þegar lögregla kom á vettvang flúði meintur gerandi á rafmagnshlaupahjóli. Var hann ekki einsamall á hlaupahjólinu en hundurinn hans var framan á pallinum. Við það hófst stuttur eltingaleikur sem endaði á Klambratúni en þar var maðurinn handtekinn. Bæði hann og hundurinn voru fluttir á lögreglustöð þar sem maðurinn undirritaði leitarheimild. Lítið magn af fíkniefnum fundust við húsleit.
Síðar um nóttina, um klukkan hálf fjögur, hafði rekstrarstjóri fyrirtækis í miðbænum samband við lögreglu vegna yfirstandandi innbrots. Lögregla fór á vettvang og handtók meitan þjóf innandyra. Maðurinn neitaði fyrir að hafa brotist inn og sagðist hafa verið á staðnum um kvöldið og sofnað. Umhverfis manninn voru tómar áfengisdósir og þegar betur var að gáð voru engin merki um þjófnað eða innbrot. Því lítur út fyrir að maðurinn hafi sofnað og starfsmenn læst hann inni þar sem hann svo vaknaði síðar um nóttina með þeim afleiðingum að öryggiskerfi fyrirtækisins fer í gang. Manninum var því sleppt úr haldi. Í Grafarvogi var óskað eftir aðstoð lögreglu vegna manns í annarlegu ástandi. Sá var sagður hafa sparkað í hund. Þá sinnti lögregla almennu eftirliti en nokkrir voru stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum vímuefna.