Föstudagur 3. febrúar, 2023
2.1 C
Reykjavik

Sigga Eyþórs: „Ég átti svo tvö börn í millitíðinni og var því orðin þriggja barna móðir 25 ára“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Sigga ólst upp í Miðbænum en flutti til Englands þegar hún var tveggja ára. Á þeim tíma var Eyþór, pabbi hennar, að gera það gott með Mezzoforte. „Við bjuggum þar í sirka tvö ár og komum svo aftur heim. Foreldrar mínir sögðu mér að ég hafi sungið frá því að ég var nokkurra mánaða gömul og spilað á píanó frá því að ég var sirka 5 eða 6 ára.

Við bjuggum í Miðbænum þangað til ég varð 10 ára, en þá fluttum við í Vesturbæinn þar sem ég gekk í Hagaskóla. Þegar foreldrar mínir fluttu síðan í Grafarvoginn varð ég eftir og fór að búa með þáverandi kærasta mínum. Þegar ég var 16 ára fór ég út til Kaupmannahafnar sem au pair hjá Kikku (rithöfundinum Kristlaugu Maríu Sigurðardóttur) á meðan hún var að skrifa Ávaxtakörfuna. Það var einstök reynsla.“

Ég átti svo tvö börn í millitíðinni og var því orðin þriggja barna móðir 25 ára

Nokkrum árum síðar eignaðist Sigga sitt fyrsta barn með æskuástinni. „Ég fór í sjúkraliðanám þegar fyrsta barnið mitt var eins árs. Bókleg fög hafa aldrei höfðað mikið til mín svo að ég fór ekki í menntaskóla. Ég hef alltaf haft mjög mikinn áhuga á heilbrigðisvísindum. En ástæðan fyrir því að ég ákvað að fara í sjúkraliðann var að ég hafði hugsað um ömmu mína sem var með krabbamein. Hjúkrunarkonurnar sem sáu um hana sögðu við mig: „Þú ert svo góð í þessu, þú ættir bara að fara að læra þetta.“ Það snerti einhvern streng hjá mér. Ég átti svo tvö börn í millitíðinni og var því orðin þriggja barna móðir 25 ára þegar ég kláraði sjúkraliðann og stúdentsprófið.“

Sigga giftist Þorsteini Einarssyni, söngvara og gítarleikara í Hjálmum. „Við eigum tvö yndisleg börn saman. Þegar leiðir okkar skildu eftir langt samband var ég einstæð um tíma, þangað til ég kynntist yndislegum manni árið 2017. Hann er frá Bandaríkjunum og núna búum við hér á Íslandi og eigum eitt lítið örverpi saman.“

Sigga ásamt þremur sonum, dóttur og manninum sínum. Aðsend mynd.

Mikilvægt að rækta vitundarsamband við líkama sinn

„Eftir sjúkraliðann fór ég í Listaháskólann og kláraði nám í tónsmíðum. Samhliða því stofnaði ég hljómsveitina Sísý Ey með systrum mínum og vann að hinum ýmsu tónlistarverkefnum. Fyrir utan tónlistina hafa heilbrigðismál alltaf verið mér hugleikin, sem varð til þess að ég bætti við mig námi í einkaþjálfun. Það var frábært nám. En mig langaði að kafa dýpra og bæta andlega þættinum inn í æfingakerfið. Ég er ekki einungis að þjálfa fólk til þess að styrkja sig líkamlega, heldur finnst mér ekki síður mikilvægt að rækta vitundarsamband og bera virðingu fyrir líkama sínum.

Það þýðir ekki að fara bara í megrun og refsa sjálfum sér stanslaust og vera bara: ég ætla að fara með þennan ógeðslega líkama sem ég hata í ræktina og þræla honum út.

Þannig að þegar ég kláraði námið í einkaþjálfaranum fannst mér jóga vera rökrétt næsta skref hjá mér. Ég fann mér jógakennara og hef upp frá því stundað jóga næstum daglega. Andleg málefni hafa alltaf verið mikilvægur hluti af mínu daglega lífi.“

- Auglýsing -

Sigga tók sér tímabundið hlé frá tónlistinni þegar hún eignaðist sitt yngsta barn. Þegar Covid skall á ákvað hún svo að bæta við sig námi í hjúkrun. „Mig langar að auka þekkingu mína á heilbrigði til að geta hjálpað fólki að huga vel að sér. Ég hef í gegnum tíðina átt erfitt með samanburðinn sem fylgdi mér við að vera tónlistarkona. Það var ekki alltaf uppbyggilegt. Það getur verið erfitt að lesa gagnrýni um sjálfan sig. Þú opinberar þig svo rosalega í listinni, þannig að það er auðvelt að taka neikvæðri gagnrýni mjög persónulega.“

Ég viðurkenni alveg að mér sárnaði þegar ég sá sumar athugasemdir sem komu eftir sigurinn í Söngvakeppninni

Núna er Sigga aftur komin af stað með systrum sínum í tónlistinni. Hún finnur fyrir miklum styrk og er tilbúin til að helga sig alfarið þessu nýja verkefni. „Það er vissulega erfitt að lesa óbilgjarna gagnrýni, sem manni finnst ekki sett fram af virðingu. Ég held að margir tónlistarmenn fái illt í hjartað og hætti jafnvel í tónlist, því það getur verið svo erfitt að finna sjálfstraustið þegar búið er að segja ósanngjarna hluti. Auðvitað hefur fólk mismunandi skoðanir á því sem maður gerir, en sé gagnrýnin ekki sett fram af virðingu þá getur það verið sárt. Ég viðurkenni alveg að mér sárnaði þegar ég sá sumar athugasemdir sem komu eftir sigurinn í Söngvakeppninni. Ég staldraði hins vegar ekkert við það. Við erum sterkar saman systurnar og við erum með góðan hóp í kringum okkur sem heldur vel utan um okkur.“

Kvíði og áfengi er ekki góður kokteill

„Ég greindist seint með ADHD, rétt fyrir þrítugt, en hafði vitað lengi að ég væri líklegast með ADHD. Þegar ég hugsa til baka þá hefur þetta sennilega verið fyrsta alvöru áskorunin. Það hefur haft mikil áhrif á allt mitt líf. Maður er með hugann úti um allt og upplifir sig alltaf að vera að trufla. Sérstaklega í skólakerfi þar sem ætlast er til þess að maður haldi sig innan ákveðins ramma. Margir kennarar höfðu litla trú á mér og voru neikvæðir í minn garð.

- Auglýsing -

Næsta stóra áskorunin var að takast á við átröskun sem ég þróaði með mér eftir að ég átti fyrsta barnið mitt. Ég fór í meðferð við átröskun hjá Hvíta bandinu og vann mig út úr henni og verið í bata síðan 2015. Það var mjög stórt verkefni fyrir mig, jafnvel eitt það erfiðasta.“

Því næst tók við tímabil þar sem Sigga komst að því að hún átti ekki samleið með áfengi.  „Ég er oft að kljást við kvíða og þegar maður notar alkóhól til að deyfa sig þá verður það fljótt vítahringur. Kvíði og áfengi er ekki góður kokteill. Kvíðinn bara eykst. Ég er því búin að vera edrú í tíu ár, fyrir utan nokkra mánuði. Á þeim tíma hafa lífsgæði mín aukist mikið. Hugleiðslan og heilbrigt líferni hefur gjörbreytt öllu hjá mér. Ég gæti ekki hugsað eins vel um börnin mín og ég geri í dag ef ég hefði ekki látið af þessari sjálfhverfu sem fylgir því oft að lifa óábyrgum og óheilbrigðum lífsstíl að fara illa með áfengi.

Hjá mér snerist þetta um að átta mig á því að ég væri ekki upphaf og endir á þessu öllu. Þó svo að ég muni kannski aldrei komast að tilganginum með jarðvist minni, þá þarf ég samt að trúa á það góða. Við erum öll bara sálir á ferðalagi með mismunandi ramma.“

Sigga segir: „Raskanirnar voru á endanum mér í hag. Það truflar mig óneitanlega oft að vera með ADHD, en oft er það mér í hag.

Ég er líka mjög glöð að vera með ADHD, það er ekki bara áskorun, heldur hef ég áhuga á mörgu og vil alltaf læra meira. Forvitnin mín gerir það að verkum að ég hef mikinn áhuga á öðru fólki. Ég hef endalausan áhuga á því að fræðast um nýja hluti. Ég get verið algjörlega filters-laus, sem getur oft verið fyndið og öðrum til skemmtunar. Ofvirknin getur líka komið sér vel og hjálpað mér að vinna vel og vera dugleg.

Ég hef alltaf upplifað mig vera verri en ég er og hef óskaði þess að vera einhvern veginn betri. Nú er ég bara þannig að ég næ að samgleðjast sjálfri mér og öðrum og vera með, í stað þess að bera mig alltaf saman við aðra.“

Hægt er að lesa viðtalið í heild sinni inn á vefblaðinu HÉR.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -