Fimmtudagur 2. maí, 2024
6.8 C
Reykjavik

Menningarsáttmáli ríkisins

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ásgeir H Ingólfsson skrifar.

Það er verið að mynda nýja ríkisstjórn. Og já, hún er furðu ný þótt það séu sömu flokkar – af því hinn meinti vinstri græni flokkur tapar frá sér þeim tveimur ráðuneytum sem maður hefði svona haldið að hann myndi helst vilja verja. En nóg um það, við ætlum vitaskuld að ræða þann málaflokk sem Menningarsmyglinu ber að verja – sjálfa menninguna.

Af mörgu vondu er nefnilega þetta verst: Viðskipta- og menningarmálaráðuneyti.

Já, lesið þetta aftur: Viðskipta- og menningarmálaráðuneyti.

Þetta er í alvörunni blautasti draumur frjálshyggjunnar, þar sem menning verður alfarið skilgreind eftir viðskiptahagsmunum, eftir því hvað hún skilar mörgum ferðamönnum til landsins, eftir sölutölum. Menningarmálaráðuneyti á einmitt að vernda menninguna gagnvart frekjunni í bisnessköllunum – en það er hætt við að það verði lítil vörn í því núna.

Nú hefur Lilja Alfreðsdóttir verið með betri ráðherrum fráfarandi ríkisstjórnar – það gefur manni kannski smá von að hún verði þarna áfram, en það kemur ráðherra eftir þennan – og sá næsti gæti vel tekið samtvinnun menningar og viðskipta alla leið ef Lilja gerir það ekki.

- Auglýsing -
Myndin er úr pdf skjalinu af sáttmálanum.

Og þótt það hefði verið gaman að fá sérstakt menningarmálaráðuneyti þá var fráfarandi staða líklega sú næstbesta, menning og menntun eiga ágætlega saman. Menntamálin hafa hins vegar líka verið tekin í sundur – og annars vegar orðið til Skóla- og barnamálaráðuneyti (sem er svosem ekki algalin hugmynd) og hins vegar nýsköpunar-, iðnaðar- og háskólaráðuneyti. Sem er mun vafasamari hugmynd. Atli Harðarson orðar það ágætlega í bókinni Tvímælis (Arngrímur Vídalín fær þakkir fyrir ábendinguna):

„Hugmyndin um að skólar þjóni atvinnulífinu vekur fleiri spurningar en þær sem Caplan ræðir enda er það skrýtin hugmynd að jafn stórt svið mannlífsins og menntunin gegni aðeins þjónustuhlutverki. Hún er næstum jafn skrýtin eins og ef einhver héldi að heilbrigðiskerfið væri til þess eins að stuðla að árangri í íþróttum. Sennilega eru vensl menntunar og farsældar flóknari en svo að menntunin stuðli aðeins að efnalegri velmegun. Menntun er sjálf hluti af góðu lífi. Fólk sem á til hnífs og skeiðar bætir líf sitt til dæmis með því að læra að meta tónlist og bókmenntir ekkert síður en með því að eignast meiri peninga.

Atvinnurekendur nítjándu aldar vildu sjálfsagt flestir að piltar lærðu að slá með orfi og ljá og róa til fiskjar á opnum bátum og að stúlkur kynnu að sitja lömb og spinna ull. Þetta var vissulega þarft og nauðsynlegt. Atvinnuhættir tuttugustu aldar spruttu þó ekki af þessari kunnáttu heldur miklu fremur af því bókviti sem sagt var að yrði ekki í askana látið. Framfarir síðustu aldar voru ekki síst afsprengi frjálsra lista: Vísindalegrar hugsunar, rökvísi og tungumálakunnáttu. Þótt flest störf krefðust ef til vill lítillar þekkingar á vísindum og fræðum var samt væntanlega samband milli þess háttar menntunar annars vegar og hæfni til nýsköpunar, uppfinninga og ýmissa framfara hins vegar.

- Auglýsing -

Við getum horft á atvinnulíf nítjandu aldar úr fjarlægð og þakkað fyrir að skólar þess tíma kenndu fleira en þá þurfti að nota í vinnu. Er ekki sennilegt að á næstu öld og þarnæstu segi menn það sama um okkar tíma og verði ánægðir með að margir lærðu annað en nú þarf til að vinna fyrir sér?

Atvinnulíf framtíðarinnar verður væntanlega öðru vísi en atvinnulíf dagsins í dag og hvað úr því verður veltur meðal annars á því hvaða þekkingar menn afla sér nú umfram þá sem þarf að nota á vinnustöðum samtímans. Þetta ætti raunar að vera augljóst. Ef margir læra tónlist, leiklist og kvikmyndagerð þá verða nokkru seinna til fyrirtæki sem selja eitthvað á borð við sjónvarpsþætti og ef margir læra líffræði og efnafræði verða kannski til fyrirtæki sem framleiða snyrtivörur. Ef hópur fólks lærir eitthvað sem fólk á mínum aldri botnar ekkert í og veit varla hvað heitir þá verður mögulega til eitthvað sem ég á engin orð yfir. Af þessum sökum er sú hugmynd að skólakerfi skuli lagað að þörfum atvinnulífs nútímans ekki einungis óraunsæ. Hún er trúlega einnig óheppileg fyrir atvinnulíf framtíðarinnar.“

Þetta mætti vel heimfæra á listir og menningu líka. Ef einhver hefði til dæmis stungið upp á því að fara að skrifa íslenska reyfara fyrir aldarfjórðungi hefði viðkomandi sjálfsagt fengið þau svör að það væri miklu hagkvæmara að halda bara áfram að þýða Alistair McLean (eða nærri-því-nafna hans og arftaka Alastair MacNeill).

Og það er ekki bara pláss fyrir söluhöfunda og ljóðskáld sem lítið selja, heldur geta þau ekki án hvors annars verið. Ég er ekkert viss um að Arnaldur væri til ef Jóhamar og Dagur Sigurðarson hefðu ekki verið til, rétt eins og Laxness væri ekki til án skáldsins á Þröm.

Þeir hefðu sjálfsagt fæðst – en þeir væru allt aðrir höfundar með allt önnur tækifæri – ef þeir væru þá á annað borð höfundar. Þar með er ég ekki einu sinni að segja að Arnaldur hafi endilega lesið Jóhamar og Dag – ég hef ekki hugmynd um það – en þeir spretta upp úr sama jarðvegi, sem þarf að vera frjór og fjölbreyttur, annars verður uppskerubrestur alls staðar.

Fagurgali, loforð og framkvæmdir

En nóg um ráðuneytaskiptinguna – hvað stendur um menningu í stjórnarsáttmálanum? Ég tók það fram og birti allt neðst í færslunni – en skoðum þetta hér aðeins betur.

Sumt er auðvitað hefðbundinn fagurgali og annað órætt – tal um miklvægi og endurskoðun og svo framvegis út frá einhverjum skýrslum getur farið í báðar áttir, eftir því hvort skýrslurnar eru góðar eða vondar og eftir því hvort þær verða túlkaðar rétt eður ei.

En það eru nokkrir konkret atriði þarna sem er rétt að leggja á minnið og minna ríkisstjórnina á ef hún gleymir þeim. Með öðrum orðum, hérna eru loforðin:

„Áfram verður unnið að því að styrkja faglega starfslauna- og verkefnasjóði listamanna með sérstakri áherslu á að starfslaunin tryggi betur afkomu þeirra sem starfa í listum / við skapandi greinar.“

Munum þetta sérstaklega vel – og gerum kröfu um að þetta verði alvöru styrking – meðal annars með tilliti til verðbólgu, mannfjölgunar og svo framvegis.

„Áfram verður unnið að þarfagreiningu vegna óperustarfsemi í landinu, með það að markmiði að setja á laggirnar Þjóðaróperu.“

Ef stjórnin situr í fjögur ár þá hlýtur að vera hægt að setja þá kröfu um að þessi Þjóðarópera verði tilbúin á þessu kjörtímabili – þarfagreining þarf ekki að taka heilt kjörtímabil (þótt það kæmi ekki á óvart að hún geri það).

„Unnið verður að því að koma menningararfi þjóðarinnar yfir á stafrænt form til að tryggja varðveislu og aðgengi almennings.“

Góðu fréttirnar er að það er þegar byrjað á þessu í kvikmyndunum, þar sem einhvers konar streymisveita fyrir íslenskar myndir er í býgerð. Sjáum til hvernig þróunin verður í þessu – og hvort ríkið styrki þetta almennilega.

„Menningarsókn, aðgerðaáætlun til 2030, verður hrint í framkvæmd.“

Hrint í framkvæmd, ekki bara lögð fram – þannig að líklega styttist í þetta. Svo er bara vonandi að það sé eitthvað vit í þessari sókn.

„Ráðist verður í uppbyggingu framtíðarhúsnæðis Listaháskóla Íslands (LHÍ). Samhliða er mikilvægt að fram fari greining á framtíðarfyrirkomulagi LHÍ hvað varðar rekstrarform og skólagjöld.“

Miðað við þetta er nú ekki ósanngjörn krafa að krefjast þess að húsnæðismálin verði komin í lag í lok kjörtímabils.

„Alþjóðlega samkeppnishæft stuðningskerfi við framleiðslu kvikmynda- og sjónvarpsefnis verður eflt. Við ætlum að styðja enn frekar við greinina með hærri endurgreiðslum á skýrt afmörkuðum þáttum til að stuðla að því að fleiri stór verkefni verði unnin alfarið á Íslandi og tryggja aukinn fyrirsjáanleika í fjármögnun kerfisins.“

Ég ætla rétt að vona að þetta verði nógu vel útfært, svo næsta stóra víkingamyndin sem Sjón skrifar verði ekki líka filmuð á Írlandi.

Og þó margt af þessu hljómi ágætlega þá er rétt að muna að þetta er ríkisstjórnarsáttmáli – hann snýst um það að segja allt fallegt og margt loðið. Það eru efndirnar sem skipta máli – en það hjálpar okkur vonandi að muna loforðin.

Svo er vitaskuld ýmislegt hér sem er ástæða til að hugleiða. Menningin er rækilega pöruð saman við ferðaþjónustu, þær eru saman í fyrirsögn og er enn frekar hamrað á tengslunum í þessari setningu: „Heimsfaraldurinn hefur haft í för með sér áskoranir fyrir þau sem vinna í menningu og ferðaþjónustu og því blasa svipuð úrlausnarefni við á þeim sviðum á næstu misserum.“

Nú er rétt að báðir hafa tekið högg í heimsfaraldrinum – en eru samt úrlausnarefnin endilega svipuð? Ég held það sé mikill misskilningur að svo sé. Nema vissulega að flestir eru aðeins blankari en áður, en það á við um fleiri starfssvið.

Ég tek líka fram að það er alls konar sniðugt og skapandi og frumlegt búið til í samvinnu ferðaþjónustu og menningar – en gildrurnar eru líka miklu fleiri, ótal dæmi um skrumskælingu á menningu sem er svo pökkuð inní túristavænar umbúðir. Það er fínt að menningin og ferðamennskan hittist á barnum og tali saman. En ég hef efasemdir um að hoppa í hjónaband af því vafasamir hjúskaparmiðlarar ríkisstjórnarinnar stinga upp á því.

Látum þetta duga í bili – og hér er þetta fyrir neðan, beint af kúnni. Já, og ef þið smellið á PDF-útgáfuna sjáið þið hvers konar hroðbjóður ríkisstjórninni finnst góð sjónræn list. Martraðarkennd tölvugerð fjöll og meintar manneskjur sem líta út eins og róbótar.

Við ætlum að efla íslenska menningu og ferðaþjónustu

Menning og listir eru bæði uppspretta og birtingarmynd fjölbreytts og sterks samfélags. Við ætlum áfram að tryggja undirstöður íslensks menningar- og listalífs og skapa ný tækifæri fyrir íslenska listamenn. Heimsfaraldurinn hefur haft í för með sér áskoranir fyrir þau sem vinna í menningu og ferðaþjónustu og því blasa svipuð úrlausnarefni við á þeim sviðum á næstu misserum.

Íslensk tunga er dýrmæt auðlind og á stóran þátt í að skapa sterkt samfélag. Íslenskan er tenging okkar við sögu okkar og menningu og mikilvægt að huga enn betur að íslenskukennslu. Við ætlum að styðja við tunguna með því að leggja áherslu á að íslenskan sé skapandi og frjór hluti af umhverfi okkar. Sérstök áhersla verður lögð á að börn og ungmenni nýti tungumálið í leik og námi með auknu framboði af nýju námsefni á íslensku og með því að hlúa að barnamenningu.

Frjálsir fjölmiðlar eru forsenda opinnar lýðræðislegrar umræðu og veita stjórnvöldum, atvinnulífinu og helstu stofnunum samfélagsins nauðsynlegt aðhald. Ríkisstjórnin leggur áherslu á fjölbreytni í flóru fjölmiðla með öflugu almannaútvarpi og einkareknum fjölmiðlum.

Öflugt lista- og menningarlíf er mikilvægur hluti samfélaganna hringinn í kringum landið. Stór þáttur í aðdráttarafli Íslands sem ferðamannalands er fólginn í sterku lista- og menningarlífi og brýnt að hlúa vel að íslenskri frumsköpun, meðal annars með því að styrkja faglega starfslauna- og verkefnasjóði listamanna. Ráðist verður í uppbyggingu framtíðarhúsnæðis Listaháskóla Íslands (LHÍ). Samhliða er mikilvægt að fram fari greining á framtíðarfyrirkomulagi LHÍ hvað varðar rekstrarform og skólagjöld. Einnig verður ráðist í stefnumörkun og heildarendurskoðun á tónlistarfræðslu á öllum skólastigum. Loks verður hlúð að safnastarfi með aukinni stafrænni skráningu safnakosts og áherslu á sýningar og miðlun sem víðast í samfélaginu.

Kvikmyndagerð hefur orðið sífellt mikilvægari þáttur í íslensku atvinnu- og menningarlífi síðustu ár. Tækifærin innan greinarinnar eru mikil og hafa áhrif á atvinnu um allt land. Alþjóðlega samkeppnishæft stuðningskerfi við framleiðslu kvikmynda- og sjónvarpsefnis verður eflt. Við ætlum að styðja enn frekar við greinina með hærri endurgreiðslum á skýrt afmörkuðum þáttum til að stuðla að því að fleiri stór verkefni verði unnin alfarið á Íslandi og tryggja aukinn fyrirsjáanleika í fjármögnun kerfisins.

Ferðaþjónustan verður áfram stór þáttur í íslensku atvinnu- og efnahagslífi og er mikilvægt að hún fái tækifæri til uppbyggingar eftir áföll heimsfaraldursins. Lögð verður áhersla á að ferðaþjónusta á Íslandi sé arðsöm og samkeppnishæf atvinnugrein í sátt við náttúru, íslenska menningu og tungu. Við viljum að Ísland sé leiðandi í sjálfbærri þróun og nýsköpun í ferðaþjónustu. Áfram verður unnið að uppbyggingu innviða í takt við fjölgun ferðamanna.

Menningarmál

Áfram verður unnið að því að styrkja faglega starfslauna- og verkefnasjóði listamanna með sérstakri áherslu á að starfslaunin tryggi betur afkomu þeirra sem starfa í listum/við skapandi greinar.

Umhverfi tónlistargeirans á Íslands verður endurskoðað í framhaldi af skýrslu starfshóps þar um.

Áfram verður unnið að þarfagreiningu vegna óperustarfsemi í landinu, með það að markmiði að setja á laggirnar Þjóðaróperu.

Staða einkarekinna fjölmiðla verður metin áður en núverandi stuðningskerfi rennur út og ákveðnar aðgerðir til að tryggja fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði og öflugt almannaútvarp.

Unnið verður að því að koma menningararfi þjóðarinnar yfir á stafrænt form til að tryggja varðveislu og aðgengi almennings.

Sett verður stefna um rafræna langtímavörslu skjala og rafrænir innviðir opinberrar skjalavörslu endurnýjaðir til að mæta þessum kröfum.

Menningarsókn, aðgerðaáætlun til 2030, verður hrint í framkvæmd.

Barnamenningarsjóður verður festur í sessi.

Pistillinn birtist fyrst á vefsíðunni smygl.is.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -